Þorbjörg J. Ólafsdóttir fæddist á Hvammstanga 8. janúar 1950. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans 11. maí 2021.
Foreldrar hennar voru hjónin Ólafur Þórhallsson, f. 2. júní 1924, d. 18. ágúst 2013, og Halldóra Kristinsdóttir, f. 9. janúar 1930, d. 31. janúar 2013. Þau bjuggu á Syðri-Ánastöðum á Vatnsnesi í V-Húnavatnssýslu.
Systkini Þorbjargar: Ólöf Þórhildur, f. 1953; Halldór Kristinn, f. 1956, d. 1985; Bergur Helgi, f. 1960, d. 1988; Júlíus Heimir, f. 1965.
Eiginmaður Þorbjargar er Jón M. Benediktsson, f. 26. febrúar 1951, frá Staðarbakka í Miðfirði, V-Húnavatnssýslu. Börn þeirra eru: 1) Þórólfur, f. 5. september 1974. Eiginkona hans er Nanna Viðarsdóttir. Börn þeirra: Jón Ívar, f. 19. febrúar 2006, Logi, f. 14. september 2008, Kári, f. 28. október 2017. Fyrir átti Þórólfur Þorgerði, f. 16. apríl 2000, og fyrir átti Nanna Eddu Eik, f. 12. mars 1998. 2) Ragnheiður, f. 8. febrúar 1979. Hún er í sambúð með Erlend Nicolaisen. Börn Ragnheiðar eru: Ulrich Skírnir, f. 31. maí 2015, og Isadora, f. 10. janúar 2017. 3) Þórhildur, f. 8. febrúar 1979. Eiginmaður hennar er Jón Hákon Hjaltalín. Börn þeirra eru: Styrmir, f. 21. ágúst 2006, Þorbjörg Sara, f. 15. júlí 2010, og Hákon Emil, f. 1. ágúst 2013.
Þorbjörg ólst upp á Syðri-Ánastöðum þar sem foreldrar hennar stunduðu búskap. Hún lauk gagnfræðaprófi frá Reykjaskóla í Hrútafirði og útskrifaðist úr Ljósmæðraskóla Íslands 1972.
Lengst af starfaði hún á fæðingardeild Landspítalans en einnig á Reykjalundi og í mæðravernd á heilsugæslu Mosfellsumdæmis.
Þá leiðbeindi hún um skeið við handavinnu í félagsmiðstöðvum eldri borgara í Reykjavík.
Hún hafði mikinn áhuga á ýmiss konar hannyrðum og handverki og sótti margvísleg námskeið á því sviði hér á landi og erlendis.
Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Það er erfitt að vakna við þá staðreynd að mamma sé ekki lengur hér. Alla ævi hefur hún verið til staðar, fasti í lífinu og í kallfæri. Tilbúin í spjall við eldhúsborðið, símtal á ferðinni í lok vinnudags. Við áttum auðvelt með að tala saman, hún skildi mig vel og til hennar var gott að leita. Á erfiðum tímum var móðurfaðmurinn alltaf hlýjastur.
Ævi hennar var talsverðum þyrnum stráð. Ung kona sá hún á bak tveimur kærum bræðrum sínum sem létust vegna veikinda. Það reyndi mjög á hana og skildi eftir djúp sár sem aldrei greru. Um fertugt veiktist hún og náði aldrei fullri heilsu eftir það. Starfsþrekið þvarr en fram til þess hafði hún sinnt fullri vinnu við ljósmóðurstörf. Það íþyngdi henni og olli hugarangri. Heilsuleysið ágerðist síðan, þar til meinsemdin sem hún þurfti að kljást við náði loks undirtökunum og hrifsaði hana burt frá okkur, langt fyrir eðlilegan vitjunartíma.
Mamma bjó yfir mjög mikilli alúð og næmi og hafði ríka þörf fyrir að styðja við og hjálpa þeim sem næst henni stóðu. Hún var málsvari lítilmagnans, hvort sem um var að ræða smáfugla á sólpalli, viðkvæm blóm eða ung börn. Smáfólkið átti alltaf stóran hlut í hjarta hennar og réð sjálfsagt miklu um val hennar á ævistarfi. Hún naut sín aldrei betur en þegar barnabörnin voru nærri. Þrátt fyrir skerta orku þreyttist hún ekki á að púsla með þeim, leggja kapal eða kenna þeim hannyrðir. Hún fylgdist vel með þeim öllum, viðfangsefnum þeirra og áhugamálum og lagði mikið upp úr að vel væri hlúð að þeim og enginn færi nú út af sporinu. Eins og með okkur systkinin vildi hún að þau væru hrein, strokin og vel til fara og ég stríddi henni á að hún léti það jafnan vera sitt fyrsta verk að þvo börnum í næturpössun hátt og lágt jafnskjótt og foreldrarnir væru farnir. Börnin mín minnast stundanna í Urriðakvísl með mikilli hlýju og eftirsjá.
