Vogabær ehf., sem m.a. framleiðir hinar rómuðu Vogaídýfur, skilaði 545 þúsund króna hagnaði í fyrra og jókst hann frá árinu 2019 þegar hann nam 190 þúsund krónum.
Velta félagsins jókst einnig mikið og nam rétt rúmum milljarði króna, samanborið við 831 milljón á fyrra ári. Kostnaðarverð seldra vara hélst hins vegar í hendur við tekjuaukninguna, nam milljarði og jókst um 174 milljónir frá fyrra ári. Eignir Vogabæjar námu 116 milljónum í lok síðasta árs og höfðu aukist óverulega. Skuldir félagsins höfðu hins vegar lækkað. Námu þær 43 milljónum króna samanborið við tæplega 46 milljónir í árslok 2019.
Vogabær er dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga. Hjá félaginu starfa, samkvæmt heimasíðu þess, 10 manns. ses@mbl.is