Leiðarlok Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokkssins, kveður stjórnmálin sáttur í haust.
Leiðarlok Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokkssins, kveður stjórnmálin sáttur í haust. — Morgunblaðið/Eggert
Andrés Magnússon andres@mbl.is

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, hefur ákveðið að leita ekki endurkjörs á Alþingi í komandi kosningum og segja skilið við stjórnmálin. Gunnar Bragi var upphaflega kjörinn á þing fyrir Framsóknarflokkinn í Norðvesturkjördæmi árið 2009, en situr nú fyrir Miðflokkinn í Suðvesturkjördæmi. Hann var utanríkisráðherra 2013–2016, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2016–2017. „Ég er búinn að vera í eða í kringum pólitík nánast alla ævi. Byrjaði sem krakki að sendast og snúast í kringum kosningar og fór fyrst í framboð 23 ára gamall, þá til bæjarstjórnar, en var síðan kjörinn á þing 2009, beint eftir hrun og hef verið þar síðan. Mér finnst þetta vera orðinn góður tími og réttur tími til þess að snúa mér að öðru í lífinu.“

Ætlaði aldrei á þing

Ætlaðir þú þér að verða atvinnustjórnmálamaður frá byrjun?

„Nei, alls ekki. Ætlaði aldrei að verða þingmaður. Ég hafði brennandi áhuga á stjórnmálum og fór í framboð heima á Sauðárkróki af því að ég vildi láta gott af mér leiða í minni heimabyggð. En ég var alls ekkert að stefna að því að gera stjórnmálin að starfi, hvað þá að fara á þing.

Reyndar var það þannig þegar ég fór í þingframboð, að ég hugsaði með mér að ég gæti verið í landsmálunum í 2-3 kjörtímabil, að 12 ár væru hæfilegur tími. Og nú eru komin 12 ár, svo þetta er rétti tíminn til þess að hætta hér og byrja á næsta kafla.

Síðan er það nú líka hitt, að fjölskyldan verður sjálfsagt fegin að það gerist eitthvað nýtt; það er alltaf snúið fyrir fjölskylduna þegar menn eru í stjórnmálum. En aðallega er það nú bara þetta, það er kominn tími til að gera eitthvað annað, eitthvað nýtt og spennandi.“

Feginn að sleppa?

„Já, kannski á sinn hátt,“ segir Gunnar Bragi og hlær. „En þetta er búinn að vera ákaflega áhugaverður og skemmtilegur tími og maður er búinn að gera nánast allt í pólitík, sem hægt er að hugsa sér.“

Breytt stjórnmál

Hvað stendur upp úr á þessum tíma? Hverju ertu hreyknastur af á ferlinum?

„Það sem stendur upp úr er hvernig stjórnmálin hafa þróast á þessum tíma og allt það góða fólk, í öllum flokkum, sem maður hefur kynnst, unnið með og eignast að vinum. Hvað minn feril varðar, þá er ómögulegt að tína til eitthvað eitt. Ég gæti nefnt svo margt úr utanríkisráðuneytinu sérstaklega, en einnig landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu, og svo auðvitað fjölmargt af Alþingi þann tíma, sem ég var ekki ráðherra.

En á þessum tíma, þá hefur maður náttúrlega upplifað breytingu á stjórnmálunum. Svona eftir á að hyggja, þá er það kannski hún sem stendur upp úr. Þegar ég varð aðstoðarmaður Páls Péturssonar ráðherra skömmu fyrir aldamót, þá voru stjórnmálin með talsvert öðrum brag. Þau voru yfirvegaðri og það var meira traust og virðing, milli bæði manna og sjónarmiða. Þetta er miklu meira stál í stál núna og minni vilji til þess að ná málamiðlunum.“

Skortir upp á traustið

Þú kemur auðvitað inn á þing beint eftir bankahrunið og það er óþarfi að rifja upp óðagotið og uppnámið í þjóðlífi og stjórnmálum á þeim tíma. Finnst þér það ekki hafa tekist að koma stjórnmálunum í fastari skorður?

„Ég held að það sé nokkuð langt í land með að fólk virði skoðanir hvert annars með þeim hætti sem var. Ég er viss um að það má endurreisa það traust, sem var og þarf að vera í stjórnmálunum, en það tekur tíma.

Ég efast ekki um að það er góður vilji til þess hjá öllu því góða fólki, sem er á Alþingi. En það þarf að taka umræðu um það hvernig við gerum það, því það er slæmt fyrir þennan tiltölulega litla vinnustað 63 þingmanna ef það er svona mikið vantraust í þingsalnum.“

Særindin sitja eftir

Nú yfirgáfuð þið nokkrir Framsóknarflokkinn og stofnuðuð Miðflokkinn. Komast menn yfir slík særindi?

„Auðvitað er fólk í báðum flokkum, sem getur talað saman og myndað traust, en það er ekki almennt. Það var erfitt fyrir okkur mörg að stíga þetta skref, en ég sé ekki eftir því. Það var óhjákvæmilegt. Það var einfaldlega ekki hægt að sitja undir þeirri forystu, sem þar var og er. Það getur vel verið að við getum unnið með þessu ágæta fólki, en við getum ekki verið saman í flokki.

Og það eru auðvitað særindi, eðlilega, þegar það eru undirmál og óheilindi, eins og voru í Framsókn á þessum tíma. Það hjálpar ekki heldur þegar maður sér að þeir sem mest og verst höfðu sig í frammi með óheilindum þá, eru núna að reyna að lappa upp á ímyndina með því að fara í viðtöl og tala um æskuna eða annað slíkt til þess að breiða yfir sína framgöngu í stjórnmálum.“

Hættur og alveg hættur

Þú ert að hætta á þingi en ert varla ópólitískur maður. Gætirðu hugsað þér eitthvað annað í pólitíkinni?

„Nei, ég ætla að hætta og þá hætti ég alveg. En svo veit maður auðvitað ekki hvað gerist síðar á lífsleiðinni. Kannski þessi baktería taki sig upp síðar, hver veit?

En ég er 53 ára gamall og stóð frammi fyrir spurningunni hvort ég vildi halda áfram í þessu sama eða gera eitthvað nýtt. Ég valdi að gera eitthvað nýtt.“

Hvað ætlarðu að gera?

„Ég er nú ekki búinn að finna mér nýjan farveg, en ég hef hálft ár frá kosningum til þess að ráða fram úr því. Ég horfi í kringum mig og leita, eins og aðrir sem standa frammi fyrir að skipta um vinnu, en það er ekkert í hendi og ekkert eitt, sem ég mun leita að.

Ég fór í tvo áfanga á Bifröst, sem var mjög skemmtilegt, kannski ég haldi því áfram.

Hvað sem verður, þá hef ég smá umþóttunartíma, svo það er ekkert stress að finna sér annað að gera, það kemur.“

Er auðvelt fyrir þingmenn að finna sér nýja vinnu?

„Það er örugglega upp og ofan, en ég segi fyrir sjálfan mig, að sú reynsla, sem ég hef öðlast í pólitíkinni, er ákaflega dýrmæt og mikilvæg.

Þetta hefur verið mjög áhugaverður tími, sem ég hef verið hér á Alþingi. Ég kom inn 2009 þegar allt var í hers höndum og við tóku fjögur ár í stjórnarandstöðu, þar sem var verið að fást við stór mál og síðan í ríkisstjórn með ekki minni mál.

Allt var það ákaflega lærdómsríkt og gefandi þótt sumt væri það vissulega erfitt. En þetta er orðið gott.“