Mamma var mjög heimakær og lítið fyrir mannfagnaði. Hún var viðkvæm og tilfinningarík og vildi ekki bera sín mál á torg. Hún var nægjusöm og naut sín best í ró og næði heima fyrir eða í sumarbústaðnum sem þau pabbi höfðu byggt sér í Skorradal, þar þótti henni mjög gott að dvelja. Hún lagði upp úr að heimilið væri hlýlegt og fallegt og þar eru margir fallegir munir sem hún bjó til og vitna um listfengi hennar, smekkvísi og hæfileika.
Það er varla hægt að minnast mömmu án þess að nefna föður minn í sömu andrá. Hann var kletturinn í lífi hennar, stoðin og styttan. Fram á síðustu stund var hún óró ef hann var ekki nærri. Með honum leið henni best. „Áttu enga ömmu lengur,“ spurði þriggja ára sonur minn afa sinn. Þótt í því sé nokkur sannleikur er málið flóknara en svo. Afi mun eiga ömmu áfram og amma hann, því verður ekki breytt úr þessu. Í honum átti hún traustan og hlýjan vin og lífsförunaut. Pabbi var enda óþreytandi samherji hennar, hjálpaði henni, ekki síst við handverkið, og fáir hafa fylgt konum sínum í fleiri handavinnubúðir en hann.
Móður minni er ég endalaust þakklátur fyrir allt það góða sem hún kenndi mér og færði. Megi minning hennar lifa.
Þórólfur Jónsson.
Ég er þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman fjölskyldan og þær stundir sem við sátum saman við hannyrðir. Það eru fáir sem hafa tærnar þar sem hún hafði hælana þegar kom að handavinnu hvers konar og á ég henni mikið að þakka fyrir allt sem hún kenndi mér. Má þar sérstaklega nefna útsauminn og kassagerðina sem var hennar helsta áhugamál á síðustu árum. Ég var heppin að hafa sjálf þetta sama áhugamál og núna þegar við sitjum eftir án hennar er dýrmætt að eiga þessar minningar, ég tala nú ekki um öll verkin sem hún skildi eftir handa mér og börnum okkar Þórólfs.
Elsku Jón, tengdapabbi minn, situr nú uppi með þá staðreynd að veröldin er breytt og mikið tómarúm í hjartanu. Hvernig getur það verið að lífið haldi bara áfram eftir svona áfall en það gerir það hins vegar og Þorbjörg verður með okkur hér eftir en með öðrum hætti. Við höldum minningu hennar á lofti og minnumst hennar eins og hún var þegar við komum í heimsókn í Urriðakvíslina, svo hlý og góð og natin við mig og börnin. Mér finnst textinn í ljóðinu eftir Valdimar Hólm Hallstað eiga vel við en þar segir: „Þú fagra minning eftir skildir eina, sem aldrei gleymist meðan lífs ég er.“
Þín tengdadóttir,
Nanna Viðarsdóttir.
Þorgerður Þórólfsdóttir.
Meira á: www.mbl.is/andlat/.
Þórhildur.
Reykjaskóli í Hrútafirði var um margt merkileg stofnun. Námið var formlega aðalatriði dvalarinnar, en þar ófust líka varanleg vinabönd. Stofnað var til kynna við skólafélaga hvaðanæva af landinu. Og þó ekki sé ýkja langt milli Staðarbakka í Miðfirði og Ánastaða á Vatnsnesi lágu engar leiðir milli bæjanna, enda hvað höfðu unglingar í Miðfirði að sækja út á Vatnsnes og gagnkvæmt? Það þurfti sem sagt að fara til náms vestur í Reykjaskóla til að finna svar við þeirri spurningu.
Þorbjörg lærði ljósmóðurfræði og starfaði um árabil á Fæðingardeild Landspítalans. Ég var svo lánsamur að eiga þess kost að fylgjast með hennar faglegu og fumlausu handtökum þegar hún tók á móti yngsta barni okkar. Sagt var að nýbakaður faðir hefði kallað upp er hann leit son sinn augum: „En hvað hann er líkur mér“ og ljósmóðirin svaraði með huggunarrómi: „Það gerir ekkert til, aðalatriðið er að hann er heilbrigður og hraustur.“ Gæti hafa verið Þorbjörg því hún bjó yfir kímnigáfu sem hún beitti af hófsemd og smekkvísi.
Í lífsins amstri verður iðulega vík milli vina og samverustundir færri en vera skyldi. Að leiðarlokum er efst í huga þakklæti fyrir dýrmætar minningar. Við kveðjum Þorbjörgu sem hefur nú horfið inn í nóttlausa veröld vorsins. Kærum mági og fjölskyldu biðjum við blessunar.
Ólafur H. Jóhannsson.