Drjúg Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 22 stig fyrir Hauka í gær.
Drjúg Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 22 stig fyrir Hauka í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Valur og Haukar leika til úrslita um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik eftir að hafa gert út um undanúrslitaeinvígin gegn Fjölni og Keflavík í gærkvöld, bæði 3:0.

Valur og Haukar leika til úrslita um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik eftir að hafa gert út um undanúrslitaeinvígin gegn Fjölni og Keflavík í gærkvöld, bæði 3:0.

Deildarmeistararnir í Val þurftu að hafa fyrir sigrinum gegn nýliðum Fjölnis í öðrum og þriðja leiknum en unnu stórsigur í þeim fyrsta.

Lokatölur í gærkvöld urðu 78:74 á Hlíðarenda þar sem Kiana Johnson tryggði sigur Vals í lokin.

Skyttan Hallveig Jónsdóttir átti stóran þátt í sigri Vals en hún setti niður sex þriggja stiga skot og notaði aðeins átta tilraunir. Alls skoraði Hallveig 22 stig. Dagbjört Dögg Karlsdóttir heldur áfram að leika vel og skoraði 16 stig auk þess að gæta Ariel Hearn í vörninni.

Litháíski miðherjinn Lina Pikciuté skoraði 22 stig fyrir Fjölni og tók 12 fráköst.

Yfirburðasigur Hauka

Haukar voru hinsvegar ekki í nokkrum vandræðum með Keflavík á Ásvöllum og unnu öruggan sigur, 80:50.

Haukakonur stungu af strax í fyrsta leikhluta en staðan var 23:8 að honum loknum. Bilið breikkaði enn, var 41:20 í hálfleik og 70:35 eftir þriðja leikhluta, en Keflavík lagaði stöðuna örlítið í þeim fjórða.

Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 22 stig fyrir Hauka og Bríet Sif Hinriksdóttir systir hennar 15 en Alyesha Lovett skoraði 13 stig. Daniela Wallen skoraði 17 stig fyrir Keflvíkinga. vs@mbl.is