Þetta er helvítis hneyksli! Ég finn til með Pammy; þetta gæti endurvakið áfallastreituna. Og skammastu þín, Lily James, hver í andskotanum sem þú ert. #viðbjóðsleg.“
Þannig komst tónlistarkonan Courtney Love, sem fræg er fyrir að hafa munninn fyrir neðan nefið, að orði í vikunni. Hún var að viðra skoðanir sínar á sjónvarpsþættinum Pam & Tommy á samfélagsmiðlum en upptökur á honum eru nýhafnar í Bandaríkjunum. Pam þessi er leikkonan Pamela Anderson, góðvinkona Love, og Tommy er fyrrverandi eiginmaður hennar, með ættarnafnið Lee, sem margir þekkja sem trymbil glysmálmsveitarinnar geðþekku Mötley Crüe. Ef þið eruð ekki að kveikja á Lily James, frekar en Courtney Love, þá er það bresk leikkona sem fer einmitt með hlutverk Anderson í þættinum. Hinn rúmensk/bandaríski Sebastian Stan leikur Lee.
Graig Gillespie leikstýrir.
Það er gömul saga og ný að líf og störf fræga fólksins vestra séu mönnum innblástur við gerð sjónvarpsþátta og kvikmynda. Í þessu tilviki koma hvorki Anderson né Lee á hinn bóginn nærri verkefninu og hafa fyrir vikið ekkert um það að segja hvurslag mynd verður dregin upp af þeim á skjánum. Lítið hefur lekið út um nálgunina og áherslurnar en eigi að síður hringja viðvörunarbjöllur víða. Hvorki Anderson né Lee hafa tjáð sig opinberlega en haft hefur verið eftir vini hennar í fjölmiðlum að hún ætli ekki að horfa á þennan „hræðilega þátt“. Eini tilgangurinn með honum sé að græða peninga á ógæfu annarra.
Nú er greinarhöfundur ekki spámannslega vaxinn en ætlar samt að gefa sér að sú staðreynd að Rand Gauthier sé meðal aðalpersóna í þættinum hafi eitthvað með bræði Love að gera. Það hefur komið fram og mun Seth Rogen, sem jafnframt hefur unnið að þróun þáttarins, fara með hlutverk hans.
Nú klórar þú þér ugglaust í höfðinu, kæri lesandi, og spyrð, í anda Courtney Love: „Hver í andskotanum er Rand Gauthier?“ Og lái þér hver sem vill; sjálfur þurfti ég að fletta þessu nafni upp – og er ég þó allvel að mér um strandlíf og málm.
Rand Gauthier er sumsé rafvirkinn sem stal kynlífsmyndbandinu fræga af Anderson og Lee og kom því í umferð á netinu. Fór það eins og eldur í sinu um heimsbyggðina með tilheyrandi afleiðingum og niðurlægingu fyrir dagskrárgerðarfólkið. Enda átti gjörningurinn aldrei að fara úr húsi.
Rekinn á staðnum
Forsaga málsins er sú að Rand Gauthier lenti upp á kant við Tommy Lee sem rak hann á staðnum og harðneitaði að greiða honum fyrir verk sem hann vann á heimili þeirra hjóna. Það átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Hermt er að svo reiður hafi Lee verið að hann hafi meira að segja dregið upp hólk og beint honum að manninum.Rand Gauthier átti vont með að una þessu og eftir að hafa legið yfir ítarlegri hefndaraðgerðaáætlun um mánaða skeið braust hann inn hjá hjónunum og rændi öryggisskáp, þar sem téð myndband var að finna. Mest var um saklaust myndefni frá hveitibrauðsdögum þeirra hjóna að ræða – en inn á milli var sumsé sjóðheitt kynlífsatriði. Bingó!
Eftir að myndbandið fór í umferð á netinu höfðuðu hjónin mál á hendur fyrirtækinu sem bar ábyrgðina, Internet Entertainment Group (IEG), en samkomulag náðist utan dómsalar. Eftir það fór IEG að bjóða áskrifendum upp á aðgang og þá þrefaldaðist víst traffíkin.
Giftust eftir fjóra daga
Pamela Anderson gekk að eiga Tommy Lee árið 1995 – aðeins fjórum dögum eftir að þau hittust fyrst. Sem er út af fyrir sig alveg verðugur upptaktur að sjónvarpsþætti. Hjónavígslan fór fram á ströndinni og var Anderson íklædd vörumerki sínu, sundbol, en hún er frægust fyrir að hafa leikið í hinum goðsagnakenndu sjónvarpsþáttum Strandvörðum, ásamt David gamla Hasselhoff og fleiri góðum. Lee gleymdi víst að láta móður sína vita og las hún fyrst um ráðahaginn í tímaritinu People. Til að bæta gráu ofan á svart þá er móðir hans grísk og eins og við þekkjum á sú þjóð sér ekki stærra áhugamál en hjónavígslur. Sú hefur verið Zorbitin!Hjónaband Anderson og Lee vakti gríðarlega athygli og útheimti ófáa dálksentimetrana í blöðum og tímaritum næstu árin. Sambandið var stormasamt en Lee hlaut meðal annars sex mánaða fangelsisdóm fyrir að ráðast á spúsu sína. Þau eignuðust tvo syni, fædda 1996 og 1997, en skildu 1998. Áttu þó eftir að slá sér upp aftur síðar.
Sem frægt er þá smitaði Lee Anderson af lifrarbólgu C, þegar þau deildu húðflúrnál, að því er næst verður komist, og kvaðst hún ekki eiga nema tíu til fimmtán ár eftir í útvarpsþætti æringjans Howards Sterns árið 2003. Þeim tíðindum trúðu menn víða eins og nýju neti. Þetta mun þó hafa verið sagt í hálfkæringi og árið 2015 kom fram að hún væri læknuð af lifrarbólgunni.
Þetta var hennar fyrsta hjónaband en Anderson hefur gift sig fjórum sinnum síðan og slegið sér upp með allmörgum mönnum að auki. Meðal eiginmanna má nefna rokkarann Kid Rock og meðal ástmanna knattspyrnumanninn Adil Rami og glysrokkarann Bret Michaels úr Poison. Þau hentu einnig í kynlífsmyndband sem síðar kom upp á yfirborðið. Það er sagt styttra en myndbandið með Lee og var tekið upp áður.
Verið lengi í sviðsljósinu
Tommy Lee hefur lifað langan dag í sviðsljósinu; steig fyrst fram ásamt hljómsveit sinni, Mötley Crüe, fyrir réttum fjörutíu árum. Níundi áratugurinn var gullöld þess ágæta glysbands, svo sem annarra banda af þeirri gerð, en það starfar enn, eins og lesa má um hér efst á opnunni. Lee hefur víða komið við og má í því sambandi rifja upp raunveruleikasjónvarpsþáttinn Rock Star; Supernova árið 2006, ásamt ekki minni mönnum en Jason Newsted, sem á sinni tíð var í Metallica, og Magna okkar Ásgeirssyni. Ólíklegt verður þó að teljast að Magni verði ein af persónunum í Pam & Tommy enda var parið þá löngu skilið að lögum.Árið 2008 gerði kappinn sér lítið fyrir og heimsótti Ísland; þeytti skífum við góðan orðstír á skemmtistaðnum Nösu sálugu. Fram kom að hann hefði verið hinn rólegasti við það tækifæri enda orðinn 45 ára gamall. Sem er vitaskuld enginn smáræðis aldur! Það þýðir að hann er 58 ára í dag, að verða 59.