Hannes Ágústsson fæddist á Patreksfirði 21. september 1928. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Patreksfirði, 10. maí 2021. Foreldrar hans voru Ágúst Jónsson, f. 1904, d. 1989, og Anna Sigríður Jóhannesdóttir, f. 1903, d. 1993. Hannes ólst upp á Patreksfirði hjá móður sinni og móðursystrum, Elínu og Ólafíu Þórnýju. Systkini hans eru: Agnes Ágústsdóttir, f. 1926, d. 1998; Jóhannes Árnason, f. 1935, d. 1989, maki Sigrún Sigurjónsdóttir, f. 1938; Herdís Heiðdal, f. 1939, maki Magnús Ólafsson, f. 1942, d. 2003; Haukur Heiðdal, f. 1941, maki María Haraldsdóttir, f. 1939; Elín Heiðdal, f. 1942, d. 2019. Einnig ólst upp á heimilinu dóttir Agnesar, Elín Herdís Þorkelsdóttir, f. 1946, maki Ólafur Pétursson, f. 1945.

Hannes kvæntist Jóhönnu Guðbjörgu Pétursdóttur frá Skriðnafelli, f. 26. mars 1929, d. 17. feb. 1991, 11. júní 1960. Foreldrar hennar voru Valgerður Jónsdóttir og Pétur Bjarnason. Börn þeirra: 1) Valgerður Lára, f. 8. október 1959, hún var í sambúð með Rolf Tenden. Börn þeirra: a) Hanna Tenden, f. 1991, maki Jasper Jansen. b) Torleif Tenden, f. 1993, maki Ingrid Maurset. 2) Sigurður Pétur Hannesson, f. 3. mars 1961, maki Guðrún Eggertsdóttir, f. 1959. Börn Sigurðar Péturs og fv. maka, Hjördísar Báru Gestsdóttur, f. 1970: a) Rebekka Þurý Pétursdóttir, f. 1998, maki Kári Þór Arnarsson. b) Hannes Már Pétursson, f. 2004.

Hannes og Jóhanna hófu búskap í „Grýtu“ við Mikladalsveg á Patreksfirði og bjuggu þar í sambýli við móður Hannesar og móðursystur fram til 1973, er þau keyptu sér íbúð í nýbyggðu fjölbýlishúsi að Bölum 4 þar sem þau bjuggu alla tíð. Hannes hélt heimili einn eftir að Jóhanna lést langt um aldur fram 1991. .

Skólaganga Hannesar var með hefðbundnum hætti þess tíma og eftir að henni lauk þá varð hans fyrsta launaða starf sem sendill í Vatneyrarbúð á Patreksfirði. Fljótlega leitaði hugur hans til sjómennsku og var hann nokkur ár á „Freyjunni“ hjá Gísla Snæbjörnssyni og síðar á togaranum Gylfa frá Patreksfirði. Um miðjan 6. áratuginn hætti hann sjómennsku og fór til starfa í landi og réð hann sig til Hraðfrystihúss Patreksjarðar og var þar í „tækjunum“. Upp úr 1970 var hann svo ráðinn gjaldkeri frystihússins, sem síðar varð Oddi hf., og var þar til starfsloka kringum aldamót.

Hannes var félagslyndur og ötull í starfi félags aldraðra í Vesturbyggð og var þar í stjórn félagsins sem gjaldkeri á meðan heilsan leyfði. Hann fór í allar ferðir félagsins, hérlendis og erlendis.

Útför Hannesar fer fram frá Patreksfjarðarkirkju laugardaginn 22. maí kl. 14 og verður athöfninni streymt á:

http://bit.ly/patreksfjardarkirkja

Hlekk á streymið má einnig finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku afi. Þú sem gafst okkur besta faðmlag í heimi og notaðir alltaf axlabönd. Þú varst okkur frábær fyrirmynd og kenndir okkur að gera það besta úr öllum aðstæðum. Þú varst alltaf til staðar, jafnvel þótt við byggjum í Noregi, þú varst bara eitt símtal í burtu. Alltaf fengum við send íslensk páskaegg fyrir páskana, þú passaðir upp á að finna afmælisgjafir við hæfi og svo fylgdi alltaf „smá“ innlegg á bankareikningana okkar á afmælisdaginn. Hanna keypti sinn fyrsta bíl fyrir þessar uppsöfnuðu afmælisgjafir.

Við hittumst alltaf á hverju sumri, annaðhvort komst þú til okkar í Stryn eða við komum í heimsókn til Íslands. Við eigum yndislegar minningar um þessar heimsóknir á báða bóga. Þú hafðir gaman af því að spila og kenndir okkur mörg spil sem við spilum ennþá í dag, þú kenndir okkur líka mannganginn. Þú tókst þátt í leikjunum, sast þolinmóður bundinn við stólinn þegar Torleif hafði handtekið þig í „löggu og bófa“ og barst heim með þér allar skeljarnar sem Hanna tíndi á ströndinni.

