Ljósverk eftir Ólaf Elíasson í turni Hallgrímskirkju, sem borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fimmtudag að taka þátt í að fjármagna, er enn á hugmyndastigi og í þróun, að sögn Sigríðar Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra kirkjunnar.
Sigríður segir að verkið muni styrkja turn kirkjunnar enn frekar sem áfangastað. Um 1-1,5 milljónir ferðamanna koma í kirkjuna árlega. Þar af hafa 260-320 þúsund lagt leið sína upp í turninn gegn greiðslu. Tekjur kirkjunnar af ferðafólki síðustu ár hafa verið árlega í kringum 300 milljónir.
Hugmyndaverk Ólafs og stúdíós hans í Berlín tengir saman turnhæðirnar tvær og klukkuportið. Þá verður sérstakri ljóseiningu komið fyrir sem myndar ljósbrot/regnboga í um 500 metra radíus við kirkjuna. Tillögur Ólafs að verkinu eru trúnaðargagn þar til listamaðurinn afléttir þeim trúnaði.
100 milljónir á ári í viðgerðir
Í fundargerð borgarráðs segir að hlutur borgarinnar í kostnaðinum nemi 20 milljónum króna, á móti styrk ríkisins og annarra aðila auk tekna af aðgangseyri. Heildarkostnaður við verkið er áætlaður 110 milljónir króna og deilast styrkirnir niður á nokkur ár.Sigríður segir kirkjuna vera mjög þakkláta fyrir alla þá styrki sem hún hefur fengið.
„Við munum nýta þessa styrki að hluta til í nauðsynlegt viðhald til þess að undirbúa turninn fyrir verkið. Hann hefur í raun og veru aldrei verið almennilega kláraður,“ segir Sigríður. Hún segir að þetta viðhald muni að öllum líkindum standa fram á næsta ár og í framhaldinu verði listaverkinu komið fyrir. Viðhald á kirkjunni kostaði 120 milljónir árið 2019 en kostar að jafnaði um 100 milljónir á ári að því er kemur fram í greinargerð kirkjunnar sem send var til Reykjavíkurborgar. Þar kemur enn fremur fram að langtímaskuld Hallgrímskirkju vegna viðgerða á turninum nam 100 milljónum í árslok 2019. urdur@mbl.is