Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
„Ísland nálgast það að eiga heimsmet í umfangi tekjutenginga með tilheyrandi tekjuskerðingum í opinbera almannatryggingakerfinu, ásamt Ástralíu. Hinar norrænu þjóðirnar beita tekjutengingum í mun minni mæli en Íslendingar – og er það mikilvægt frávik Íslands frá norræna velferðarlíkaninu.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Stefáns Ólafssonar prófessors og Stefáns Andra Stefánssonar, sem aðstoðaði við útreikninga og gagnavinnslu. Hún var unnin fyrir Eflingu – stéttarfélag og er sjónum beint að kjörum lífeyrisþega og samspili almannatrygginga og lífeyrissjóða í mótun tekna.
Margir glíma við lágtekjuvanda
Í rannsókninni kemur einnig fram að af hverjum 50.000 kr. sem einhleypir lífeyrisþegar fá aukalega úr lífeyrissjóði renna aðeins um 13.370 kr. til lífeyrisþegans. 36.600 kr. renna til ríkisins í gegnum skerðingar og skatta þegar tekjur lífeyrisþega úr lífeyrissjóði eru á bilinu 100.000 til 600.000 kr. Um 70-80% af ábatanum rennur þannig til ríkisins en ekki í vasa lífeyrisþega.
Sýndir eru útreikningar sem leiða m.a. í ljós að umtalsverður hluti lífeyrisþega er með minna í heildartekjur en nemur lágmarkslaunum á vinnumarkaði. Segja höfundar að því sé ljóst að umtalsverður hluti lífeyrisþega glími við mikinn lágtekjuvanda. 25 til 50% lífeyrisþega glíma núna við umtalsverðan lágtekjuvanda og er sá vandi mun meiri hjá lífeyrisþegum sem hafa starfað að mestu leyti á almennum markaði en hjá opinberum starfsmönnum sem búa við mun betri lífeyriskjör.
Bent er á að útgjaldabyrði íslenska ríkisins vegna greiðslu lífeyris er ein sú allra minnsta meðal vestrænna OECD-ríkja. Er það sögð vera mikilvæg skýring á umtalsverðum lágtekjuvanda meðal lífeyrisþega.
„Ójöfnuður í tekjudreifingu er meiri meðal eldri borgara á Íslandi en meðal almennings,“ segir í skýrslunni og í samantekt kemur fram að um 0,7% ellilífeyrisþega (67 ára og eldri) eru með meira en 2,5 milljónir á mánuði í heildartekjur. Stór hluti þeirra tekna eru fjármagnstekjur og atvinnutekjur. „Rúmlega helmingur bæði elli- og örorkulífeyrisþega var hins vegar með minna en 400.000 krónur í heildartekjur á mánuði samkvæmt skattframtölum ársins 2019 [...],“ segir þar.
Íslendingar skera sig úr
Þá er bent á að frá árinu 2012 til 2019 hafa ráðstöfunartekjur lágtekju-lífeyrisþega hækkað mun minna en ráðstöfunartekjur hátekju-lífeyrisþega. Er meginástæða þess sögð vera verulega aukin skattbyrði lágtekju-lífeyrisþega. Segja höfundar að með óvenjuharkalegum skerðingum skeri Íslendingar sig talsvert frá hinum Norðurlandaþjóðunum.