Birgir Þórarinsson
Birgir Þórarinsson
Eftir Birgi Þórarinsson: "Á Gaza tók ég eitt sinn eldri Palestínumann tali og spurði hann um ástandið á Gaza. Hann svaraði: „Lífið var betra fyrir tíma Hamas.“"

Hörmungar hafa dunið yfir Palestínumenn á Gaza undanfarna daga. Ísrael mátti að sama skapi þola linnulausar eldflaugaárásir frá Gaza. Ísraelsmenn svöruðu eldflaugaárásum af hörku. Vopnahléi er fagnað. Fórnarlömb stríðsrekstrar eru sem fyrr almennir borgarar. Saklaus börn liggja í valnum. Í þessum heimshluta er víða ófriðlegt. Í Jemen er rekinn miskunnarlaus stríðsrekstur þar sem rúmlega 3.000 börn hafa látið lífið og ekki sér fyrir endann á stríði sem hefur geisað í sex ár. Stríð sem fært hefur mestu hörmungar á síðari tímum yfir eina þjóð. Sádi-Arabar bera ábyrgð á því að drepa þar konur og börn og leggja hungursneyð á heila þjóð.

Á Gaza-ströndinni hafa Hamas-samtökin haldið um stjórnartaumana síðan 2006. Á 15 ára valdatíma hafa engar kosningar farið fram. Á þessum árum hafa Palestínumenn á Gaza gengið í gegnum þrjú stríð við Ísrael. Afleiðingarnar eru skelfilegar, mikið mannfall meðal saklausra borgara og gríðarlegt eignatjón. Annar hver Palestínumaður þjáist í dag af áfallastreituröskun. Að sama skapi búa íbúar í suðurhluta Ísraels við daglegan ótta um eldflaugar frá Gaza.

Palestínumenn á Gaza á móti stefnu Hamas gagnvart Ísrael

Samkvæmt tveimur skoðanakönnunum sem gerðar voru meðal Palestínumanna á Gaza fyrir rúmum tveimur árum er meirihluti íbúanna á móti stefnu Hamas-samtakanna gagnvart Ísrael eða 62% þeirra. Að minnsta kosti helmingur styður friðarsamning við Ísrael. Á sama tíma neitar Hamas að viðurkenna Ísraelsríki. Meirihluti telur einnig að Hamas eigi að hætta að kalla eftir eyðingu Ísraelsríkis en þess í stað einbeita sér að tveggja ríkja lausninni til friðar. Þegar spurt er hver beri mesta ábyrgð á ástandinu á Gaza segir meirihlutinn að Hamas og palestínsk stjórnvöld í Ramallah beri mesta ábyrgð. Einungis 27% segja Ísrael bera mesta ábyrgð. Það sem kemur sérstaklega á óvart í þessum könnunum er að meirihluti Palestínumanna vill að ísraelsk fyrirtæki hefji starfsemi á Gaza og ráði Palestínumenn í vinnu. Kannanirnar voru gerðar 3.-15. október 2018 af palestínsku stofnuninni Palestine Center for Public Opinion , sem er með aðsetur í Betlehem.

Áður en ég tók sæti á Alþingi haustið 2017 starfaði ég við flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínumenn í Mið-Austurlöndum. Á Gaza tók ég eitt sinn eldri Palestínumann tali og spurði hann um ástandið á Gaza. Hann svaraði: „Lífið var betra fyrir tíma Hamas.“

Höfundur er þingmaður Miðflokksins. birgirth@althingi.is

Höf.: Birgi Þórarinsson