Ragnheiður Þorvaldsdóttir fæddist 28. júlí 1957. Hún lést 7. febrúar 2021.
Útför Ragnheiðar fór fram í kyrrþey 16. febrúar 2021.
Lífið gengur sinn vanagang og lífsklukkan tifar. Dagur rennur í kjölfar nætur og þannig heldur lífið áfram. Þrátt fyrir þessar staðreyndir er lífið hverfullt og vissum breytingum undirorpið. Mannlegir máttarstólpar sem eru aflgjafar og hvatar í lífi okkar og hafa gefið lífinu gildi vilja gjarnan verða óhagganlegir og eilífir í huga okkar. Hafi þeir verið okkur til gleði og hvatningar reiknum við einfaldlega með návist þeirra án frávika.
Þær fréttir bárust 7. febrúar sl. að Ragnheiður Þorvaldsdóttir, ljósmóðir og góð vinkona, hefði kvatt þennan heim. Það er eins og heimurinn haldi niðri í sér andanum um stund meðan við meðtökum þessi sorglegu tíðindi. Lífið mun verða öðruvísi án hennar fyrir svo marga. Mestur er missirinn fyrir fjölskyldu hennar og sorglegt að hún fái ekki notið barnabarnanna sinna sem hún eignaðist nýlega og voru skírð við útför hennar.
Sjálf á ég Ragnheiði margt að þakka. Hún stóð með sínu fólki hvað sem á bjátaði og hopaði hvergi. Það var gott að eiga hana að.
Við unnum saman á fæðingardeildinni í mörg ár og deildum bæði gleði og sorg. Við vissum báðar að við áttum traustan vin hvor í annarri.
Nú er Ragheiður horfin úr þessum heimi.
Elsku Ragnheiður mín. Ég sakna þín úr vinnunni, sakna símtalanna, heimsóknanna, kaffihúsanna. Ég vona að þú sért frjáls að taka á móti mér þegar þessari jarðvist lýkur.
Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu þinnar sem nú á um sárt að binda.
Kristín Sigurðardóttir.