Stundum höfum við talað um mikilvægi þess að sjá björtu hliðarnar á skellunum sem við verðum fyrir í þessu ferðalagi sem við köllum líf. Það lyftir andanum og færir okkur bjartsýni. Þannig höfum við til dæmis sagt okkur í þessum heimsfaraldri að það góða við hann sé að við höfum lært að sleppa óþarfa ferðum á fundi í útlöndum og ætlum að leysa þetta allt saman á Zoom. Innst inni vitum við samt að það er ekki að fara að gerast.
En við getum huggað okkur við að einn hópur að minnsta kosti er að fara að gera það. Verkalýðshreyfingin er ekki að fara neitt. Ekki að hún væri ekki til í að skella sér á gott norrænt þing eða alþjóðlega ráðstefnu á spennandi stað. Vandamálið er bara að hún kemst ekki úr landi.
Ekki getur hún flogið með Icelandair sem nánast lagði bara niður heilt stéttarfélag í samningaviðræðum. Þá kom nú aldeilis skýrt fram að ekki kæmi til greina að skipta við fyrirtæki sem haga sér með slíkum hætti og stór orð féllu. Jafnvel eftir að allt hafði gengið til baka og samningar tekist. Stærsta verkalýðsfélag landsins lagðist meira að segja gegn því að lífeyrissjóður þess tæki þátt í útboði félagsins. Jafnvel þótt félagið ætti mikið undir því að tækist að fjármagna félagið og halda því gangandi og hefði sennilega hagnast verulega á viðskiptunum.
Og nú er orðið ljóst að ASÍ ætlar að sniðganga nýja flugfélagið Play og skorar á alla 120 þúsund félagsmenn sína að gera slíkt hið sama. Forseti ASÍ segir að verið sé að greiða laun sem séu undir atvinnuleysisbótum. Reyndar er eitthvað óljóst í þessu og samkvæmt forstjóra Play er fyrirtækið að borga laun sem séu vissulega lægri en Icelandair en klárlega yfir lágmarkslaunum. Samkvæmt Viðskiptablaðinu verða lægstu laun um 360 þúsund á mánuði.
En góðu fréttirnar eru að starfsfólk ASÍ getur samt alltaf flogið með Wizz air. Það er ungverskt flugfélag sem flýgur frá Íslandi og býður lág fargjöld. Í alþjóðlegum flugfréttum kom nýlega fram að félagið hefur einhliða ákveðið að lækka laun um 20 prósent. Þannig er flugfreyja sem flýgur 90 klukkutíma á mánuði (sem þætti fullmikið á íslenskum markaði) með undir 200 þúsund krónum á mánuði. Þegar allt er talið.
Svo má náttúrulega ekki gleyma Easy Jet, Transavia og Vueling. Allt félög sem borga flugfreyjum sínum langt undir íslenskum lágmarkslaunum. Hjá sumum þeirra þykir bara býsna gott að ná 200 þúsund krónum á mánuði. Þau virðast líka öll eiga það sameiginlegt að borga ekki fyrir yfirvinnu.
Nú gæti einhver sagt að það væri ekki hægt að bera saman laun á Íslandi og til dæmis í Ungverjalandi eða Bretlandi. Það er vissulega hægt að taka undir það. En vandamálið er helst það að í flugrekstri eru engin landamæri, eins undarlega og það hljómar. Þegar ég ákveð að kaupa mér flugmiða til útlanda þá bóka ég flug á netinu. Ég get alveg flogið með flugfélagi sem borgar flugstjóra undir tveimur milljónum á mánuði. Ég læt mig bara hafa það. Ég vil bara ódýran flugmiða svo ég komist til útlanda. Ég er farinn að sakna þeirra.
Nú veit ég ekkert hvað gerist í öllum þessum spennandi deilumálum. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið farið yfir þetta á opnum fundi ASÍ um mikilvægi virkrar samkeppni sem haldinn var í vikunni. Mér þætti bara vænt um ef eitthvað af þessari samkeppni væri með íslenskum félögum og ég fengi að heyra þessi fallegu orð um að muna að festa upp sætisbakkann og hafa fótskemil í uppréttri stöðu.
Á íslensku.