Breska ríkisstjórnin íhugar hvort leggjast þurfi í pólitískar aðgerðir gegn BBC eftir niðurstöðu rannsóknar Dysons lávarðar á umdeildu viðtali við Díönu prinsessu. Viðtalið birtist í þætti Panorama árið 1995 og kom fram í niðurstöðum Dysons að það hefði verið tryggt með blekkingum og fölsunum.Viðtalið vakti gríðarlega athygli á sínum tíma þar sem prinsessan ræddi meðal annars vandamálin í hjónabandi sínu og Karls Bretaprins.
Sonur Díönu og Karls, Vilhjálmur Bretaprins, ásakaði BBC fyrir að hafa brugðist móður hans og almenningi. Hann sagði viðtalið hafa leitt til þess að samband foreldra hans versnaði. Þá sagði Vilhjálmur að sér þætti sorglegast að móðir hans hefði aldrei fengið að vita að ráðskast hefði verið með hana.
BBC hefur beðið Vilhjálm og Harry bróður hans formlega afsökunar á vinnubrögðunum.