Miðnætursól Víða er fagurt á Ströndum, ekki síst við Drangaskörð.
Miðnætursól Víða er fagurt á Ströndum, ekki síst við Drangaskörð. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sveitarstjórn Árneshrepps á Ströndum hefur auglýst tillögu að breytingu á aðalskipulagi hreppsins vegna frístundabyggðar í landi Dranga. Landeigandi Dranga, Fornasel ehf., hefur óskað eftir að heimilt verði að byggja allt að 14 frístundahús á svæðinu.

Sveitarstjórn Árneshrepps á Ströndum hefur auglýst tillögu að breytingu á aðalskipulagi hreppsins vegna frístundabyggðar í landi Dranga. Landeigandi Dranga, Fornasel ehf., hefur óskað eftir að heimilt verði að byggja allt að 14 frístundahús á svæðinu. Í greinargerð kemur fram að frístundahúsin verði innan tæplega 10 hektara svæðis við Drangabæinn.

Samhliða er unnið að gerð deiliskipulags og er jörðin í friðlýsingarferli hjá Umhverfisstofnun. Markmiðið er að uppbygging á svæðinu fari einungis fram á því svæði sem þegar er búið að byggja á og hlífa þar með hinum hluta jarðarinnar fyrir uppbyggingu. Svæðið er grasi vaxið og þakið sóleyjum á sumrin og hvönn setur einnig mikinn svip á umhverfið. Skipulagstillagan verður til sýnis í húsnæði Kaupfélagsins í Norðurfirði, á vef Árneshrepps og hjá Skipulagsstofnun. Athugasemdir þurfa að berast eigi síðar en 29. júní.