„Vá! Fannstu þennan?“ Jóna glaðvaknaði við jarðskjálftann en Gunnar rumskaði ekki. Hún beið eftir fleirum, þeir komu ekki. Klukkan var hálftvö. Ró Gunnars raskaðist reyndar aðeins við vá-ið í Jónu, hann fór fram úr að pissa. Hann sagði ekki orð, fór aftur undir sængina er hann kom til baka og steinsofnaði. Hún gat ekki sofnað strax og fór að hugsa um örlæti Jónasar í þeirra garð með eftirlaunasamninginn. Hann gjörbreytir fjárhagsstöðunni hjá þeim þegar Gunnar hættir að vinna. Hann hafði ekki stórar áhyggjur af ellinni frekar en fyrri daginn.
Þetta er einkennilegt hvernig lögfræðingar skilja lög, fór hún að hugsa. Í almannatryggingalögunum eru orðskýringar í 11 liðum, þriðjungur orðskýringanna fjallar um tekjutegundir. Í níunda lið eru atvinnutekjur og í tíunda lið lífeyrissjóðstekjur. Engin orðskýring eða orðalag er í lögunum um eftirlaun, atvinnuleysisbætur eða aðrar atvinnutengdar launatekjur sem eru endurgjald fyrir atvinnuþátttöku og njóta 100 þúsund króna frítekjumarks. Reyndar hvergi minnst á lífeyrissjóðstekjur nema í orðskýringum. Leikmaður getur ekki áttað sig á því sem löglærðir virðast lesa úr þeim; að með því að nefna lífeyrissjóðstekjur í einum lið orðskýringa, þá geti þær ekki verið atvinnutekjur, þótt þær séu jafn atvinnutengdar og eftirlaun og atvinnuleysisbætur.
Hvernig ætli þeir túlki stefgjaldatekjur til ljóð- og tónskálda? Tekjur af stefgjöldum eru ekki nefndar í orðskýringunum. Þær atvinnutengdu tekjur bera 22% fjármagnstekjuskatt en njóta einskis frádráttar í tekjuskattslögum. Ætli það eigi einnig við um ellilaunafrítekjumarkið? Hver veit?
Listmálari málar listaverk á fimmtugsaldri sem hann selur eftir að hann verður ellilífeyrisþegi hjá Tryggingastofnun. Eftirlaunasjóðurinn hans er þannig í gömlum óseldum málverkum. Hann hlýtur að fá þær tekjur réttilega metnar til frítekjumarks atvinnutekna fyrst það er engin orðskýring um listmálaraeftirlaun í lögunum!
Jóna sneri sér á hina hliðina, lagaði koddann og sveif að sinni úr heimi ellilaunanna.
Tómas Láruson,
hliðarsjálf ellilífeyrisþega.