Edda Þöll Hauksdóttir fæddist í Reykjavík 31. júlí 1989. Hún lést 5. maí 2021. Útför Eddu fór fram 19. maí 2021.
Það er hálfóraunverulegt að setjast niður við tölvuna til að fara að skrifa minningargrein um litlu systur sína. Eftir tiltölulega stutta en hetjulega baráttu við krabbamein hefur hún nú kvatt okkur og gengið á vit ævintýra sem enginn á að þurfa að vitja svo snemma á lífsleiðinni.
Edda var oft og tíðum sjálfri sér næg og gat hún setið tímunum saman og látið sig dreyma um allt milli himins og jarðar. Mér er það sérstaklega minnisstætt þegar við áttum páfagauk en einn daginn flaug hann eins og brjálaður væri út um allt. Ég man hvernig ég og vinur minn lokuðum okkur af inni í stofu og þorðum ekki fram. Þegar við komum loks fram var Edda uppi á stól inni í eldhúsi, starði á fuglinn og kyssti hann svo á gogginn og brosti. Mér finnst þessi saga svo lýsandi fyrir þann persónuleika og góðu nærveru sem Edda hafði alveg frá því hún var lítið barn. Ég hef sagt börnunum mína þessa sögu og mun segja Heru Lind hana þegar hún eldist ásamt fleiri sögum af mömmu hennar.
Edda hafði þennan eiginleika að vera róleg og yfirveguð og gefast aldrei upp sama hvað gekk á. Hún tæklað allar sínar stærstu hindranir með jákvæðni að leiðarljósi og nýtti öll tækifæri til að fagna og lifa lífinu til fulls. Hún var lík pabba okkar hvað þetta varðar en þau voru í einu og öllu alveg ótrúlega lík og hafði Edda það á orði fyrir stuttu að hún væri nú orðin óþarflega lík honum pabba okkar í útliti.
Edda átti þann draum heitastan að eignast fjölskyldu enda móðureðlið meðfætt. Stuttu eftir að hafa eignast Heru Lind þurfti Edda að takast á við sömu baráttuna við krabbameinið og við höfðum fylgt pabba okkar í gegnum fyrir rúmum tíu árum. Rétt eins og pabbi hafði gert tókst Edda á við baráttuna við krabbameinið á opinskáan hátt þar sem hún leyfði ættingjum og vinum að fylgja sér í gegnum ferlið þar sem hún sagði frá upplifun sinni, líðan, áskorunum, markmiðum og sigrum. Það var aldrei í boði að gefast upp, hún ætlaði að rústa þessu.
Haraldur eiginmaður Eddu var stoð og stytta við hlið hennar í einu og öllu og voru veikindin þar engin undantekning. Samband þeirra var einstakt og lýsa síðustu orð Eddu til Haraldar, „Þú ert nú meiri sauðurinn,“ á einhvern hátt meiri ást en orðin ég elska þig hefðu nokkurn tímann geta túlkað á þessari stundu.
Síðustu mánuði vorum við mörg hver það lánsöm að hafa fengið að vinna heima með Eddu en krabbameinið sem var þá komið í höfuðið og óafvitandi í mænu var þess eðlis að hún mátti ekki vera ein. Þetta var mjög dýrmætur tími sem mér þykir óskaplega vænt um að hafa fengið að njóta með Eddu. Edda sagði reglulega við mig þegar ég var hjá henni: „Þú verður auðvitað að sinna þinni vinnuskyldu.“
Það eru orð að sönnu að fyrir kærleikann sé greitt með sorginni og með sorg og söknuði i hjarta verður að segjast að nú hafir þú Edda mín lokið þinni vinnuskyldu. Nú tökum við ástvinir þínir við keflinu og pössum upp á hana Heru Lind og varðveitum með henni minninguna um þig, þitt fallega hjarta og hlýju nærveru sem fylgdi þér alla tíð.
Hvíl í friði Edda mín.
Arinbjörn Hauksson.
Brosmilda og ljúfa Edda.
Þau hafa verið þung skrefin síðustu daga í litlu fjölskyldunni okkar. Þetta er svo sárt og svo óréttlátt. Í aðstæðum sem þessum getur maður ekki annað en staldrað við og hugsað um lífið og tilveruna. Þegar ég geri það er ég þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman, sérstaklega þann tíma þegar við vorum tvær og spjölluðum um heima og geima.
