„Nýlega er kominn hingað til lands ungur amerískur kvikmyndatökumaður, Robert C. Davis, í þeim tilgangi að taka hjer, eða raunar ljúka við töku Íslandskvikmyndar, sem hann byrjaði á, er hann var í ljósmyndadeild ameríska hersins í síðustu styrjöld. Ætlar Davis að ferðast hjer um landið fram í ágústmánuð og taka kvikmyndir, en hann er kunnugur hjer um land, eftir að hann dvaldi hjer í tvö og hálft ár.“
Með þessum orðum hófst frétt á baksíðu Morgunblaðsins á þessum degi árið 1951. Enn fremur kom fram að Davis hefði tekið tvær 16 mm kvikmyndir í eðlilegum litum í Bandaríkjunum, sem hann hugðist sýna hérlendis ef áhugi væri fyrir hendi. „Einnig hefir hann meðferðis kvikmyndina „Interlude in Iceland“, sem hann tók hjer fyrir nokkrum árum.“
Davis taldi sig vanta í kvikmynd sína myndir af Heklugosinu 1947, sem hann vildi kaupa, eða leigja. „Hann nýtur hjer fyrirgreiðslu Ferðaskrifstofu ríkisins, og mun vera hægt að ná sambandi við hann þar, ef einhverjir hafa áhuga á að tala við hann um kvikmyndasýningar, eða kvikmyndatöku.“