Með stofnun Matvælasjóðs í fyrra vorum við í krafti nýsköpunar og þróunar að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar í íslenskri matvælaframleiðslu. Það hefur sjaldan verið eins brýnt og nú enda lykilatriði í kjölfar Covid-faraldursins að okkur takist að auka verðmætasköpun um allt land. Nú hefur verið opnað fyrr aðra úthlutun sjóðsins og ég er sannfærður um að sjóðurinn geti orðið mikilvægur liður í þeirri efnahagslegu viðspyrnu sem fram undan er.
Verkefni vítt og breitt um landið
Matvælasjóður úthlutaði í fyrsta skipti í desember sl. og fengu þá 62 verkefni vítt og breitt um landið styrk að fjárhæð 480 milljónir. Það var enda ein af lykiláherslum mínum við stofnun sjóðsins að hann myndi styrkja verkefni um allt land og að stuðningur við matvælaframleiðslu yrði sem næst uppruna hennar.
Við Margrét Hólm Valsdóttir, formaður Matvælasjóðs, opnuðum í síðustu viku fyrir umsófknir í aðra úthlutun Matvælasjóðs og er umsóknarfrestur til 6. júní nk. Sjóðurinn mun fá 250 milljóna króna viðbótarframlag á þessu ári og er heildarúthlutunarfé sjóðsins alls 630 milljónir króna. Þessi fjárveiting er liður í áherslu okkar um að styrkja á landsvísu enn frekar þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu íslenskra matvæla og hliðarafurða þeirra úr landbúnaðar- og sjávarafurðum.
Markmið sjóðsins er að ná til verkefna á öllum stigum, allt frá hugmyndum til markaðssetningar og hagnýtra rannsókna. Sjóðurinn hefur fjóra flokka, sem eru:
• Bára styrkir verkefni á hugmyndastigi. Styrkur úr Báru fleytir hugmynd yfir í verkefni.
• Kelda styrkir rannsóknaverkefni sem miða að því að skapa nýja þekkingu.
• Afurð styrkir verkefni sem komin eru af hugmyndastigi en eru þó ekki tilbúin til markaðssetningar, en leiða af sér afurð.
• Fjársjóður styrkir sókn á markað. Fjársjóður er samansafn verðmætra hluta og styrkir fyrirtæki til að koma sínum verðmætum á framfæri.
Fjárfest í framtíðinni
Staðreyndin er sú að íslenska þjóðin þarf að auka útflutningsverðmæti um einn milljarð á viku næstu tuttugu árin, vilji hún halda uppi sömu lífskjörum. Styrkir Matvælasjóðs eru því um leið skýr skilaboð; stjórnvöld eru að fjárfesta í framtíðinni. Fjárfesta í aukinni verðmætasköpun. Við erum að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar í íslenskri matvælaframleiðslu í nútíð en ekki síður framtíð til hagsbóta fyrir allt samfélagið.
Höfundur er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.