Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:
Tíðum þessi vatni veitir.
Víða fréttir ber um sveitir.
Miði sendur einatt yður.
Útgjalda mun vera liður.
Eysteinn Pétursson svarar:
Úr vatnspósti ég vel get svalað mér,
og víst með pósti fengið bréf frá þér.
Á gulum miðum gumar pósta fá.
Gjaldapósta vil ég ekki sjá.
„Lausnin er svona,“ segir Helgi Þorláksson:
Svalt úr pósti vatnið var,
víða póstur fregnir bar,
póstur færir miða mér,
mikill póstur skuldin er.
„Þá er það lausnin einu sinni enn,“ segir Helgi R. Einarsson:
Út póstinn póstur ber.
Úr pósti vatn má fá
og póstur atriði er
okkur löndum hjá.
Guðrún B. leysir gátuna þannig:
Frá vatnspósti dreifi vatni á lóð
og vænti pósts, þó blási gjóstur.
En gluggapóstinum leiðist ljóð,
og leigan er útgjaldapóstur.
Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna svona:
Tíðum póstur vatni veitir.
Víða póstur fer um sveitir.
Póstur sendur einatt yður.
Útgjalda er póstur liður.
Þá er limra:
Sigvaldi sunnanpóstur
var sífellt með erjur og róstur,
eitt sinn á bar
hann bandóður var
og brotinn hver gluggapóstur.
Síðan er ný gáta eftir Guðmund:
Fagurt syngur fugl á grein,
faðmar piltinn silkirein,
vor í garð nú gengið er,
og gátuskjáta berst frá mér:
Löngum þessi bagga ber.
Baggi reyndar sjálfur er.
Finna má í vefstól víst.
Á vanga kýstu að fá hann síst.
„Gæti verið verra“. Þessi limra fékk að fljóta með svari Helga R. Einarssonar:
Sem sagt eins og er
er hún Gunna ber-
strípuð hér
og storkar mér.
Ei sem verst í sjálfu sér.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is