Óeirðir Í brýnu sló á milli lögreglunnar í Jerúsalem og mótmælenda við al-Aqsa-moskuna, einn helgasta reit múslima, en nýsamið vopnahlé hélt.
Óeirðir Í brýnu sló á milli lögreglunnar í Jerúsalem og mótmælenda við al-Aqsa-moskuna, einn helgasta reit múslima, en nýsamið vopnahlé hélt. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Vopnahlé Ísraelsríkis og Hamas-samtakanna á Gaza-svæðinu hélt í gær, þrátt fyrir að óeirðir brytust út í Jerúsalem og á Vesturbakkanum.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Vopnahlé Ísraelsríkis og Hamas-samtakanna á Gaza-svæðinu hélt í gær, þrátt fyrir að óeirðir brytust út í Jerúsalem og á Vesturbakkanum. Kom til átaka milli ísraelskra lögreglumanna og Palestínumanna við al Aqsa-moskuna í Jerúsalem að loknum föstudagsbænum, en svipuð átök voru ein helsta kveikja átakanna á Gaza-svæðinu fyrir tveimur vikum.

Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði í gær að loftárásir Ísraelshers á Gaza-svæðið hefðu skilað miklum árangri, og að Ísraelsmenn hefðu varið sig gegn „óþolandi árásargirni“, en leiðtogar Hamas-samtakanna lýstu sömuleiðis yfir „sigri“ í átökunum.

Loftárásir Ísraela eru sagðar hafa fellt 243 á Gaza-svæðinu og voru 66 börn sögð þar á meðal af heilbrigðisráðuneyti svæðisins, sem lýtur stjórn Hamas. Netanyahu sagði hins vegar að nærri 200 vígamenn hefðu verið felldir í loftárásum Ísraela.

Á sama tíma skutu Hamas-samtökin og aðrir vígamenn rúmlega 4.300 eldflaugum að Ísrael, en mikill meirihluti þeirra náði ekki í gegnum loftvarnarkerfi Ísraela, „járnhvelfinguna“ svonefndu. Hins vegar féllu tólf manns í heildina, þar af eitt barn, og 357 særðust í eldflaugaárásunum.

„Alvörutækifæri“ til friðar

Helstu þjóðarleiðtogar heims lýstu yfir ánægju sinni með að vopnahléið, sem Egyptar höfðu milligöngu um, hefði tekið gildi. „Ég trúi að við höfum nú alvörutækifæri til að ná árangri, og ég mun vinna staðfastlega að því markmiði,“ sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti.

Fulltrúar Evrópusambandsins sögðu að eina varanlega lausnin á málefnum Ísraels og Palestínu væri hin svonefnda tveggja ríkja lausn, og Rússar og Kínverjar hvöttu báða aðila til þess að hefja friðarviðræður á ný.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hyggst funda með utanríkisráðherrum beggja ásamt fulltrúum annarra ríkja í heimshlutanum á næstu dögum til þess að kanna hvernig hægt sé að búa til betri framtíð fyrir bæði Ísraela og Palestínumenn.