Þú varst mikil baráttukona og það var svo aðdáunarvert að sjá þig opna umræðuna fyrir Tilveru að maður fylltist miklu stolti. Baráttukona sem ruddi veg fyrir aðra, lét ekki segja sér að gefast upp og gaf af sér. Við ræddum mikið um hvað þig langaði svo að gera þegar endurhæfingu væri lokið og þú varst sannfærð um að nýta þína reynslu til þess að hjálpa öðrum. Þegar maður lítur yfir farinn veg sér maður að þú hefur sennilega nú þegar hjálpað heilmörgum.
Samband ykkar Haraldar hefur alltaf verið einstakt frá upphafi og ég hef alltaf verið handviss um að þið hafið verið hið fullkomna „match“. Litla ljósið ykkar hún Hera Lind mun fá að heyra allar fallegu sögurnar ykkar.
Ein af mínum síðustu og góðu minningum var þegar við horfðum saman á viðtalið hjá Opruh við Megan og Harry upp á 11-E, en þá vorum við búnar að koma okkur vel fyrir og ætluðum að vera tímanlega í að stilla inn á viðtalið þegar við föttum að afruglarinn á Landspítalanum var frosinn. Við reyndum eins og við gátum að finna leið til þess að setja viðtalið á og náðum á endanum að horfa á það saman í ipadinum. Ég er ekki frá því að 3-4 hjúkkur á deildinni hafi kíkt inn til þín til þess að spyrja hvort við værum búnar að redda þessu. Þær voru auðvitað búnar að tengjast þér og sjá royalistann í þér. En ég held að ég hafi ekki getað fengið betri meðhorfanda á þáttinn þar sem þú varst alls staðar með á nótunum og eftir þáttinn fórstu enn dýpra með alla söguna en sjálf Oprah og búin að greina þetta allt frá A til Ö.
Það var svo gaman að sjá hvernig þú hreifst og snertir við fólki hvar sem þú varst eða hvert sem þú fórst.
Edda hafði svo fallega og bjarta sál sem bar mikla virðingu fyrir öllu. Hún var í raun fagmaður fram í fingurgóma í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Edda var líka gömul sál sem kunni öll trixin í bókinni hvað varðar þrif, eldamennsku eða önnur heimilisstörf. Í veikindunum fannstu kraftinn í því að geta dundað smá í eldhúsinu, mallað súpu svo tímunum skipti eða bakað ljúffengar pönnsur svo Hera gæti fengið að njóta dýrindiskaffitíma eftir leikskóla.
Edda bjó yfir ólýsanlegri yfirvegun og æðruleysi gagnvart lífinu og krabbameininu.
Þú varst okkur hinum sönn fyrirmynd og hefur kennt okkur svo margt.
Ég mun alltaf geyma þig í huga og hjarta mér og veit þú verður alltaf með okkur.
Hvíldu í friði elsku Edda mín.
Þín
Lára.
Þegar þú komst inn í fjölskylduna fyrir 13 árum var Haraldur búinn að finna hina fullkomnu kærustu að okkar mati. Þú varst ekki aðeins falleg, skemmtileg með yndislega nærveru, heldur varstu líka húsmæðraskólagengin sem gerði það að verkum að hann Haraldur datt sko heldur betur í lukkupottinn að næla í þig.
Samband ykkar Haraldar var mjög náið og einkenndist af miklum kærleika og ást. Þið voruð einfaldlega fullkomin fyrir hvort annað og miklir stuðpinnar. Húmorinn ykkar var einstakur, það var alltaf svo gaman að vera í kringum ykkur og endalaust hægt að fíflast og hlæja með ykkur.
Það sannaðist mjög fljótt hversu mikil barnagæla þú varst. Strax í upphafi varstu farin að passa börnin okkar systra og þú þráðir ekkert heitar en að eignast sjálf fullt af börnum.
Það sýnir hversu lífið getur verið hverfult að þú, sem hafðir barist fyrir því að eignast barn, skyldir svo veikjast af brjóstakrabbameini nokkrum mánuðum eftir að elsku Hera Lind kom í heiminn. Þið Milla systir voruð mjög nánar og styrktuð hvor aðra í sameiginlegri baráttu við þetta illvíga mein. Þú sigraðir að lokum en því miður kom reiðarslag í febrúar þegar þú greindist aftur og var baráttan byrjuð upp á nýtt. Við dáðumst alltaf að styrk og æðruleysi ykkar Haraldar í veikindunum.
