Leiðangursmenn hittust í vikunni til að rifja ævintýraferðina upp. Þorvarður Björgúlfsson, Árni Páll Árnason, Jón Einar Eyjólfsson, Snorri Ingimarsson, Arngrímur Hermannsson, Þorgrímur St. Árnason, Gunnar Antonsson, Ómar Ragnarsson, Ástvaldur Guðmundsson, Eiríkur Kolbeinsson, Snorri Hauksson, Guðbjörn Ingason, Þórður Valdimarsson, Björn Magnússon, Jónas Sigurðsson, Benedikt Eyjólfsson, Birgir Brynjólfsson, Ægir Bjarnason og Gestur Magnússon. Að baki þeim er eini bíllinn úr ferðalaginu sem enn er til í óbreyttri mynd, Djákninn á Myrká. Eigandi Birgir „Fjalli“ Brynjólfsson.
Leiðangursmenn hittust í vikunni til að rifja ævintýraferðina upp. Þorvarður Björgúlfsson, Árni Páll Árnason, Jón Einar Eyjólfsson, Snorri Ingimarsson, Arngrímur Hermannsson, Þorgrímur St. Árnason, Gunnar Antonsson, Ómar Ragnarsson, Ástvaldur Guðmundsson, Eiríkur Kolbeinsson, Snorri Hauksson, Guðbjörn Ingason, Þórður Valdimarsson, Björn Magnússon, Jónas Sigurðsson, Benedikt Eyjólfsson, Birgir Brynjólfsson, Ægir Bjarnason og Gestur Magnússon. Að baki þeim er eini bíllinn úr ferðalaginu sem enn er til í óbreyttri mynd, Djákninn á Myrká. Eigandi Birgir „Fjalli“ Brynjólfsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Langþráðu takmarki, að koma bifreið upp á hæsta tind Íslands, Hvannadalshnjúk, var náð fyrir réttum þrjátíu árum, þegar 29 manna leiðangur á vegum Bílabúðar Benna og spilframleiðandans Warn komst þangað.

Langþráðu takmarki, að koma bifreið upp á hæsta tind Íslands, Hvannadalshnjúk, var náð fyrir réttum þrjátíu árum, þegar 29 manna leiðangur á vegum Bílabúðar Benna og spilframleiðandans Warn komst þangað. Á ýmsu gekk í ferðinni en dagarnir urðu átta en ekki þrír til fjórir vegna óveðurs. Tveir leiðangursmanna, Benedikt Eyjólfsson og Þorgrímur St. Árnason, líta stoltir um öxl í samtali við Sunnudagsblaðið. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Bandaríski gesturinn horfði fyrst á snæviþakinn bergvegginn fyrir framan sig og síðan í augun á gestgjafa sínum, Benedikt Eyjólfssyni, forstjóra Bílabúðar Benna. „Þú hefur blekkt okkur; það er útilokað að nokkur jeppi komist þarna upp!“ fullyrti hún vonsvikin enda kostaði fyrirtæki hennar, bandaríski spilframleiðandinn Warn, svaðilförina. Benedikt stappaði stálinu í þá bandarísku og fullvissaði hana um að þetta væri víst vinnandi vegur.

– Varstu sannfærður um það sjálfur?

„Nei!“ svarar hann nú þrjátíu árum síðar. Skellihlæjandi.

Ekki kom þó til greina að gefast upp og renna af hólmi. Hvannadalshnjúkur, hæsti tindur Íslands, var þarna til að verða sigraður af harðsnúnustu jeppamönnum Íslands. Og hananú!

„Þetta er með stærri augnablikum í mínu lífi; að koma að Hvannadalshnjúk í þessu líka dásamlega veðri,“ segir Benedikt. Og mannskapnum héldu engin bönd. „Við fórum allir, tólf jeppar, að spóla upp hlíðina, eins langt og við mögulega komumst. Þýskur blaðamaður í hópnum, sem kallaði ekki allt ömmu sína, var gapandi yfir þessum aðferðum og þegar hann kom aftur heim og settist við tölvuna rötuðu þessi orð meðal annars á blað: „Ég hef aldrei á ævinni séð önnur eins fífl!““

En upp fóru þeir á endanum með einn jeppa og í fyrsta sinn stóð bíll á tindi Hvannadalshnjúks. „Þegar frostið fór niður í 25 gráður breyttust þessir menn í berserki,“ skrifaði sá þýski.