Þrátt fyrir að þú hafir ekki talað norsku og við takmarkaða íslensku var aldrei vandamál að eiga samskipti okkar á milli. Við skildum hvert annað. Við minnumst þess ekki að hafa séð þig skipta skapi, jafnvel þótt eitt eða tvö pútt hafi farið forgörðum.

Okkur þótti vænt um allar hefðirnar sem við áttum saman, t.d. þegar þú fórst með okkur í „Patróborgara“ og Egils-appelsín á bensínstöðinni á Patró þegar við komum í heimsókn. Takk fyrir allt.

Hvíl í friði, afi.

Hanna og Torleif.

Elsku afi okkar á Patró var alltaf rólegasti, kurteisasti og þrjóskasti maðurinn á svæðinu. Enginn hlustaði betur á babblið í okkur systkinunum og sýndi okkur eins mikla þolinmæði. Við afi spiluðum í hvert einasta sinn sem við hittumst, enda var hann klókur spilakall og kenndi okkur flest þau spil sem við kunnum í dag. Við fórum vestur til afa yfir sjómannadagshelgina á hverju ári alla okkar æsku, og var oft haldið upp á afmælisdag Rebekku þar, enda fædd á sjómannadeginum góða. Við fengum oftar en ekki að verja heilu sumrinu í sveitasælunni hjá afa á Patró. Þegar afi kom í bæinn til okkar var mikil gleði heima. Við fengum nefnilega ekki að hitta afann okkar eins oft og við vildum, það voru vissulega allnokkrir kílómetrarnir á milli okkar, en alltaf var það eins og maður hafði séð hann daginn áður. Hann var svo hlýr og góður og var sko ekki lengi að taka upp spilastokkinn.

Afi kenndi okkur líka að pútta en hann var alls ekki slæmur púttari þegar hann var upp á sitt besta. Við munum minnast afa míns með hlýjum hug og sakna hans mikið. Hann var einstakur maður sem kenndi okkur ekki bara að spila og pútta heldur var hann okkur fyrirmynd og kenndi okkur meðal annars þakklæti, hófsemi og góðvild.

Við hittumst aftur einn daginn elsku afi okkar og við biðjum vel að heilsa ömmu.

Þín afabörn

Rebekka Þurý og Hannes.

Þá er komið að kveðjustund, elsku Hanni okkar. Þær urðu margar Patróferðirnar og eftirminnilegar, bæði ferðalagið sem tók heila eilífð að okkur fannst – hvað voru þessir firðir eiginlega margir? - og svo himnaríkið sem tók við hjá ykkur Hönnu þegar við hlupum upp tröppurnar á Bölunum, rykug upp fyrir haus eftir 400 km+ á malarvegum. Bílferðin var fljót að gleymast, heimabökuð vínarbrauð og kleinur á boðstólum og setið fram undir kvöld við spjall og spilamennsku, og svo var auðvitað boðið upp á kvöldkaffi svo enginn færi svangur í háttinn. Fjöllin og fjörðurinn voru rauð, bleik og appelsínugul í sólsetrinu, allt í senn, þegar síðasta vínarbrauðið rann niður hjá okkur krökkunum. Yndislegar minningar, andrúmsloftið hlýlegt og hin einstaklega notalega nærvera þeirra hjóna var næstum áþreifanleg. Þarna fengu borgarbörnin að kynnast Patró og umhverfi, máttu leika sér eins og þau mest máttu en þó var mjög vel passað upp á að enginn yrði svangur.

Það var Hanna mikið áfall að missa Hönnu rétt rúmlega sextuga að aldri og hélt hann einn heimili upp frá því. Hann viðhélt heimilishaldinu í þeim anda sem þau hjón höfðu gert, myndarskapur, gestrisni og hlýleg nærvera í fyrirrúmi og alltaf var svo gott að koma í heimsókn til hans. Hann tók m.a. upp á því að fara að prjóna lopapeysur og nutum við systkini, makar og fleiri ættingjar og vinir góðs af því áhugamáli. Hanni var mjög félagslyndur og var virkur í félagsstarfinu í bænum. Sérstaklega hafði hann gaman af spilamennsku og var lunkinn við hana. Það var líka gaman að spila við hann, þrátt fyrir að maður tapaði nú oftast, því oftar en ekki stóð hann uppi sem sigurvegari þrátt fyrir að hafa fengið verri spil í upphafi.

Við vottum Völlu, Sigga Pétri og fjölskyldum innilega samúð. Minningin lifir um góðan dreng.

Ingibjörg Magnúsdóttir og Ólafur Magnússon.