Þuríður Gísladóttir fæddist 28. ágúst 1946. Hún lést 5. maí 2021. Útför Þuríðar fór fram 20. maí 2021.
Við kveðjum í dag Þuríði Gísladóttur frænku mína frá Lindakirkju í Kópavogi. Hún var vafalaust hvíldinni fegin eftir langvarandi veikindi sem gengu nærri henni. Hin síðari ár voru samtöl okkar í önnum daganna færri en áður svo sem vill verða. En vináttan var til staðar allt frá barnæskuárum. Til viðbótar veikindum hennar hamlaði Covid-faraldurinn öllum samskiptum en hún naut hjúkrunar á Landakoti þar sem hún átti sína síðustu daga.
Þegar Jóna Unnur Ágústsdóttir móðir Þuríðar varð einstæð móðir í Reykjavík með hana kornunga nutu þær þess að fjölskyldan var samhent. Þær fluttu fljótlega vestur í Mávahlíð í Fróðárhreppi til foreldra Jónu, þeirra Þuríðar Þorsteinsdóttur og Ágústs Ólasonar, sem bjuggu miklu myndarbúi með sonum sínum. Í Mávahlíð vildi Þuríður vera og þar var móðir hennar viss um að væri hennar besta skjól á meðan hún hóf aftur vinnu í Reykjavík. Á þeim árum var ekki auðvelt fyrir einstæðar mæður að framfleyta sér í höfuðborginni. Því þótti fjölskyldunni eðlilegt að Þuríður væri áfram í Mávahlíð þar sem hún steig sín fyrstu skref inn í lífið við bestu aðstæður hjá afa sínum, ömmu og móðursystkinum. Við systkinin á Borg í Ólafsvík vorum tíðir gestir í Mávahlíð og nutum þess að vera með Þuríði frænku okkar. Öll þau samskipti í sveitinni leiddu til vináttu frændsystkinanna. Eftir að móðir Þuríðar flutti til Hellissands með seinni eiginmanni sínum, Rögnvaldi Ólafssyni, forstjóra Hraðfrystihúss Hellissands, eignaðist Þuríður nýtt heimili þar og gekk í skóla á Hellissandi. Hún var samt mikið í Mávahlíð hjá ömmu og afa sem voru hennar stoð og stytta alla tíð. Þuríður var góð frænka og vinur vina sinna og sérlega námfús og hafði góð áhrif á okkur strákana frændur sína sem hún umgekkst og voru á svipuðum aldri. Á hennar uppvaxtarárum var ekki mikið námsframboð fyrir unglinga á Snæfellsnesi. Enginn framhaldsskóli var á Hellissandi og raunar ekki á Snæfellsnesi fyrr en Miðskólinn var stofnaður í Stykkishólmi og þangað fór hún til náms og dvaldi í heimavistinni í Stykkishólmi og lauk landsprófi þar með góðum árangri. Þuríður hafði ríka þjónustulund og því átti það vel við hana að stunda verslunarstörf sem hún gerði lengst af. Hún vann m.a. í Nóatúnsversluninni og Melabúðinni þar sem öflugir Sandarar réðu ríkjum sem eigendur þeirra verslana. Við Þuríður áttum það sameiginlegt eftir að við fórum að vera í Reykjavík að eiga gott skjól hjá móðursystur okkar henni Hólmfríði Ágústsdóttur og þar var ekki í kot vísað hvort sem það var á Grettisgötunni eða á Grýtubakka og ég veit að samband þeirra Þuríðar og Hólmfríðar var náið alla tíð. Þuríður og eiginmaður hennar Jón Magnússon voru einstaklega heppin með börnin sín þrjú sem nú hafa séð á eftir báðum foreldrum sínum. Með þessum línum vil ég minnast frænku minnar með þakklæti og votta börnum hennar og fjölskyldum þeirra samúð okkar Hallgerðar.
Sturla Böðvarsson.