Rannsóknir Tómas Árnason við smásjá þar sem sjá má loðnulirfur, en eldið gæti svarað spurningum um loðnuna.
Rannsóknir Tómas Árnason við smásjá þar sem sjá má loðnulirfur, en eldið gæti svarað spurningum um loðnuna. — Ljósmynd/Agnar Steinarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Loðnuhrogn og svil í nokkrum plastfötum um borð í tveimur uppsjávarskipum í byrjun mars eru nú orðin að lífvænlegum lirfum í stöð Hafrannsóknastofnunar á Stað í Grindavík.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Loðnuhrogn og svil í nokkrum plastfötum um borð í tveimur uppsjávarskipum í byrjun mars eru nú orðin að lífvænlegum lirfum í stöð Hafrannsóknastofnunar á Stað í Grindavík. Þar hafa verið gerðar rannsóknir á ýmsum tegundum í eldi í áraraðir og nú bætist loðna við húsdýrin. Vonir standa til að rannsóknir á loðnu í kerjum stöðvarinnar muni skila margvíslegum niðurstöðum á næstu árum.

Loðnan er verðmæt, sérstaklega loðnuhrognin, og skila þessar afurðir milljörðum í útflutningsverðmætum. Þegar vel gengur eru veidd hundruð þúsunda tonna af loðnu við landið. Ólíklegt er að eldið muni skila af sér afurðum til útflutnings og það er ekki tilgangurinn með eldinu. Upplýsingar um þennan mikilvæga fisk fyrir þjóðarbúið og um leið lífríkið í sjónum við Ísland geta hins vegar skipt miklu máli.

Nærast vel og stækka hratt

Þeir Tómas Árnason sjávarútvegsfræðingur og Agnar Steinarsson sjávarlíffræðingur halda um þræði í loðnueldinu, en fleiri starfsmenn Hafrannsóknastofnunar koma að verkefninu. Tómas segir að til þessa hafi gengið vel að koma loðnunni á legg. Nú 45 dögum frá klaki syndi hátt í tvö þúsund 25 millimetra loðnur um ker í stöðinni, nærist vel og stækki hratt.

Þeir félagar fengu meðal annars aðstoð frá skipverjum á Kap VE og Víkingi AK, sem gáfu sér tíma undir lok loðnuvertíðarinnar í vetur til að kreista hrogn í fötur og dreifa svilum og sjó yfir. Fötur með efniviðnum voru síðan settar í kæli um borð og sóttu starfsmenn Hafró hrogn í Landeyjahöfn, Akraneshöfn og Reykjavíkurhöfn og fluttu í eldisstöðina.

Nokkrar fötur með botnfylli

„Við fengum nokkrar fötur með botnfylli af hrognum,“ segir Tómas. „Stærsti hlutinn hafði ekki frjóvgast og því var talsverðu hent, en eigi að síður var þarna nokkuð af frjóvguðum hrognum, sem klöktust við sjö gráðu hita. Á sama tíma gæti hitastig í Breiðafirði og á Faxaflóa þar sem loðnan hrygndi hafa verið um fimm gráður.“

Fyrsta lirfan klaktist 20 dögum frá frjóvgun. Næstu daga á eftir var hins vegar eins og klakið hefði stöðvast og höfðu sérfræðingarnir nokkrar áhyggjur af því að tilraunin hefði misfarist. Við nánari athugun kom í ljós að það þurfti bara að hreyfa við hrognunum til að koma klakinu af stað.

Tómas segir að ekki hafi margir reynt eldi á loðnu. Fyrir um 40 árum hafi verið gerð tilraun til eldis í tjörn eða lóni í Noregi og loðnan þá verið alin á náttúrulegu dýrasvifi. Í því tilviki var hrognum klakið út og lirfum sleppt í tjörnina þar sem náttúran tók við. Í Grindavík verði reynt að hafa stjórn á ferlinu.

Hjóldýr og saltvatnsrækja

Saga loðnutilrauna í Grindavík er hins vegar ekki alveg ný því fyrir 20 árum var gerð lítil eldistilraun með loðnulirfur í eldisstöðinni. Hrogn og svil voru kreist úr nýdauðri loðnu við löndun í Grindavík, hrognin frjóvguð og klakin í eldisstöðinni. Síðan var prófað að ala lirfurnar á hjóldýrum en í ljós kom að loðnulirfurnar voru of kjaftsmáar til að geta étið hjóldýrin. Ekki tókst því að ala upp loðnuseiði í þessari fyrstu tilraun.