Það sem einkenndi þig var jákvæðni og óbilandi trú á að þú kæmist yfir þessi alvarlegu veikindi. Þú varst í grunninn einlæg, glaðvær og með risastórt hjarta. Trú og sönn. Það var ofboðsleg harka og dugnaður sem dreif þig áfram í þessari baráttu. Í allri sorginni varstu alltaf svo jákvæð og hamingjusöm. Þú ætlaðir aldrei að gefast upp.
Mikið erum við þakklátar fyrir þann tíma sem við fengum að hafa þig í fjölskyldunni okkar og fyrir þann tíma sem við áttum með þér. Það er örstutt síðan við sátum saman vongóðar um að þú næðir bata og ræddum framtíðina.
Við söknum þín sárt elsku Edda okkar. Þú varst yndisleg vinkona og dýrmætur hlekkur í fjölskyldunni og snertir alla í kringum þig. Við elskum þig og guð geymi þig. Við vitum að þér líður vel núna, sameinuð pabba þínum sem þú saknaðir svo mikið og elsku Millu systur.
Við kveðjum þig elsku Edda okkar. Í huga okkar er þér batnað, þú ert björt og falleg, kemur á móti okkur með opinn faðminn og hlæjandi eins og alltaf. Þú kenndir okkur að lífið er núna! Við minnum okkur á það á hverjum degi.
Elsku Haraldur, Hera Lind, Hera, Arinbjörn, Lára, Inga Björk, Berglind og Bjössi okkar, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Missir ykkar er mestur og biðjum við Guð að styrkja ykkur í sorg ykkar.
Berglind og Birna.
Hlátur þinn fangaði hvers manns athygli, því með honum fylgdi ávallt bros.
Bros sem gerði myrkan dag að björtum degi, því aldrei var hægt að vita á hvaða uppákomum væri von – á þeim degi.
Þú klæddist gjarnan bleiku og með hárið fínt, saklaus út á við og kurteis.
Með ákveðni þinni fórstu þínar leiðir, þrátt fyrir að þú vissir oft betur.
Hvern dag sástu sem tækifæri til að kanna nýja hluti – helst einhverja sem voru bannaðir, í okkar tilfellum.
Þú varst vinkona mín, vinkona mín sem ég vildi halda í höndina á alla daga.
Við vorum E-in tvö og stóðum við bakið hvor á annarri í blíðu og stríðu.
Ég hugsaði ávallt fallega til þín og fann að þú gast skilið mig þegar enginn annar gerði það. Við vorum samferða frá barni í ungling – og mættum saman erfiðleikum sem áttu eftir að móta okkur restina af lífinu.
Ég er svo vængbrotin því ég sakna þín ólýsanlega mikið. Þú hefur alltaf verið besta vinkona mín þrátt fyrir að lífið leiddi okkur sína í hvora áttina með árunum. Með fögnuði og hlýju tókstu hinu glaðlega í lífinu – með þrautseigju, jákvæðni og æðruleysi tókstu á við þá erfiðleika sem lífið færði þér.
Ég er svo stolt af þér og af þeirri sterku konu sem úr þér varð. Þú eignaðist yndislega kraftaverkadóttur með manni úr gulli – sem mun standa við bakið á dóttur ykkar líkt og þú hefðir viljað gera sjálf.
Með tárin í augunum kyssi ég þig á ennið og kveð þig í hinsta sinn, elsku vinkona mín. Ég mun ævilangt geyma heilan fjársjóð af minningum og sögum af okkar vináttu í hjarta mínu.
E-in tvö það voru – Edda og Eva.
Þín æskuvinkona,
Eva Hillerz.
Eftir því sem leið á unglingsárin kom töffarinn alltaf betur í ljós. Edda var ekkert að tvínóna við hlutina, hún sagði sína skoðun sama hvað og var ekkert að skafa utan af hlutunum. Okkur datt ýmislegt í hug og ævintýrin sem við lentum í á okkar menntaskólaárum eru óteljandi. Eftirminnilegust er þó án efa Mallorca-ferðin okkar en einnig óteljandi rúntar á fleygiferð um borgina á Yarisnum hennar Eddu. Þær minningar verða vel geymdar hjá okkur alla tíð.
Árin liðu og það leið ögn lengra á milli hittinga hjá okkur en alltaf áttum við dásamlegar stundir. Svo kom dagurinn sem hún kynnti okkur stolt fyrir Halla. Þau gerðu allt saman og það fór ekki milli mála að Edda okkar var í bestu mögulegu höndum. Þau hreinlega smullu saman líkt og þau hefðu alltaf verið hjón.
