Ný reglugerð heilbrigðisráðherra um takmarkanir vegna kórónuveirunnar tekur gildi á þriðjudag og hafa samkomutakmarkanir þá ekki verið minni í nærri átta mánuði.
Almennar fjöldatakmarkanir verða færðar úr 50 manns í 150. Þá verður grímuskylda frekar undantekning en regla og starfsemi sundlauga og líkamsræktarstöðva verður nærri eðlileg.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að nýja reglugerðin sé áþekk þeim skrefum sem tekin voru síðasta sumar. Það sem nú sé ólíkt er að mið er tekið af bólusetningum. Yfir 80 þúsund eru nú fullbólusettir eða 24,8% þeirra landsmanna sem eru 16 ára og eldri. Stór bólusetningarvika er fram undan og er von á 30 þúsund skömmtum af bóluefni í næstu viku.
Ekkert smit greindist innanlands í fyrradag. 48 manns voru í einangrun í gær og 157 í sóttkví. Í skimunarsóttkví voru 1.043.