Baldur Arnarson baldura@mbl.is Óvíst er hvort ferðaþjónustan muni skila jafn mörgum störfum og áður þegar kórónuveirufaraldurinn er að baki. Sama má segja um verslunina.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Óvíst er hvort ferðaþjónustan muni skila jafn mörgum störfum og áður þegar kórónuveirufaraldurinn er að baki. Sama má segja um verslunina.

Gæti þetta haft töluverð áhrif á þróun atvinnuleysis og þrýst á tilfærslu starfa milli atvinnugreina svo atvinnustig nái fyrri hæðum.

Viðmælandi Morgunblaðsins í ferðaþjónustu kvaðst hafa fækkað starfsfólki úr 30 í 20 með innleiðingu snjalllausna og sjálfsafgreiðslu.

Ólafur Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela, segir fyrirtækið hafa skoðað slíka tækni. Hann segir aðspurður að hár rekstrarkostnaður þrýsti á slíka hagræðingu. „Hlutfall launa af tekjum er orðið hátt og þá þurfa menn að leita leiða til að svara því. Þetta er ein af þeim leiðum.“

Sjálfsafgreiðsla og snjallmenni

CenterHótel Grandi verður opnað á Seljavegi í sumar. Kristófer Oliversson, eigandi CenterHótelanna, segir snjalllausnir verða innleiddar á nýja hótelinu. Meðal annars muni gestir geta innritað sig sjálfir.

Þá hafi fyrirtækið tekið í notkun snjallmenni til að svara tölvupósti og aðstoða viðskiptavini við bókanir. Nú þegar séu CenterHótelin að nota gervigreind við greiningu á markaðsaðstæðum, framboði og eftirspurn og allri verðstýringu. Einnig sé mikill meirihluti bókana nú þegar sjálfvirkur. Jafnframt sé fyrirtækið að skoða möguleika á notkun þjarka. Til dæmis til að flytja þvott og fleira bæði innanhúss og milli hótela.

Aukinn launakostnaður þrýsti mjög á hagræðingu í ferðaþjónustu.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, segir „rándýra kjarasamninga“ eiga þátt í fækkun verslunarstarfa.

Atvinnulausum gæti fækkað í 14 þúsund í sumar ef ráðningarátak skilar væntum árangri.