Halldór Benjamín Þorbergsson
Halldór Benjamín Þorbergsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Halldór Benjamín Þorbergsson: "Nauðsynlegt er að lífeyrissjóðirnir haldi áfram að eflast og að ávöxtun þeirra sé góð og trygg. Þannig standa þeir best undir hlutverki sínu fyrir sjóðfélagana – fólkið í landinu."

Verðmætasköpun í atvinnulífinu er nauðsynleg til að tryggja landsmönnum öllum sæmandi lífeyri þegar starfi á vinnumarkaði lýkur. Þegar vel gengur í atvinnulífinu eflast lífeyrissjóðir landsmanna og geta þeirra til greiðslu lífeyris eykst. Það er allra hagur að rekstrarskilyrði og afkoma fyrirtækja sé góð. Þá batnar hagur þeirra sem lífeyrinn þiggja, það dregur úr kröfum á greiðslur úr ríkissjóði og um leið þörf fyrir endalausar skattahækkanir.

Lífeyrissjóðirnir eru mikilvægustu stofnanir vinnumarkaðarins. Þeim var komið á með almennum kjarasamningum fyrir áratugum. Hlutverk þeirra er að greiða sjóðfélögum lífeyri þegar að því kemur að þeir draga sig í hlé frá störfum sínum. Fyrirséð var að ríkissjóður yrði ekki í stakk búinn til að sinna þessu hlutverki nema með óásættanlegri skattbyrði fyrir þá sem enn væru að störfum og það gæti valdið átökum milli kynslóða sem aldrei yrðu til góðs. Lífeyrissjóðirnir gegna einnig tryggingarhlutverki fyrir þá sem lenda í áföllum og greiða makalífeyri, barnalífeyri og örorkulífeyri.

Stjórn hvers lífeyrissjóðs skiptist að jöfnu milli samningsaðila kjarasamninga sem falla undir sjóðinn. Þetta hefur reynst vel og vart fallið blettur á samstarf fulltrúa verkalýðsfélaga og atvinnurekenda. Skipanin tryggir jafnvægi og gegnsæi. Þeir sem tilnefna í stjórnirnar skipta sér ekki af afstöðu stjórnarmanna til einstakra mála sem eru til umfjöllunar enda eiga þeir að vera sjálfstæðir í störfum sínum. Augljós er sameiginlegur hagur atvinnurekenda og samtaka launafólks af góðri ávöxtun og góðum lífeyri.

Skipulag við val stjórnarmanna hjá báðum tilnefningaraðilum tryggir jafnvægi milli kynja, þekkingu og reynslu stjórnarmanna. Þeir fara í gegnum umsóknarferli þar sem hæfni þeirra er metin af óháðum aðilum. Þegar hæfasti umsækjandinn er fundinn er tilnefningin staðfest í fjölmennum fulltrúaráðum sjóðanna. Ferlið er faglegt með virku aðhaldi frá fjölda áhugafólks um hvern lífeyrissjóð.

Smám saman hefur lífeyrissjóðunum vaxið fiskur um hrygg, iðgjald til þeirra hefur hækkað, þeir hafa sameinast og eru vel í stakk búnir til að sinna sínu hlutverki. Dregið hefur úr vægi ellilífeyris sem greiddur er af ríkinu eftir því sem sjóðirnir hafa eflst. Fyrirsjáanlegt er að smám saman fjölgi þeim sem öðlast hafa rétt til lífeyris miðað við þá sem eru á vinnumarkaði. Því er nauðsynlegt að lífeyrissjóðirnir haldi áfram að eflast og ávöxtun þeirra sé góð og trygg. Þannig standa þeir best undir hlutverki sínu fyrir sjóðfélagana – fólkið í landinu.

Í myndinni sem fylgir greininni má sjá hve ávöxtun sjóðanna skiptir miklu máli fyrir fólk. Ef fjármunir sjóðanna ávaxtast ekki nægir núverandi iðgjald til að greiða tæp 40% af meðalævilaunum hvers sjóðfélaga eða tæp 30% af launum við lok starfsferilsins. En ef raunávöxtun sjóðanna er 3,5% að jafnaði næst að greiða tæp 80% af meðalævilaunum sjóðfélaga eða um 60% af lokalaunum. Í öllum tilvikum er miðað við að sjóðfélagar njóti greiðslu úr lífeyrissjóði að jafnaði í 16 ár frá starfslokum.

Það eru því sameiginlegir hagsmunir allra að ávöxtun fjármuna lífeyrissjóðanna sé góð og örugg. Nauðsynleg ávöxtun næst ekki einungis með kaupum á ríkisskuldabréfum og fjármögnun á fasteignakaupum sjóðfélaga. Þar verða að koma til verðbréf og eignarhlutar sem bundin eru í atvinnulífinu – fjölbreyttum fyrirtækjum innanlands og utan. Með þátttöku í alls kyns atvinnurekstri – iðnaði, fjármálafyrirtækjum, ferðaþjónustu, orkufyrirtækjum, sjávarútvegi, heilbrigðisgeiranum, rekstri innviða og þjónustu – geta lífeyrissjóðirnir náð að tryggja almenningi sæmandi lífeyri þannig að sem fæstir þurfi að búa við fjárhagsáhyggjur þegar þátttöku á vinnumarkaði lýkur.

Það eru því mikilvægir hagsmunir fyrir alla að vel gangi í atvinnulífinu, að fyrirtækin sæki fram, stundi rannsóknir og nýsköpun, efli markaðssókn og fjárfesti skynsamlega til að efla rekstur sinn. Lífeyrissjóðirnir hvorki mega né geta fórnað hagsmunum sjóðfélaga með því að fylgja pólitískri leiðsögn utanaðkomandi. Sjóðirnir verða að meta vandlega hvar fé þeirra er best fyrir komið, nálgast mál faglega og af yfirvegun. Horfa þarf til langs tíma og forðast að taka mið af aðstæðum til skamms tíma. Þannig gagnast sjóðirnir félögum sínum best.

Höfundur er framkvæmdastjóri SA.

Höf.: Halldór Benjamín Þorbergsson