Á Reykjavíkurflugvelli Flugvélar Mýflugs flytja hundruð sjúklinga frá landsbyggðinni á Landspítalann ár hvert.
Á Reykjavíkurflugvelli Flugvélar Mýflugs flytja hundruð sjúklinga frá landsbyggðinni á Landspítalann ár hvert. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Flugvélar eru burðarásinn í sjúkraflugskerfi Íslands. Þær fara mun oftar í sjúkraflug ár hvert en þyrlur Landhelgisgæslunnar, eða í 80% tilvika.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Flugvélar eru burðarásinn í sjúkraflugskerfi Íslands. Þær fara mun oftar í sjúkraflug ár hvert en þyrlur Landhelgisgæslunnar, eða í 80% tilvika. Áfangastaður flugsins er langoftast Reykjavíkurflugvöllur, þar sem sjúklingarnir eru á leiðinni á Landspítalann, sem er í næsta nágrenni við flugvöllinn.

Þetta kemur fram í skýrslu Þorgeirs Pálssonar, fyrrverandi flugmálastjóra, sem kom út í ágúst 2017. Jón Gunnarsson, þáverandi samgönguráðherra, fól Þorgeiri að skilgreina og leggja mat á það öryggishlutverk sem Reykjavíkurflugvöllur gegnir, og jafnframt að meta hvernig og hversu vel aðrar staðsetningar flugvallar fyrir höfuðborgarsvæðið myndu uppfylla þetta hlutverk.

Skýrsla Þorgeirs er hér rifjuð upp vegna ummæla Pawels Bartoszeks borgarfulltrúa í blaðinu í gær þess efnis að það væri afstaða Reykjavíkurborgar að flugvöllurinn ætti að víkja úr Vatnsmýrinni. Sagði Pawel að Landhelgisgæslunni yrði ekki leyft að byggja nýtt skýli fyrir flugflota sinn á vellinum, en gamla skýlið er sprungið auk þess sem það uppfyllir í engu kröfur um öryggi og aðbúnað. Pawel bendir á að til skoðunar sé að útbúa nýjan þyrlupall á vellinum sem þyrlurnar gætu lent á.

En hvert færist sjálft sjúkraflugið? Það er spuringin sem þarf að svara. Til Keflavíkurflugvallar eða á nýjan flugvöll í Hvassahrauni?

Fram kemur í skýrslu Þorgeirs að Mýflug hafi um árabil annast sjúkraflug innanlands með aðsetur og miðstöð á Akureyrarflugvelli. Notaðar eru afkastamiklar og hraðfleygar flugvélar (Beechcraft King Air200), sem henti vel til flugs yfir hálendi Íslands, þar sem þær hafa jafnþrýstibúnað, veita einum til tveimur sjúklingum og áhöfn þægilegt umhverfi og eru hagkvæmar í rekstri. Flug frá fjarlægustu flugvöllum landsins taki yfirleitt ekki nema eina klukkustund. Árið 2016 voru um það bil 700 sjúklingar fluttir með sjúkraflugi Mýflugs, flestir til Reykjavíkur. Til samanburðar voru 166 sjúklingar fluttir með þyrlum Landhelgisgæslunnar árið 2016.

Mikil aukning hefur verið í sjúkraflutningum eða sem nam 50% fimm árin þar á undan, eða um 8,5% á ári. „Reykjavíkurflugvöllur er afar vel í sveit settur við hlið Landspítalans, sem er oftast endanlegur áfangastaður sjúklinganna. Flugvöllurinn býður upp á góðar aðflugsleiðir og flugleiðsöguþjónustu auk langra og góðra flugbrauta fyrir þessa stærð flugvéla. Lokun á SV/NA-flugbrautinni, sem stundum er nefnd neyðarflugbrautin, hefur þó rýrt verulega möguleikana til að lenda á flugvellinum í sterkum útsynningi, sem er algengur á Suðvesturlandi, sérstaklega á haustin og vorin,“ segir Þorgeir.

Gegna veigamiklu hlutverki

Hann bendir á að þyrlur Gæslunnar gegni veigamiklu hlutverki við flutning á sjúkum og slösuðum. Þær séu fyrst og fremst notaðar þegar aðrar leiðir eru ekki færar til að komast að og sækja sjúkling við erfiðar aðstæður. Þyrlurnar séu fremur hægfleygar og þurfi því nokkurn tíma til að komast á vettvang. Jafnframt séu þær heftar í blindflugi yfir hálendið vegna takmarkaðrar afkastagetu ef annar hreyfillinn bilar á flugi. Þyrlur séu einnig mun viðkvæmari fyrir ísingu en flugvélar. „Hins vegar hafa þær ótvíræða kosti þegar sækja þarf slasaðan einstakling á torsótta staði eða á vettvang fjarri nothæfum sjúkraflugvelli auk þess að geta lent við inngang sjúkrahússins. Eðli málsins samkvæmt eru þyrlur ekki fyrsti kostur til að koma slösuðum á sjúkrahús frá fjarlægari stöðum á landinu, nema líf liggi við og aðrar leiðir séu ekki færar,“ segir Þorgeir.