Forysta nokkurra verkalýðsfélaga hér á landi, auk Alþýðusambands Íslands, hefur algerlega misst sjónar á erindi sínu og tilgangi. Tilveruréttur verkalýðsfélaga byggist á því að þau vinni að því að bæta kjör félagsmanna sinna og hafa flestir forystumenn þessara félaga í gegnum tíðina haft skilning á þessu hlutverki þeirra. Nú er komin fram ný kynslóð háværra leiðtoga sem telja hlutverk sitt allt annað. Baráttumál þeirra eru meira af pólitískum toga og vinnan að hagsmunum launafólks virðist komin neðarlega á verkefnalistann.
Þetta má til að mynda sjá á ítrekaðri hvatningu eða þrýstingi um að almenningur eða lífeyrissjóðir taki ekki þátt í fjárfestingum í tilteknum félögum sem forystumönnunum er í nöp við af einhverjum ástæðum.
Þetta gengur vitaskuld þvert gegn hagsmunum launþega, ekki síst þegar illa árar, en forystumennirnir láta það ekki flækjast fyrir sér.
Icelandair varð fyrir barðinu á þessu viðhorfi í fyrra og nú er komið að Play sem ASÍ hvetur fólk til að sniðganga.
Þegar forystumenn í verkalýðshreyfingunni sýna ítrekað slíkt ábyrgðarleysi og misnota félögin með þessum hætti er ljóst að tímabært er orðið að endurskoða löggjöf um vinnumarkað og koma íslenskum vinnumarkaði í svipað horf og þekkist í öðrum löndum.