Mannslífsflóran eykst á Íslandi og fólki fjölgar af ólíku þjóðerni og fjölbreytileikinn eykst – og þar með talið skoðunum á ýmsum málefnum. Það er ágæt þróun ef hugmyndir fá að takast á og við varðveitum frelsið. Sjálfur giftist ég konu frá Úkraínu og fékk þess vegna sérstaka innsýn í heim rétttrúnaðarkirkjunnar, menningu hennar og viðhorf.
Að gefnu tilefni er rétt að gera grein fyrir aðalatriðum þessa viðhorfs. Á trúarlega sviðinu varðveitir kirkjan trúna eins og hún hefur verið óskert frá fyrstu tíð og kemur fram í trúarjátningunni. Á félagslega sviðinu aðhyllumst við umburðarlyndi og umhyggju fyrir lítilmagnanum. Við virðum fólk af öll trúarbrögðum, kynþáttum, litarhafti og kyni. Virðum menningu sérhverrar þjóðar, sérhverja tungu, erum hlynnt vísindum og skynsamlegri notkun þeirra og erum gegn hvers konar öfgum. Konur og karlar eru jafnrétthá og konan jafnvel ívið betri því hún er kóróna sköpunarverksins. Þessa hugsun þekka allir kristnir menn og þarf naumast að útskýra.
Sem kristnir menn erum við andstæð fóstureyðingum og teljum sérhvert líf vera Guðs gjöf og maðurinn, hvernig sem hann er gerður, er óendanlega dýrmætur. Við biðjum til Guðs að augu manna opnist fyrir þessu og þeir verndi lífið.
Mér er heiður sem lækni að hafa þetta viðhorf enda er það hluti af eiði lækna, svokölluðum Hippókratesareiði, fyrst að valda ekki skaða. Enn fremur að hafa frið við alla menn, uppörva, útskýra og hjálpa.
Rétttrúnaðarkristnir biðja í litúrgíu hvern sunnudag fyrir friði um allan heim, fyrir velsæld allra þjóða, fyrir ráðamönnum, fyrir vinum, fjölskyldu og óvinum. Við biðum fyrir sjúkum, einmana og aðskildum og þeim sem þjást og syrgja.
Þótt kirkjan lifi lífi Krists er sérhver maður frjáls að hugsun sinni og samvisku og enginn er þvingaður til viðhorfs eða skoðana. Kirkjan hefur enga opinbera alþjóðlega pólitíska skoðun á félagslega sviðinu og er í mun að allir hafi aðgang að henni, hverrar skoðunar sem þeir eru. Hvaða reynslu sem þeir hafa og sorgir. Hún hefur aðeins einn tilgang, sem er að boða orð Krists.
Sérhver þjóð hefur sína menningu og réttmætar ástæður til að vernda hana, sögu sína og tungu. Þetta viðhorf er einnig í hávegum haft og álíka mikilvægt og að heimili fólks njóti verndar.
Fjölbreytileiki mannlífsins hefur tilgang, hann er eðlilegur og fallegur og Guði þóknanlegur samkvæmt Heilagri ritningu.
Trúin á Krist snýst um veruleikann, lífið eins og það er í raun, sannleikann sem er Kristur sjálfur, hann er vegurinn og lífið sjálft. Lífið er ekki endilega falið í ástríðufullri sannfæringu okkar, þótt við höldum það. Það er hátíðlega orðað, en það er sígilt og rétt og undirstrikar að mönnum er sjaldnast akkur í því að búa sér til sinn eigin sannleika. Margar stefnur eru til af því tagi, sprottnar úr hugsunum og ástríðum mannsins eða draumi um betra og réttlátara líf. Það er í sjálfu sér skiljanlegt en í ljósi sögunnar verður að fara varlega. Það virðist vera hin endalausa ástríða manna að temja náungann svo hann geri, hagi sér og hugsi eins og maður sjálfur vill. En í raun þarf engan að sannfæra, því maðurinn fer sjálfviljugur þangað sem hann er elskaður og virtur.
Höfundur er heilsugæslulæknir.