Sif Melsteð fæddist 9. nóvember 1965. Hún lést 10. maí 2021. Útför Sifjar fór fram 20. maí 2021.
Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.
Hún heitast þig elskaði og fyrirgaf þér.
Hún ávallt er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Hún er íslenska konan sem ól þig og helgar sitt líf.
Og loks þegar móðirin lögð er í mold
þá lýtur þú höfði og tár falla á fold.
Þú veist hver var skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.
En sólin hún hnígur og sólin hún rís.
Og sjá þér við hlið er þín hamingjudís
sem alltaf er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Það er íslenska konan, tákn trúar og vonar,
sem ann þér og helgar sitt líf.
(Ómar Ragnarsson)
Innilegar samúðarkveðjur til allra ættingja og vina Sifjar sem við höfum þekkt og sungið með í yfir 30 ár, til Daníels sem var augasteinn mömmu sinnar og til Lindu systur hennar sem var henni svo kær.
Sif var falleg sál og falleg kona. Röddin hennar björt. Jafnbjört er minningin um góða vinkonu og félaga.
Hvíl í friði elsku Sif og takk fyrir samfylgdina.
Klara, Valgerður
og Arnþrúður.
Sif var með fallega og bjarta söngrödd og var hluti af Dómkórnum í mörg ár. Þar leið henni vel og hún átti þar góða vini. Það sem hún var þakklát og hrærð eftir söng þeirra fyrir utan stofuna hennar á líknardeildinni nokkrum dögum fyrir andlátið. Hún lifnaði öll við og söng með hverju einasta lagi. Þetta var henni mikils virði. Hún hélt mikið upp á íslensk sönglög, en hún var líka spennt fyrir því að takast á við klassísk verk, sem Dómkórinn hefur flutt svo glæsilega við ýmis tækifæri. Þrátt fyrir að vera mikill klassíker í sér var hún laumurokkari og elskaði að dansa. Hún kom oft til mín og borðaði kvöldmat með okkur Huldu og svo var skraflið tekið fram. Þetta voru gæðastundir og ég held mikið upp á þær. Ég var með gestabók og stundum þegar hún skrifaði í hana sagði hún: „Nei þetta gengur ekki, ég er þrisvar á sömu blaðsíðu, áttu enga vini?“ Og hló svo dillandi hlátri.
Talandi um hlátur. Sif var létt í lund og hló mikið, oftast að sjálfri sér og sá spaugilegar hliðar hversdagsleikans. Stríðni var henni í blóð borin en það var aldrei rætið, maður sá í fallegu brúnu augunum hennar kímnina sem kraumaði undir. Það var ævintýri að fara með Sif í bíó. Hún sá svo margt sem aðrir sáu ekki og hló á þeim stöðum þar sem enginn annar hló. Þá brást ekki að salurinn var farinn að hlæja þegar hún hló, svo smitandi var hlátur hennar.
Sif var mikill dýravinur og hændi að sér ketti og hunda og ekki fannst henni leiðinlegt þegar við fórum með Daníel í sauðburð til Stebba bróður og hún vílaði ekki fyrir sér að fara og taka til hendinni. Hún dekraði hunda frænda sinna og talaði við þá eins og þeir skildu allt sem hún sagði, og kannski hafa þeir gert það! Einnig elskaði hún börn og sýndi þeim mikla athygli. Hún fylgdist með uppvexti frændsystkina sinna með einlægum áhuga og vildi þeim veg allan sem bestan.
Augasteinninn hennar var auðvitað Daníel, sem var henni allt. Augu hennar tindruðu af stolti þegar hún talaði um drenginn sinn og hún hafði mikla trú á honum. Við sem eftir erum munum halda áfram að hafa mikla trú á Daníel og vera ofurstolt af honum. Sif var einnig ómetanleg stoð og stytta móður sinnar og tengslin sterk á milli þeirra. Hún vildi rækta fjölskylduböndin og ég veit að lambaferðirnar á vorin voru henni og Daníel mikils virði.
Ég votta elsku Daníel syni hennar, Þórunni móður Sifjar, pabba, systkinum og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð. Minningin lifir.
Berglind og Hulda Rún.