Fyrir skömmu kom út á vegum landbúnaðarráðuneytisins skýrsla um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland sem ber heitið Ræktum Ísland. Í skýrslu þessari kveður við miklu skynsamlegri tón en landsmenn hafa átt að venjast í opinberum gögnum um landbúnaðarmál. Fyrir það framtak ber að þakka höfundunum þeim Birni Bjarnasyni og Hlédísi H. Sveinsdóttur og öðrum þeim sem komu að gerð skýrslunnar.
Lakari starfsskilyrði en erlendis
Í skýrslunni er meðal annars það nýnæmi að horft er til starfsskilyrða íslensks landbúnaðar í alþjóðlegu samhengi. Vakin er athygli á því að í Evrópusambandinu nýtur landbúnaðurinn í veigamiklum atriðum betri starfsskilyrða en hér á Íslandi. Í sjálfum grunnlögum Evrópusambandsins, frá Rómarsáttmálanum 1957 til Lissabon-samningsins 2007, fær landbúnaður sérstakan sess og er undanskilinn almennum reglum sambandsins um ríkisstuðning, markaðsleiðsögn og samkeppni. Hvað samkeppnismál snertir er þetta hógværlega orðað í skýrslu Björns og Hlédísar (bls. 59):„...bæði í Noregi og Evrópusambandinu eru almennari og rýmri ákvæði í löggjöf sem víkja til hliðar ákvæðum samkeppnislaga ef þau standa í vegi fyrir framkvæmd landbúnaðarstefnu stjórnvalda.“
Þessi orð er ekki sögð að tilefnislausu. Framkvæmd samkeppnislaga, en vel að merkja ekki lögin sjálf, hefur verið með þeim hætti að erfitt hefur verið fyrir íslensk fyrirtæki að ná þeirri stærðarhagkvæmni sem sjálfsögð þykir erlendis. Þetta hefur bitnað á landbúnaðnum ekki síður en öðrum atvinnuvegum.
Mikil framleiðniaukning í mjólkurvinnslu
Árið 2004 sýndi Alþingi þá framsýni að gera lagabreytingu sem heimilaði sameiningu og samstarf mjólkurvinnslustöðva þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga (lög nr. 44/2005). Með þessari lagabreytingu voru starfsskilyrði mjólkurvinnslunnar færð nær því sem gengur og gerist í Evrópu. Í framhaldi af lagabreytingunni hefur orðið mikil framleiðniaukning í mjólkurvinnslu og bilið milli vinnslukostnaðar hér á landi og erlendis þrengst að sama skapi. Það er hafið yfir allan vafa að án þessarar lagabreytingar hefði þessi ávinningur sem mælist verulegt hlutfall af framleiðsluverðmæti í mjólkurvinnslu á hverju ári ekki getað átt sér stað.Kjötvinnslan í landinu er á margan hátt í svipaðri stöðu og mjólkurvinnslan var um síðustu aldamót. Vinnslustöðvar eru margar og smáar og vinnslukostnaður því óþarflega hár. Útreikningar sem gerðir hafa verið benda til að verði þessum stöðvum leyfð samvinna og sameiningar muni taka við hliðstætt skeið framleiðniaukningar og orðið hefur í mjólkurvinnslunni. Vinnslukostnaður muni lækka stórlega sem getur bæði þýtt hærra afurðaverð til bænda og lægra verð til neytenda. Með samvinnu og sameiningu munu jafnframt verða til sterkari rekstrareiningar sem verða betur til þess fallnar að haga rekstri sínum þannig að markmiðum nýrrar landbúnaðarstefnu, t.d. varðandi kolefnisjöfnun, verði náð. Af þessum ástæðum hafa stjórnvöld hugleitt að greiða fyrir þessu framfaraskrefi með því að veita kjötvinnslunni undanþágu frá almennum samkeppnisreglum.
Afstaða Samkeppniseftirlitsins
Nú bregður hins vegar svo við að Samkeppniseftirlitið, sem samkvæmt 1. grein laga sinna á að vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins og samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir neytendur, hefur snúist gegn þessu ótvíræða framfaraskrefi. Rök Samkeppniseftirlitsins virðast vera þau að sé þessi hagræðing í kjötvinnslu leyfð muni fyrirtækin fá sterkari markaðsstöðu sem þau gætu hugsanlega misnotað. Samkeppniseftirlitið virðist hafa gleymt því að það er ekki hlutverk þess að hindra að fyrirtæki landsmanna nái framleiðsluhagkvæmni. Þvert á móti. Til að lækka vöruverð og bæta hag neytenda á Samkeppniseftirlitið að stuðla að því eftir megni að framleiðsluhagkvæmni sé sem mest þannig að vöruverð geti verið sem lægst. Öðlist fyrirtæki við það sterka markaðsstöðu er það hins vegar verkefni Samkeppniseftirlitsins að sjá til þess að það misnoti hana ekki.
Leyfum íslenskum landbúnaði að eflast
Íslenskur landbúnaður býr við vaxandi samkeppni erlendis frá einkum frá Evrópusambandinu vegna viðskiptasamninga við það. Starfsskilyrði innlends landbúnaðar eru í mörgu lakari en keppinautanna í Evrópusambandinu. Þessi óhagstæðu starfsskilyrði eru að talsverðu leyti afleiðingar af innlendum stjórnvaldsákvörðunum. Vanhugsuð framkvæmd samkeppnislaga er hluti af þessari mismunun. Afar mikilvægt er að stjórnvöld beri gæfu til að fara að ábendingum þeim sem fram komu í skýrslu þeirra Björns Bjarnasonar og Hlédísar Sveinsdóttur og tryggi íslenskum landbúnaði samkeppnisskilyrði a.m.k. til jafns við það sem gengur og gerist í Evrópusambandinu.Höfundur er prófessor emeritus.