„Það er óhætt að kalla þetta jeppaleiðangur Íslandssögunnar. Ekkert þessu líkt hafði áður verið gert og ekkert þessu líkt verður gert aftur. Því get ég eiginlega lofað,“ segir Benedikt. „Það er brjálæði að hafa látið sér detta í hug að fara í jeppaleiðangur á Hvanndalshnjúk; hvað þá að reyna það og komast alla leið á toppinn.“

Óttuðust að aðrir yrðu á undan

Hugmyndin kom upp um það bil hálfu ári áður en lagt var í'ann hjá fámennum hópi sem hélt henni lengi vel aðeins fyrir sig. „Ætli við höfum ekki verið sex sem vissum af þessum áformum og biðin var ekki auðveld enda vorum við skíthræddir um að einhverjir aðrir fengju þessa sömu hugmynd og yrðu á undan okkur,“ segir Benedikt sposkur á svip.

Öðrum leiðangursmönnum var tilkynnt hvert þeir væru að fara morguninn sem lagt var af stað. Einn af þeim var Þorgrímur St. Árnason. „Ég hélt að við værum að fara með einhverja útlendinga á jökul sem við höfðum gert áður, þannig að það voru í sjálfu sér engin tíðindi,“ rifjar hann upp. „Menn ráku upp stór augu þegar þeim var tilkynnt að við værum að fara á Hvannadalshjnúk.“

Í huga Þorgríms stendur upp úr að fjögurra daga ferð varð að átta daga ferð. Þetta var sumsé meira en að segja það og veðurguðirnir ekki endilega að sýna verkefninu tilhlýðilegan skilning. Þorgrímur efaðist þó aldrei á leiðinni. „Ég var alltaf bjartsýnn á að við myndum klára þetta verkefni. Það var mikill vöxtur í jeppamennsku á þessum tíma og við búnir að fara margoft á jökla. Ný og fullkomin staðsetningartæki höfðu líka rutt sér til rúms og fyrir vikið gátum við keyrt í verra veðri en áður. Tæknibyltingin gerði okkur kleift að komast á Hnjúkinn,“ segir Þorgrímur sem var á stærsta bílnum í leiðangrinum, Econoline.

Ómar spriklaði af gleði

Erlend bílatímarit höfðu sýnt jeppaferðum á Íslandi áhuga áður og leist að vonum vel á þessi áform. Ritstjóri og aðstoðarritsstjóri bandaríska tímaritsins Four Wheeler voru klárir í slaginn, auk þess þýska, sem fyrr var nefndur, og japansks blaðamanns frá tímaritinu 4x4 Magazine. Íslenskir fjölmiðlamenn voru einnig með í för, ljósmyndararnir Árni Sæberg frá Morgunblaðinu og Páll Stefánsson, sem þá vann á Iceland Review, Gunnlaugur Rögnvaldsson, ljósmyndari og blaðamaður á tækni- og tómstundatímaritinu 3T, og Ómar Ragnarsson fréttamaður og Þorvarður Björgúlfsson tökumaður frá Stöð 2.

„Ég gleymi því aldrei hvað Ómar varð glaður þegar við buðum honum með í þessa ferð á fundi í höfuðstöðvum Stöðvar 2. Hann lét sig falla aftur í sófann og spriklaði af gleði með fæturna upp í loftið. Svo fullur eftirvæntingar var hann,“ segir Benedikt.

Hann segir Þorvarð hafa unnið þrekvirki við að mynda leiðangurinn en eftir á að hyggja hefði líklega verið skynsamlegra að hafa alla vega einn ef ekki tvo tökumenn með honum. Í fjölmörg horn var að líta og aðstæður mjög erfiðar í hnédjúpum snjó og yfir tuttugu stiga frosti.

