[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef starfað við kennslu og leiðsögn. Lestraráhuginn hefur litast af því vil ég segja og mikilli löngun til að fræðast um land og þjóð. Leyndardómur Vatnajökuls , eftir þá Hjörleif Guttormsson og Odd Sigurðsson, liggur oft við rúmstokkinn.

Ég hef starfað við kennslu og leiðsögn. Lestraráhuginn hefur litast af því vil ég segja og mikilli löngun til að fræðast um land og þjóð. Leyndardómur Vatnajökuls , eftir þá Hjörleif Guttormsson og Odd Sigurðsson, liggur oft við rúmstokkinn. Lýsingar á öllu því magnaðasta og stórbrotnasta sem íslensk náttúra býr yfir. Víðerni, fjöll og byggðir. Einstök náttúra, eldgos og jökulhlaup. Um aldir áttuðu Íslendingar sig aðeins að hluta af þeim öflum og kynngikrafti sem býr í landinu.

Þó höfðu ýmsir kannað þetta margslungna land og um það er til mikið skrifað. Norður yfir Vatnajökul 1875 eftir William Lord Watts, íslenskuð af Jóni Eyþórssyni, er bók sem er alltaf í seilingarfjarlægð. Hún er í dagbókarformi og lýsir ferð Williams Lord Watts. Það sem tengir mig við þessa fornu ferðabók er að langafi minn, Páll „jökull“ Pálsson, var einn fylgdarmanna þessa unga landkönnuðar. Watts hafði gert nokkrar atlögur að þeirri för sem hann hugðist fara. Sumarið 1875 var svo ferðin farin. Hann komst yfir Vatnajökul ásamt sínum góðu fylgdarmönnum.

Ég gríp niður í dagbókina, þar sem þeir líta gosið í Öskju augum.

„Óþefurinn magnaðist um allan helming og vikurinn varð leirbornari. Hæðarloftvog mín sýndi 3500 fet...loksins stóðum við á hátindinum...sprungur allt í kringum okkur sýndu, að ekki var hættulaust að standa þar, sem við vorum. En vindurinn var að sópa mekkinum frá, svo við settumst á vikursteina, kveiktum okkur í pípu og biðum átekta.“

Enn bíður þjóðin átekta og verður vitni að eldsumbrotum. Nú er bjarti tími íslenskrar náttúru og ferðasumarið fram undan með öllum sínum ævintýrum.

Fornar ferðaleiðir í Vestur- Skaftafellssýslu um aldamótin 1900 , er í miklu uppáhaldi, þar segir frá ferðum og lífsbaráttu Skaftfellinga áður en bílar gerðu innreið sína. Frásagnir af mögnuðum póstferðum, ferðum barna til að afla matar, jafnvel elds, þegar myrkur og hungurvofa vofði yfir. Fjöruferðir sem gáfu reka, timbur og mat, verslunarferðir, sjóferðir og síðast en ekki síst kirkjuferðir. Hlakka til að feta í fótspor genginna ferðalanga í sumar. Þegar húmar aftur í haust verða ljóðabækur dregnar fram. Þar bíður efstur í bunkanum Káinn, fæddur til að fækka tárum, ævi og ljóð . Ein frá honum..

Af því ég veit hann er og var

andlegum krafti gæddur

segðu mér, lagsmaður, hvernig og hvar

og hvenær var djöfullinn fæddur.