Borgarkerfið þvælist fyrir í stóru og smáu

Eigandi ónýts húss við Þórsgötu í Reykjavík hefur í 17 ár leitað leyfis til að rífa það, en án árangurs. Frásögn hans af viðureign sinni við Reykjavíkurborg vegna hússins birtist í Morgunblaðinu í gær og er hún líkari skáldskap en veruleika.

Guðmundur Kristinsson byggingameistari keypti húsið til þess að rífa það og byggja nýtt árið 2004. Húsið er tæpir 50 fermetrar, klætt bárujárni, og ónýtt. Húsið hefur ugglaust einhvern tímann verið huggulegt, en langt er síðan það var og nú er það blettur á götumyndinni.

Á þessum slóðum hafa mörg ný hús risið og gömul hús vikið fyrir þeim. Sérstaða hússins á Þórsgötu virðist engin vera.

Guðmundur lýsir því í samtali við Morgunblaðið hvernig hann hafi lagt fram fjölda fyrirspurna og erinda til borgarinnar. Hann hafi verið með formlegt mat um að húsið væri ónýtt. Aldrei hafi hann þó fengið leyfi til að rífa það. Hann hafi haft hugmyndir um að reisa hús með tíu íbúðum. Þegar teikningarnar þóttu ekki passa inn í götumyndina lét hann laga þær. Þá reyndist gert ráð fyrir of mörgum íbúðum í húsinu að mati borgarinnar, þær mættu ekki vera fleiri en átta. Guðmundur fækkaði íbúðunum í sjö til að koma til móts við þessar kröfur. Í tvígang hafi hann fengið leyfi til að reisa nýtt hús, en aldrei fengið leyfi til að rífa húsið sem fyrir er.

Á meðan hafa árin liðið og húsið drabbast nú niður. Hústökufólk hefur hreiðrað um sig í húsinu. Nú síðast hafði maður sest þar að og safnað að sér gaskútum, olíufötum og bensínbrúsa. Í einu horninu hafði hann komið fyrir kamínu og brenndi í henni pappír og fleira.

Afgreiðsla borgarinnar á þessu máli er með ólíkindum. Guðmundur lýsir því að einn embættismaður hafi sagt við sig að hann ætlaði að tefja málið þar til húsið yrði hundrað ára og friðað, en pólitískur fulltrúi sagt í hálfkæringi að hann ætti bara að kveikja í því.

„Svona eru móttökurnar sem ég hef fengið hjá þessu liði. Þetta hefur verið tafið fram og til baka og hent til og frá. Það er eins og enginn taki ákvörðun,“ segir Guðmundur í viðtalinu.

Það er ekki hægt að una svona afgreiðslu þar sem fólk er látið velkjast í kerfinu hátt í tvo áratugi án þess að verða neitt ágengt. Það hefur á sér blæ fáránleikans að leyfa byggingu nýs húss, en banna að rífa það sem fyrir er. Hlutverk borgarkerfisins á að vera að þjóna borgarbúum og það á að vera í fyrirrúmi að gera það hratt og vel. Þetta dæmi vekur þá spurningu hvort ekki eigi einfaldlega að setja mörk á það hversu lengi mál megi velkjast í borgarkerfinu.

Þrautagangan vegna hússins á Þórsgötunni er til lítils sóma fyrir borgina, en hún er ekki einsdæmi um þvergirðingshátt og furðulegar uppákomur í borgarkerfinu.

Á fimmtudag birtist frétt á mbl.is um íbúa í nýju hverfi í Vogabyggð, sem gert hefur verið að leggja pínulítinn grasblett á einkalóð sinni. Þessi kvöð á að vera hluti af stefnu borgarinnar um að leggja áherslu á græn svæði. Þetta mál hefur áður verið til umfjöllunar og í fréttinni gagnrýnir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, skilmála borgarinnar og segir þau skýra birtingarmynd forræðishyggju.

Fréttinni fylgdi mynd af grasblettinum og virðist hann vera um tveir fermetrar bak við grindverk. Grasblettur þessi er vandræðalegt dæmi um það þegar kerfishyggjan valtar yfir skynsemina.

Fyrir nokkrum árum kom skýrsla frá umboðsmanni borgarbúa þar sem rakin voru mörg dæmi um lélega þjónustu. Í skýrslunni kom fram að meira að segja umboðsmaðurinn var dreginn á svörum í borgarkerfinu.

Hér hafa verið nefnd tvö dæmi um það hvernig borgarkerfið þvælist fyrir í stóru og smáu og menn missa sjónar af tilgangi þess. Það er ekki spurt: „Hvað get ég gert fyrir þig?“ Fremur eru menn látnir bíða í 17 ár og hafa enn ekki fengið svar.