Listamenn Kristjana Unnur Valdimarsdóttir, Ósk Laufdal, Halldóra Sigurðardóttir og Hólmfríður Dóra Sigurðardóttir á sýningunni í Skálholti í fyrra. Þær eiga líka verk á sýningunni í sumar.
Listamenn Kristjana Unnur Valdimarsdóttir, Ósk Laufdal, Halldóra Sigurðardóttir og Hólmfríður Dóra Sigurðardóttir á sýningunni í Skálholti í fyrra. Þær eiga líka verk á sýningunni í sumar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Myndlistarsýningin „Ó blessuð vertu sumarsól“ verður formlega opnuð í Skálholti klukkan 15 laugardaginn 29. maí næstkomandi. Búið er að koma verkum myndlistarmannanna fyrir og geta gestir skoðað sýninguna á sama tíma og veitingahús Skálholts er opið, en aðgangur er ókeypis.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Myndlistarsýningin „Ó blessuð vertu sumarsól“ verður formlega opnuð í Skálholti klukkan 15 laugardaginn 29. maí næstkomandi. Búið er að koma verkum myndlistarmannanna fyrir og geta gestir skoðað sýninguna á sama tíma og veitingahús Skálholts er opið, en aðgangur er ókeypis.

„Tilgangurinn er að sameina ólíka listamenn, jafnt faglærða sem sjálfmenntaða, og gefa almenningi kost á að njóta fjölbreyttrar listar í fallegu umhverfi,“ segir Ósk Laufdal, forsprakki sýningarinnar, en Víðir Mýrmann er sýningarstjóri.

Hugmynd Óskar um samsýningu margra ólíkra íslenskra myndlistarmanna víðs vegar að heima og erlendis varð að veruleika í fyrra. „Ég hóaði saman ólíkum listamönnum, fjölbreytt sýning 12 myndlistarmanna vakti mikla athygli og stefnan er að þetta verði árlegur viðburður,“ segir Ósk, sem er félagi í Lista- og menningarfélagi Vestmannaeyja. „Það voru engar fjöldatakmarkanir í fyrrasumar og mér sýnist allt stefna í að svo verði líka í sumar.“

Biðlisti fyrir 2022

Ósk segir skemmtilegt og spennandi að tengja fólk saman og sýnendur, sem búi meðal annars í Svíþjóð, Danmörku, Austurríki og Bandaríkjunum og séu með misjafnan bakgrunn. Sigurfinnur Sigurfinnsson, Finni, hafi til dæmis verið kennari sinn í Vestmannaeyjum og minningin um góðan myndlistarkennara hafi orðið til þess að hún hafi fengið hann til þess að vera með. „Ég vissi að hann væri að mála, en hafði ekki séð hann í 50 ár, þegar við hittumst í fyrra,“ rifjar hún upp og bætir við að suma listamennina hafi hún aldrei séð. „Við erum öll misjöfn en myndum saman eina heild og draumur minn er að tengja listaþræði héðan og þaðan saman.“

Sýningin, sem verður opin til 15. ágúst, er í stórum sýningarsal, veitingasalnum og gangi á milli. Þar sýna 15 myndlistarmenn verk sín. Þeir eru Ása Jóhannsdóttir, Elínborg Ostermann, Erla Halldórsdóttir, Finnur – Sigurfinnur Sigurfinnsson, Guðrún Ósk Aðalsteinsdóttir, Guðlaugur Arason, Halldóra Sigurðardóttir, Hólmfríður Dóra Sigurðardóttir, Jóhannes K. Kristjánsson, Jóný – Jónína Björk Hjörleifsdóttir, Kristjana Unnur Valdimarsdóttir, Konný – Laufey Konný Guðjónsdóttir, Ósk Laufdal, Sigga Dís og Sólrún Björk. Þema sýningarinnar 2022 er „Börn að leik“ og hafa 20 myndlistarmenn skráð sig til leiks, þar á meðal Mark Sepala, teiknari frá Disney World á Flórída. „Ég er komin með biðlista, en vonandi fá allir sem vilja að vera með,“ segir Ósk.