[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Könnun meðal aðildarfyrirtækja Samtaka arkitektastofa, Samark, bendir til að umsvifin séu að aukast eftir samdráttarskeið. Alls 26 stofur eru innan Samark og bárust svör frá 17 þeirra í könnuninni sem gerð var dagana 10.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Könnun meðal aðildarfyrirtækja Samtaka arkitektastofa, Samark, bendir til að umsvifin séu að aukast eftir samdráttarskeið. Alls 26 stofur eru innan Samark og bárust svör frá 17 þeirra í könnuninni sem gerð var dagana 10. til 29. apríl.

Helstu niðurstöður má sjá á grafinu hér til hliðar. Telur nú rúmur meirihluti stjórnenda að starfsmönnum muni fjölga og ríflega sjö af hverjum tíu segja verkefnum hafa fjölgað. Þá taldi rúmlega helmingur aðspurðra að hagnaður í ár yrði meiri eða talsvert meiri en í fyrra sem hlutfall af veltu fyrirtækisins.

Minnihluti leitað verkefna ytra

Að auki voru fulltrúar arkitektastofanna spurðir hvort stofan hefði borið sig eftir verkum erlendis í ár.

Niðurstaðan var að 12% stofanna höfðu leitað verkefna ytra.

Samark eiga aðild að Samtökum iðnaðarins (SI) og halda síðarnefndu samtökin utan um könnunina.

Fram kemur í greiningu SI að velta arkitektastofa, miðað við sömu mánuði árið áður, hafi aukist í janúar og febrúar á þessu ári eftir samfelldan samdrátt frá ársbyrjun 2019. Nemur aukningin 18% miðað við sömu mánuði í fyrra en tölfræðin er tekin saman af Hagstofunni.

Hagstofutölurnar eru sýndar á neðri hluta grafsins hér fyrir ofan en eins og sjá má hafa stofurnar verið mjög næmar fyrir hagsveiflunni.

Eyrún Arnarsdóttir, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði Samtaka iðnaðarins, segir ánægjulegt að sjá þessi merki um viðsnúning.

„Þetta gefur kannski ákveðnar vísbendingar um stöðuna fram undan í byggingariðnaðinum. Það má samt ekki líta fram hjá því að umfangið er enn lítið í sögulegu samhengi. Við hjá SI teljum að hægt sé að hraða þessum viðsnúningi með því að einfalda umhverfi byggingar- og skipulagsmála. Það er mikilvægt að samræma afgreiðslu hjá sveitarfélögunum og ljúka innleiðingu á rafrænum skilum og undirritun hönnunargagna. Við erum til dæmis að sjá prentkostnað fara upp í nokkrar milljónir í einstaka verkum,“ segir Eyrún um skrifræðið í greininni.

Heilt yfir hafi afgreiðsluferlið í skipulagsmálum verið tímafrekt.

Æskilegt væri að húsnæðis-, bygginga- og skipulagsmálin væru á höndum eins ráðuneytis. Með það í huga sé fagnaðarefni að Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra boði umbætur á því sviði.

Jón Ólafur Ólafsson, formaður Samark, segir umsvifin að aukast á ýmsum sviðum hjá arkitektum.

Blómstra við nýjar aðstæður

„Mörg verkefnin tengjast sveitarfélögunum og opinberum verkefnum. Það er náttúrulega rífandi gangur í íbúðabyggingum. Einn verktaki hafði á orði að byggingariðnaðurinn hefði verði í blóma við aðstæður sem við þekktum ekki áður. Við höfum enda gengið í gegnum kreppu vegna kórónuveirufaraldursins. Byggingariðnaðurinn hefur ekki dregist saman með sama hætti og hann myndi gera við eðlilegar aðstæður. Það er svolítið sérstakt,“ segir Jón og bendir á örvandi áhrif vaxtalækkana. Gott hljóð sé í félagsmönnum Samark.