[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stangveiði Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Ófáir stangveiðimenn kjósa að mæta vorinu við eitthvert eftirlætisvatnið.

Stangveiði

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Ófáir stangveiðimenn kjósa að mæta vorinu við eitthvert eftirlætisvatnið. Sjá þar farfuglana streyma að, fyrstu grænu nálarnar pota sér upp úr sinugulum sverði, brum opnast á kjarrinu og, ef lífið leikur við þá, upplifa fyrstu silungatökur ársins. Þeir sem reyndu fyrir sér í vorveiði á sjóbirtingi veiddu víða ágætlega í apríl og framan af maí. Erfiðara virðist hafa verið í vatnaveiði víða í maí enda hefur legið í endalausum norðanáttum og kuldum, oft með tilheyrandi næturfrosti, en við slíkar aðstæður lifnar lífið rólega í vötnunum. Á því eru þó undantekningar. Eitt hinna vinsælu vorveiðivatna er Hlíðarvatn í Selvogi og þar hefst veiðin 1. maí ár hvert, á vegum fimm veiðifélaga sem samtals fara með 14 dagsstangir. Hvort sem ástæðan er jarðskjálftahrinurnar síðla vetrar og snemma í vor eða að tignarlegur strókurinn frá eldgosinu í Geldingadölum sem rís vestan við vatnið örvi áhuga bleikjanna, eins og einhverjir gárungar hafa velt fyrir sér, þá er víst að veiðin í vatninu það sem af er mánaði hefur verið gríðarlega góð. Bleikjan er þekkt fyrir að vera dyntótt, tekur stundum ekkert heilu dagana, eða af kappi í stuttan tíma og hættir svo. En í vor hafa margir veiðimenn við vatnið lent í því að bleikjur taka og taka, og tökunni ætlar bara ekkert að linna.

Undirritaður er einn unnenda Hlíðarvatns og þar hef ég kosið undanfarna tvo áratugi að mæta vorinu þegar það kemur til landsins. Oft hef ég veitt vel, stundum verr, eins og gengur. En í meira en sjötíu veiðiferðum í vatnið, nær eingöngu í maímánuði, hef ég aldrei fengið jafn margar tökur og í vor. Ekki bara í einni veiðiferð nú heldur alla þrjá dagana sem ég hef verið við vatnið.

Fyrstu daga maímánaðar var fín meðalveiði, má sjá í veiðibókum tveggja félaganna sem stunda vatnið. En svo datt þessi ævintýralega taka í gang. Sem dæmi um lífið þá hefur þótt gott hjá veiðifélaginu Árbliki, með tvær dagsstangir, að sumarveiðin hafi náð 600 bleikjum. Þann 18. maí höfðu þegar verið skráðar 280 þar í bók. Og í nokkra daga hafði hver veiðimaður verið að fá 20 til 40 fiska á dag, fiska frá „pönnustærð“ – svona 33 cm – og stærri. Í veiðibókum Ármanna og Árbliks voru stærstu bleikjur 62 cm og allnokkrar um 53 til 55 cm. Undirritaður hefur veitt hóflega en samt fært um 90 fiska til bókar. Hófsemi er vitaskuld dyggð við veiðar og hefur um helmingur bleikjanna fengið að synda aftur út í vatnið – aðrar hafa glatt fólk víða við matarborð. Þessi einstaka tökugleði hlýtur að vera undantekning en gaman er það meðan á því stendur.

Fyrstu laxar ljósmyndaðir

Nú er rétt rúm vika í að byrjað verði að kasta fyrir laxa í fyrstu ánum og lax er þegar mættur í einhverjar. Vika er til að mynda síðan fyrstu nýrenningarnir voru myndaðir á Lækjarbreiðu í Laxá í Kjós. Leigutakar hafa verið önnum kafnir við að undirbúa veiðihúsin fyrir sumarið og þeir sem blaðamaður hefur heyrt í bera sig vel hvað sölu laxveiðileyfa varðar. Eftir hið erfiða sumar í fyrra, þegar fjöldi erlendra veiðimanna komst ekki til landsins vegna veirufaraldursins, segja leigutakar nú undantekningalítið veiðileyfin vera uppseld. Og von er á bólusettum veiðimönnum víða að. Þá er bara að hafa áhyggjur af því hvort lax skili sér í einhverju magni – og hvort rigni. Ekki mun veita af.