Jón Sigurðsson Nordal
jonn@mbl.is
Reykjavíkurborg braut gegn lagaskyldu sinni til útboðs með samningum við Orku náttúrunnar ohf. (ON) um LED-væðingu götulýsingar í borginni. Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar útboðsmála, en auk tveggja milljóna króna stjórnvaldssektar lagði nefndin fyrir borgina að bjóða verkið út.
Fyrir rétt rúmu ári kærðu Samtök iðnaðarins (SI) þjónustusamninga á milli Reykjavíkurborgar og ON er vörðuðu rekstur, viðhald og LED-væðingu ljósastaura í Reykjavík til kærunefndar útboðsmála. Fram kom í gögnum sem lögð voru fyrir nefndina að borgin hefði greitt ON tæpar 84 milljónir króna frá ársbyrjun 2020 til 30. apríl 2021 fyrir rekstur, viðhald og endurnýjun götulýsingarinnar. SI kröfðust þess að samningarnir yrðu lýstir óvirkir og að lagt yrði fyrir Reykjavíkurborg að bjóða út verkið.
Í úrskurði kærunefndarinnar segir að tengsl Reykjavíkurborgar og ON hafi ekki verið þess eðlis að undantekningarregla 13. gr. laga um opinber innkaup, sem fjallar um opinbera samninga sem ekki er skylt að bjóða út, ættu við. „Þar sem innkaupin voru ekki boðin út verður lagt til grundvallar að varnaraðili hafi brotið gegn skyldu sinni til útboðs samkvæmt 4. mgr. 23. gr. laga [um opinber innkaup],“ segir þar enn fremur. Þannig hafi viðskipti Reykjavíkurborgar við ON verið útboðsskyld.
Beita ekki óvirkjunarheimild
Þrátt fyrir að hún legði stjórnvaldssekt á borgina lýsti kærunefndin samningana ekki óvirka og vísaði því til rökstuðnings í eðli samningssambands borgarinnar og ON sem fram fór innan ramma þjónustusamnings frá árinu 2010. Af því sambandi að dæma kom ekki til greina að beita óvirkjunarheimild sem finna má í 1. mgr. 115. gr. laga um opinber innkaup.Hvað varðar kröfu SI um að borginni yrði skylt að bjóða út verkið að viðlögðum dagsektum skýrði nefndin niðurstöðu sína með því að skipta LED-væðingu götulýsingar í Reykjavík í tvo meginþætti. Annars vegar kaup á LED-lömpum og hins vegar kaup á þjónustu við uppsetningu þeirra. Fyrir lá að rammasamningur um kaup á lömpum væri í gildi, en ekki var ákvæðum um útskiptingu og uppsetningu lampanna til að dreifa í honum.
Nefndin mat það svo að Reykjavíkurborg hefði ekki fært fram haldbærar röksemdir fyrir því að ekki væri unnt að bjóða út þjónustu tengda útskiptingu og uppsetningu LED-lampa né að brýnir almannahagsmunir stæðu í vegi fyrir að breytingar yrðu gerðar á núverandi fyrirkomulagi, eins og borgin hafði byggt á í vörn sinni. Var Reykjavíkurborg því gert að bjóða fyrrgreinda þjónustu út og greiða bæði milljón krónur í málskostnað til SI og tvær milljónir í stjórnvaldssekt eins og áður segir.