Ég vona að ég æri ekki óstöðugan en ég má til með að höggva í sama knérunn og Ásdís sessunautur minn og vinkona hér á þessum vettvangi fyrir réttri viku. Ég hef sumsé enn ekki verið bólusettur. Ritstjórn Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins er augljóslega ekki í forgangi þegar kemur að þessu þjóðarátaki. Framan af beið ég sultuslakur meðan mér eldra fólki, framlínustarfsmönnum og fólki með undirliggjandi sjúkdóma var ekið undir grenjandi sírenum í Laugardalinn. Hjó að vísu eftir því að hvergi var minnst á fólk með yfirliggjandi sjúkdóma, eins og exem, sóríasis og annað slíkt. Hvers eigum við að gjalda?
Síðan fóru símar að klingja allt í kringum mig; foreldrar mínir fengu kvaðningu, eiginkona mín og nú er svo komið að búið er að bólusetja fjögur af fimm börnum mínum. Svo því sé til haga haldið þá eru börnin mín öll yngri en ég, nema mögulega eitt. Tvö af fjórum tengdabörnum hafa líka farið undir nálina og það þriðja verið margboðað enda þótt því sé ekki ráðlagt að þiggja sprautuna að svo stöddu. Bommsíbomm, þið skiljið. Fjórða tengdabarnið tók slaginn við KÓVEIS (e. COVID) og fer því aftast í röðina, jafnvel aftur fyrir mig. Nú bíð ég bara eftir að barnabörnin fái boð. Jafnvel hundurinn.
Svo ég sé nú alveg heiðarlegur þá hef ég fengið eina kvaðningu í bólusetningu; var ræstur út sem varamaður, eins og hálf karlþjóðin, í upphafi þessa mánaðar, þegar einhverjir byrjunarliðsmenn skrópuðu í AstraZeneca. Það boð kom þó ekki með sms-skilaboðum, eins og hjá öðrum. Ég er eini maðurinn sem ég veit um sem ekki hefur fengið boð í bólusetningu með sms-skilaboðum. Ég og svili minn í Hafnarfirði. Ég veit að við þykjum báðir frekar sérkennilegir menn en það er svíngróft, eins og unga fólkið orðar það, að nota það gegn okkur í þessu sambandi.
Þegar allir og afi þeirra voru búnir að fá boð þennan dag benti velgjörðarfólk mér góðfúslega á að fara inn á önhvurja gátt í netheimum sem heitir heilsuvera.is. Skilaboðin gætu verið þar. Og, jú, jú, mikil ósköp, þar lágu þau – í blóði sínu. Mér hafði sumsé verið frjálst að mæta einhverjum átta klukkustundum áður. Í stuttermabol. Verst að ég hafði aldrei á ævinni heyrt um heilsuveru.is. Nú ryðst ég þangað inn oft á dag en nei, ekkert er að frétta.
Svo við uppfærum pistilinn frá seinustu helgi þá fékk Ásdís kvaðningu í vikunni og situr hér alsæl og býsna roggin við hliðina á mér, bólusett til hálfs. Var einhver að tala um bólusetningaröfund?!