Tólf jeppar með 29 manns innanborðs lögðu af stað frá Bílabúð Benna á kosninganótt, 21. apríl 1991. Breidd var í flotanum, þar var Willys, Suzuki, Scout, Econoline og nefnið bara þessa jálka. „Þetta voru bestu bílarnir og bestu ökumennirnir á þessum tíma; alla vega þótti okkur það,“ segir Benedikt. Á ýmsu gekk á leiðinni; þannig fóru tveir bílar niður um ís og sátu fastir. Býsna vel gekk þó að ná þeim upp. Menn töldu að þeir hefðu verið að keyra á landi en voru í reynd á ís sem þakinn var ösku frá Heklugosinu.

Hvergi eins illt og í kjálkunum

Fyrsti viðkomustaður var Grímsvötn, þar sem hópurinn þurfti að gista í skála um nóttina vegna veðurs. Ómar Ragnarsson sá um að stytta mönnum stundir – og fór á kostum. „Eftir ferðina var mér hvergi eins illt og í kjálkunum; ég hló svo mikið að Ómari. Maðurinn er þjóðargersemi og íslenska ríkið ætti að sjá sóma sinn í að hafa hann á að minnsta kosti tvöföldum listamannalaunum,“ segir Benedikt. „Lýsingar Ómars voru kostulegar og útlendingarnir höfðu augljóslega aldrei kynnst svona manni áður. Hann var úti um allt á föðurlandinu. Þegar ég sagði honum á endanum að nú yrðum við að fara að sofa, Hvannadalshnjúkur biði daginn eftir, þá var hann snöggur í koju og sofnaði um leið, þrátt fyrir að hafa staðið einni mínútu áður uppi á borði og farið með gamanmál. Ég hef aldrei kynnst öðru eins.“

Hann hlær.

Á hádegi á þriðjudegi var haldið af stað og keyrt eftir lóran-leiðsögutækjum yfir Vatnajökul og komið að Hvannadalshnjúki aðfaranótt miðvikudags. Þegar komið var á áfangastað var tjaldbúðum slegið upp og hringur myndaður með jeppunum til að verjast hugsanlegu óveðri.

Árla morguninn eftir gengu menn í að festa akkeri uppi á Hnjúknum fyrir spilvírinn sem draga átti jeppann upp bratta hlíðina. Eins var notast við svokallaðan júmmara og lá aðalvírinn 440 metra leið niður brekkuna. Þá þurfti að vaða hnédjúpan snjó til að fara með rafgeyma upp á fjallið.

Blíðskaparveður á toppnum

Þennan dag komst bifreiðin, sem var af gerðinni Jeep Comanche, upp bröttustu brekkurnar. Undir stýri var Jón Einar Eyjólfsson, bróðir Benedikts. Notað var spil, sem Benedikt stjórnaði, og eigið vélarafl bifreiðarinnar. Um nóttina var hópurinn sendur til að hvíla sig í búðunum fyrir átök morgundagsins en bræðurnir héldu áfram fram á nóttina. Daginn eftir komst bíllinn svo alla leið upp við mikinn fögnuð leiðangursmanna. Blíðskaparveður var og farið var með bíl og allan útbúnað samdægurs niður og tjaldbúðirnar teknar upp.

Þorgrímur segir það hafa verið meiri háttar mál og mikið ævintýri að spila bílinn upp en hópurinn hafi unnið sem einn maður við aðgerðina. „Þetta voru nýjar áskoranir fyrir okkur alla en við vorum aldrei í hættu að fara okkur að voða. Það voru þvílíkir jálkar þarna með okkur,“ segir hann.

Uppi á toppnum áttuðu menn sig skyndilega á því að Ómar Ragnarsson var horfinn. Ekki leið þó á löngu þangað til hann birtist á ný – í flugvél fyrir ofan hópinn. „Menn klóruðu sér bara í höfðinu en það sem hafði gerst var að Ómar, sem var alveg viðþolslaus að ná myndum af þessu merka afreki úr lofti, fékk Jöklaferðir frá Höfn í Hornarfirði til að sækja sig svo hann gæti flogið yfir. Í öllu óðagotinu gleymdi hann hins vegar að kveðja okkur og láta okkur vita,“ segir Benedikt.

