Búningar fyrir Hjartadrottninguna og Óða hattarann úr Lísu í Undralandi eftir Bob Crowley.
Búningar fyrir Hjartadrottninguna og Óða hattarann úr Lísu í Undralandi eftir Bob Crowley. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
London. AFP. | Eftir að hafa verið lokað í heilt ár á meðan kórónuveiran setti veruleikann úr skorðum var Viktoríu og Alberts-safnið í London opnað að nýju í gær, laugardag, og sýningargestum hleypt ofan í nýja kanínuholu.
London. AFP. | Eftir að hafa verið lokað í heilt ár á meðan kórónuveiran setti veruleikann úr skorðum var Viktoríu og Alberts-safnið í London opnað að nýju í gær, laugardag, og sýningargestum hleypt ofan í nýja kanínuholu. Á sýningunni „Alice: Curiouser and Curiouser“ („Lísa: Þetta er þó skrítið!“) er kafað ofan í þau áhrif, sem sagan „Ævintýri Lísu í Undralandi“ eftir Lewis Carroll, hefur haft í áranna rás. Bókin kom út 1865 og enn höfðar hún til listamanna og lesenda.

Á sýningunni er að finna búninga úr leiksýningum, brot úr bíómyndum, handrit og teikningar. Innsetningar höfða til heyrnar og sjónar og er ætlunin að kafa ofan í „rætur, endurgerðir og uppfærslur“ á verki Carrolls, sem var stærðfræðingur í Oxford og hét réttu nafni Charles Lutwidge Dodgson.

Ætlunin er að höfða til allra aldurshópa. Sýningunni er skipt niður. Sýningargestir ganga eftir sjávarsíðu frá Viktoríutímanum, sem á að minna á tímann þegar höfundurinn var uppi, og ramba inn í uppákomur úr bókinni þar sem þeir eru staddir í rósagarði Hjartadrottningarinnar og teboði Óða hattarans.

Söfn á Bretlandi hafa verið lokuð í marga mánuði til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar, sem hefur kostað næstum 128 þúsund manns lífið í landinu. Opna mátti söfn á Bretlandi á mánudag.

Líkt og í öðrum söfnum er lögð áhersla á fjarlægðarreglur í Viktoríu og Alberts-safninu, grímuskylda er við lýði og sprittbrúsinn aldrei langt undan. Gagnvirkir básar þar sem til dæmis er hægt að spila krikket við Hjartadrottninguna eru hreinsaðir reglulega.

Sýningunni er skipt í fimm hluta. Fyrst er farið ofan í áhrifavalda höfundar á Viktoríutímanum. Síðan er haldið í útgáfur, sem gerðar hafa verið af sögunni fyrir hvíta tjaldið, allt frá teiknimynd Disneys frá árinu 1951 til endurgerðar Tims Burtons frá 2010 auk fyrstu þöglu myndarinnar um Lísu og japanskrar „anime“-teiknimyndar, sem sótti innblástur í söguna.

Síðar er farið yfir áhrif bókarinnar á súrrealisma og hippamenningu sjöunda áratugar 20. aldar.

Finna má fyrstu útgáfu af bókinni með myndum eftir spænska listamanninn Salvador Dali ásamt uppfærslum fyrir leikhús og ballett.

Að lokum er fjallað um það hvernig bókin heillar enn og töfrar, einni og hálfri öld eftir útgáfu hennar.