Þau áttu allt lífið fram undan. Móðurhlutverkið var Eddu í blóð borið og það erfiða ferli sem tók við hefði líklega fengið marga til að gefast upp en það kom ekki til greina hjá Eddu og Halla. Þvílíkur dýrðardagur það var þegar vagninn í aukaherberginu var tekinn í notkun. Edda var dásamleg móðir og voru þær mæðgur alltaf í fínasta pússi eins og þeim einum var lagið. Edda kunni svo sannarlega að halda heimili enda húsmæðraskólagengin. Móttökurnar á Langholtsveginum og síðar Tangabryggjunni voru eins höfðinglegar og þær gerast.
Verkefnin sem litla fjölskyldan tókst á við fyrsta eina og hálfa ár Heru Lindar voru mikil þolraun og meira en nýbakaðir foreldrar ættu að þola. Edda missti aldrei móðinn og tókst á við krabbaslaginn af miklu æðruleysi, hörku og þrautseigju. Það er aðdáunarvert hversu opin hún var með allt ferlið og við verðum ævinlega þakklátar fyrir að hafa fengið að fylgjast með á þennan hátt. Hún er hetjan okkar og verður alltaf.
Enga okkar óraði fyrir því þegar við drukkum kaffi saman á sólríkum degi síðasta sumar að það væri í síðasta skipti sem við fimm hittumst. En staðsetningin var viðeigandi, á kaffihúsi í Laugardalnum, nokkra metra frá Laugarásveginum þar sem við áttum ótal eftirminnilegar stundir í gegnum tíðina. Það var alltaf svo notalegt að koma í heimsókn, stoppa aðeins í eldhúsinu og spjalla við Heru, kíkja þar næst yfir í stofuna þar sem Haukur var oftar en ekki að hlusta á góða tónlist, áður en leiðin lá svo loks upp í herbergið hennar Eddu þar sem við spjölluðum og slúðruðum út í hið óendanlega.
Elsku Edda kenndi okkur hvað vináttan er dýrmæt og við munum gera allt til að rækta hana um ókomna tíð og halda minningu Eddu á lífi. Hennar verður sárt saknað. Við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til Halla, Heru Lindar, Heru og fjölskyldu.
Erla María, Margrét,
Rebekka og Sandra.
Þú þurftir að hafa svo mikið fyrir lífinu en þú kvartaðir aldrei. Þú leist á veikindi þín sem verkefni sem þyrfti að leysa og það kom aldrei neitt annað til greina hjá þér en að sigrast á því. Það var aðdáunarvert að sjá hvað þú varst jákvæð, sterk og bjartsýn í baráttunni við brjóstakrabbann. Í haust skálaðir þú í Moët, enn sem oftar, til að fagna krabbameinsleysi. Í febrúar síðastliðnum kom enn eitt höggið á þig, meinvörp í heilahimnu var það heillin.
Ég fékk að vera hjá þér á spítalanum eitt laugardagskvöld í byrjun mars meðan þú varst í geislum. Við fengum okkur sushi og þú sagðir að næst myndum við fá okkur hvítvín með. Við spjölluðum um allt og ekkert, gamla drauga og framtíðina. Það var svo gott að tala við þig, þú varst svo ráðagóð og raunsæ. Eitt skipti þegar ég var á krossgötum í lífinu talaði ég við þig og var að velta fyrir mér hvað þér fyndist um ákvarðanir mínar og þú sagðir við mig: „Hugrún, ef þú ert ánægð þá er ég ánægð.“
Þú varst með eindæmum traust og skilningsrík vinkona. Ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa kynnst þér og fyrir vináttu okkar. Ég hef alltaf litið upp til þín og þá helst til þeirra mannkosta sem þú hafðir að geyma og ekki síst fyrir þitt einstaka handbragð. Þú kunnir allt, gast allt og það voru aldrei nein vandamál í þínum huga, þú gerðir bara það sem þurfti að gera og það var allt svo vel gert hjá þér. Þú varst mikil smekkmanneskja og náðir að gera allt svo huggulegt.
Margar góðar minningar ylja og hughreysta í mikilli sorg. Við eigum eftir að deila fallegum minningum um þig með litlu Heru Lind. Ég kveð þig með trega og söknuði elsku vinkona og veit að þú tekur á móti okkur með Moët þegar okkar tími kemur.
Elsku Haraldur, Hera Lind og fjölskylda, ég votta ykkur mína innilegustu samúð.
Gull á ég ekki að gefa þér
og gimsteina ekki neina
en viltu muna að vináttan er
verðmætust eðalsteina.
(Hjálmar Freysteinsson)
Þín
Hugrún.