Af listum
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
Eftirvæntingin var nánast áþreifanleg í salnum þegar Veisla var loks frumsýnd á Stóra sviði Borgarleikhússins um liðna helgi, rúmu ári eftir að upphaflega stóð til að frumsýna hana á Litla sviðinu. Eftir margra mánaða þjálfun í nálægðartakmörkunum, heimavinnu, sprittun og grímunotkun út af kórónuveirufaraldrinum sem gengur yfir heimsbyggðina eru mannmargar veislur og mannfagnaður hvers konar nánast eins og óljós minning. Áhugavert verður að sjá hvort við dettum sjálfkrafa í sama farið þegar takmörkunum verður alfarið aflétt eða hvort breyttar venjur séu komnar til að vera. Munum við til dæmis faðmast eins glatt og heilsa fólki með handabandi?
Líkt og nafnið gefur til kynna beinir Veisla sjónum sínum að öllum þeim veislum sem við höfum misst af í heimsfaraldrinum, hvort sem það eru afmælin, þorrablótin, árshátíðirnar, útilegurnar, ættarmótin, brúðkaupin, fermingarveislurnar, matarboðin eða Pálínuboðin. Í anda revíusýninganna er Veisla laus í reipunum, samsett úr óskyldum grínatriðum þar sem dans og tónlist leikur stórt hlutverk. Grínið er nær undantekningarlaust góðlátlegt og augljóslega ekki ætlunin að særa neinn þessa kvöldstund þar sem stuðið er við völd. Margar hugmyndir hreinasta afbragð og vel útfærðar. Á stöku stað var samt eins og brandarinn væri endurtekinn að óþörfu. Ef ekki væri fyrir örfáa neðanbeltisbrandara mætti segja að Veisla henti allri fjölskyldunni sem kærkomin stuðsýning sem kitlar hláturtaugar eftir erfiðan vetur.
Leikstjórinn Bergur Þór Ingólfsson heldur fallega utan um alla þræði sýningarinnar og þar nýtist reynsla hans úr umfangsmiklum söngleikjum síðustu ára afar vel. Hér er öllu til tjaldað á Stóra sviðinu með veislutertum í yfirstærð, reykvélum, glimmeri í anda Mamma Mia! og bakveggjum sem skipta litum líkt og um söngatriði í Eurovision væri að ræða, þar sem dansar úr smiðju Unnar Elísabetar Gunnarsdóttur standa fyrir sínu. Leikmynd Evu Signýjar Berger þjónar uppfærslunni vel og búningar eru stílhreinir í einfaldleika sínum. Bleik jakkafötin sem einkenna fyrri hlutann víkja fyrir svarta litnum og glimmeri eftir hlé. Bestir eru samt brauðbúningarnir sem stela hreinlega senunni í lokasöngatriðinu fyrir hlé. Góð lýsing Inga Bekk er síðan punkturinn yfir i-ið.
Hin fjölhæfa Saga Garðarsdóttir, sem réttnefnd hefur verið fyndlistarkona, hefur yfirumsjón með handritinu, en meðhöfundar hennar eru Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Sigurður Þór Óskarsson og Halldór Gylfason. Öll leika þau í sýningunni ásamt Birni Stefánssyni og Davíð Berndsen, en sá síðarnefndi samdi tónlistina fyrir utan sitt lagið eftir hvorn, Prins Póló og Snorra Helgason. „Upphafslagið“ er mikill eyrnaormur og stendur rýnir sig enn að því að raula reglulega línuna „Það bara verður að vera gaman“. Af öðrum tónlistaratriðum verður að nefna frábæran flutning Sigurðar Þórs á „Makalaust“ og dásamlegan „Ástardúett“ Halldórs, í hlutverki mannsins sem aldrei er boðið í partí, og Kötlu Margrétar, í hlutverki konunnar sem enginn mætir í veislur til. Uppáhaldsatriði kvöldsins var hins vegar kórpartíið þar sem leikhópurinn fór á kostum.
Styrkur Veislu felst í þeim sanna tón sem í aðstæðunum birtast. Við þekkjum flestöll þá tilfinningu að vera utanveltu á ættarmóti eða vera makinn í vinnustaðapartíi sem skilur enga brandara kvöldsins, við höfum flest heyrt veisluræðu þar sem ræðuhaldaranum tekst einhvern veginn að láta allt snúast um sjálfan sig, við höfum örugglega öll fundið fyrir einhvers konar veislukvíða og velt fyrir okkur hvort veislan okkar sé nú örugglega nógu vel heppnuð eða haft áhyggjur af því hvort okkur takist að brydda upp á nógu skemmtilegu umræðuefni við hina gestina. Og eftir því sem væntingarnar eru meiri þeim mun styttra er í vonbrigðin.
Leikarar sýningarinnar standa sig vel í hverju atriðinu á fætur öðru þótt þeir fái mismikil tækifæri til að skína í hlutverkum sínum. Saga er dásamleg í hlutverki konunnar sem tekur að sér að mæta í veislur og vera veikasti hlekkurinn til að taka pressuna um að vera skemmtileg af öðrum gestum. Katla Margrét er frábær sem konan sem er edrú og veit af því með bíllyklana jafnt sem vandlætinguna á lofti. Sigurður Þór er yndislegur í hlutverki fermingardrengsins í miðjum mútum og góður sem kvíðni veislugesturinn.
Veisla er kærkomin skemmtidagskrá fyrir veisluþyrsta landsmenn. Hún bætir, hressir og kætir.