Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Ríflega helmingur kjörinna sveitarstjórnarmanna hefur orðið fyrir áreitni eða neikvæðu umtali á yfirstandandi eða síðasta kjörtímabili og er lítill munur á milli kynja. Þetta kemur fram í rannsókn sem dr. Eva Marín Hlynsdóttir vinnur að en Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, greindi frá þessum niðurstöðum í ávarpi á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær.
„Tölurnar sýna að algengast var að þátttakendur hefðu orðið fyrir áreitni á samfélagsmiðlum en einnig var töluvert um áreitni í opinberu rými, til dæmis á skemmtunum eða í verslunum. Allt að 10% höfðu orðið fyrir slíkri áreitni á heimilum sínum,“ sagði Sigurður Ingi.
Áreitni sem sveitarstjórnarfulltrúar verða fyrir og mikil og hröð endurnýjun í sveitarstjórnum kom töluvert til umræðu í ræðum og fyrirspurnatíma á þinginu í gær.
Sagði ráðherrann að unnið væri að undirbúningi að því að bæta starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Í tengslum við það hefði ráðuneytið fengið þessar niðurstöður úr viðamikilli könnun Evu Marínar um áreitni sem sveitarstjórnarfólk verður fyrir. Sigurður Ingi benti einnig á að við lok undanfarinna tveggja kjörtímabila hefði rúmlega helmingur sveitarstjórnarfulltrúa ekki gefið kost á sér til endurkjörs.
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, vakti athygli á því í setningarræðu sinni að aldrei fyrr hefðu jafn margir framkvæmdastjórar sveitarfélaga hætt störfum á miðju kjörtímabili eins og nú. 21 sveitarstjóri hefur hætt störfum á tímabilinu af ýmsum ástæðum. „Í mínum huga er enginn vafi á því að endurnýjun sveitarstjórnarmanna er of mikil og of hröð. Sveitarstjórnarmenn endast ekki nógu lengi í störfum sínum og það veldur miklu álagi á þá sem þessi störf taka að sér og ekki síður fyrir bæjar- og sveitarstjóra,“ sagði Aldís.
Hún kvaðst vera afar hugsi eftir að hafa lesið viðtal við borgarfulltrúa sem hefði nú valið að hverfa af vettvangi sveitarstjórnarmála, ekki síst vegna þess umhverfis og þeirrar orðræðu sem sveitarstjórnarmenn byggju við.