Létu fyrirberast í bílunum

Reyna átti að komast styttri leið niður af jöklinum. Tveir bílar fóru á undan þá leið, niður Rótarfellsjökul, en ekki var talið ráðlegt að senda fleiri bíla á eftir þeim. „Ég skil ekki hvernig þeir komust þá leið, það er svo mikið um sprungur,“ segir Benedikt. Ákveðið var að tveir aðrir bílar færu á undan til Grímsvatna til að búa til slóð fyrir hina en eftir nokkurn tíma skall á stormur með snjókomu og skafrenningi. Var þá ákveðið að láta fyrirberast í bílunum, á Snæbreið, næsthæsta stað á Íslandi.

Stormurinn stóð í þrjá sólarhringa og var þá mjög gengið á eldsneytis- og matarbirgðir hópsins. „Svo vitlaust var veðrið að loftnet á bílunum brotnuðu; þegar veðrinu loksins slotaði var snjórinn orðinn jafnhár bílunum og erfitt að komast upp úr gíg sem hafði myndast,“ segir Benedikt. „Við Íslendingarnir vorum sjokkeraðir, hvað þá aumingja erlendu gestirnir.“

Þannig mun japanski blaðamaðurinn frá 4x4 Magazine hafa verið sannfærður um að hans hinsta stund væri upp runnin. „Hann lokaði sig bara inni í svefnpokanum og svaf í einhverja 25 tíma. Við ýttum annað slagið við honum til að athuga hvort hann væri enn þá hérna megin móðunnar miklu,“ segir Þorgrímur.

Japaninn var keðjureykingamaður en skyndilega hvarf nikótínþörfin eins og dögg fyrir sólu.

Rak höndina upp úr snjónum

Benedikt segir þetta hafa verið erfiðasta hluta ferðarinnar; að bíða af sér fárviðrið. „Ég viðurkenni að á þeim tímapunkti hefði ég alveg verið til í að skipta á bílnum og heitu rúminu mínu.“

Menn frá Jöklaferðum voru beðnir um að koma með eldsneyti til vonar og vara en lentu sjálfir í hremmingum og þurftu að grafa sig um tíma í fönn. Í framhaldinu var haft samband við vana jeppamenn sem komu úr Reykjavík með bensín og vistir og munaði minnstu að þeir keyrðu yfir mennina í fönninni. „Einn þeirra rak höndina upp úr snjónum þegar hann varð var við bílinn,“ segir Þorgrímur.

„Hefði jeppinn drifið aðeins betur hefði hann líklega keyrt yfir þá,“ bætir Benedikt við.

Komust þeir á sunnudagsmorgni til leiðangursmanna og var þá hægt að halda niður af jöklinum. Leiðangursmenn komu til Reykjavíkur aðfaranótt mánudags.

Brautryðjendur í landvernd

Benedikt og Þorgrímur eru sammála um að þessi leiðangur hafi verið annað og meira en jafnvel vönustu jeppamenn höfðu prófað áður. Þá lögðu menn metnað sinn í að skilja ekkert eftir á jöklinum, hvorki rusl, víra né annað. Allt var hirt upp. Eins og vera ber.

„Það væri vonlaust að gera þetta í dag; við fengjum alla upp á móti okkur út af náttúruverndarsjónarmiðum,“ segir Benedikt. „Það er hins vegar á misskilningi byggt enda er jeppamennska, eins og við stundum hana, í eðli sínu landvernd. Við keyrum á snjó og skiljum engin för eftir okkur og völdum engu tjóni. Þegar við vorum að byrja undir lok áttunda áratugarins vorum við að skemma en áttuðum okkur fljótt á því að það gengi ekki til lengdar og snerum frá villu okkar vegar. Sá viðsnúningur kom innan úr grasrótinni. 4x4-klúbburinn er brautryðjandi í landvernd á Íslandi.“