Framan af voru loðnulirfurnar, sem nú eru í stöðinni í Grindavík, einnig aldar á hjóldýrum, en að þessu sinni voru pöntuð sérstaklega smá dýr frá Bandaríkjunum. Þau eru hlýsjávardýr í náttúrunni og eru ræktuð áfram í Grindavík í 28 gráða heitum sjó og auðguð með næringarefnum með miklu af fitusýrum til að þau verði næringarríkari fyrir loðnuna. Í náttúrunni lifir loðnan á ýmiss konar svifdýrum, m.a. hjóldýrum, sem finnast í Atlantshafinu. Smám saman var farið að gefa lirfunum stærri hjóldýr og um þessar mundir er verið skipta hjóldýrunum út í staðinn fyrir nýklakta saltvatnsrækju (artemíu), sem er töluvert stærri fæða.

Vel er fylgst með þroska loðnunnar, bæði í um þrjú þúsund lítra kari og einnig í gegnum smásjá, jafnvel án þess að drepa lirfuna. Á þessum tímapunkti eru loðnuseiðin nánast glær á litinn og í smásjánni má sjá örsmá hjóldýrin og hvernig meltingarvegurinn vinnur.

Ný sjónarhorn við rannsóknir

-En hver er tilgangurinn með loðnueldinu?

„Fyrsta spurningin sem við viljum fá svar við er hvort þetta er yfir höfuð hægt,“ segir Tómas. „Í öðru lagi hyggjumst við búa til rannsóknaverkefni samhliða eldinu. Ýmsum hugmyndum hefur verið varpað fram í þeim efnum og ein þeirra lýtur að áhrifum súrnunar sjávar á loðnulirfur. Í eldisumhverfi er hægt að gera margt sem ekki er hægt að sjá um borð í rannsóknaskipum og á þennan hátt teljum við að möguleikar skapist á nýju sjónarhorni við loðnurannsóknir.“

Í samantekt Tómasar og Agnars um loðnuverkefnið segir meðal annars: „Við teljum hins vegar einnig mikilvægt að afla gagna með rannsóknum undir stýrðum umhverfisaðstæðum, því þess konar rannsóknir geta veitt vísbendingar um það hvernig stofnar koma til með að bregðast við breyttum aðstæðum í hafinu t.d. við hækkun sjávarhita.

Það er hins vegar mikill skortur á slíkum rannsóknum, sérstaklega í tegundum sem flokkast ekki sem eldistegundir, eins og loðna, makríll og síld. Í grunninn er þetta ástæðan fyrir því að við höfum áhuga á því að rannsaka loðnuna í tilraunastöðinni. Ekki hafa fundist heimildir um árangursríkt kerjaeldi á loðnulirfum í erlendum rannsóknastöðvum.“

Þá hafa sérfræðingar í loðnurannsóknum á uppsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar lýst áhuga á að taka þátt í eldistilraunum með loðnu til þess að styðja við rannsóknir á loðnu í villtri náttúru.

Rannsóknir og framleiðsla

Fimm manns starfa í rannsóknastöð Hafrannsóknastofnunar á Stað í Grindavík. Frá því starfsemi hófst í Tilraunaeldisstöðinni árið 1988 hafa verið stundaðar rannsóknir og framleiðsla á ýmsum tegundum sjávarfiska, s.s. sandhverfu, lúðu, þorski og hrognkelsi. Tómas segir að síðustu ár hafi áhersla verið lögð á eldistengdar rannsóknir á bleikju og laxi, en einnig steinbít og fleiri tegundum. Núna hefur loðnan bæst við.

Undanfarin ár hefur verið talsverð framleiðsla á grásleppuseiðum á Stað og hafa þau að mestu verið flutt út til Færeyja. Þar hafa seiðin nýst vel til að éta lús af laxi í eldi, en laxalús hefur verið kostnaðarsamt vandamál í Noregi og Færeyjum. Hann reiknar með að í ár verði flutt út um 120 þúsund grásleppuseiði frá Stað, en Benchmark Genetics, áður Stofnfiskur, er mun stærri í eldi og útflutningi á grásleppuseiðum frá Íslandi.