Arkitektinn Lina Bo Bardi, sem lést árið 1992, var í fyrradag sæmd heiðursverðlaunum Feneyjatvíæringsins í arkitektúr, Gullna ljóninu, fyrir ævistarf sitt og framlag til byggingarlistar. Hún fæddist á Ítalíu árið 1914 og var skírð Achillina Bo en varð síðar þekkt undir nafninu Lina Bo Bardi. Hún starfaði fyrst í heimalandi sínu en fluttist árið 1947 til Brasilíu með eiginmanni sínum og stofnaði þar með honum tímaritið Habitat auk þess að starfa sem arkitekt og gegna ýmsum fleiri störfum.
Þema tvíæringsins í ár er „How Will We Live Together?“ eða „Hvernig munum við búa saman?“ og sýningarstjóri hans, Hashim Sarkis, segir valið á Bo Bardi eiga mjög vel við þemað þar sem hún hafi náð framúrskarandi árangri á ýmsum sviðum, m.a. sem hönnuður, sýningastjóri og aðgerðasinni. Þá hafi hún teiknað kraftmiklar byggingar sem sameinuðu byggingarlist, náttúru og samfélag. Í Brasilíu lét Bo Bardi mikið að sér kveða í hinu karllæga samfélagi arkitekta þar og kom víða við, ritstýrði m.a. tímaritum, stýrði söfnum, hannaði búninga fyrir leikhús og leikmyndir og hannaði byggingar fyrst og fremst með þarfir fólks í huga. Þær þekktustu eru í Sao Paulo, m.a. SESC Pompéia og Glerhúsið (Casa de Vidro). Bo Bardi er fyrsta konan sem hlýtur heiðursviðurkenningu tvíæringsins, að því er kemur fram í frétt The New York Times .