Feigðarós Kynningarmynd fyrir sýninguna sem opnuð verður í dag.
Feigðarós Kynningarmynd fyrir sýninguna sem opnuð verður í dag.
Myndlistarsýningin Feigðarós — Dreamfields verður opnuð í Kling & Bang galleríi í Marshall-húsinu í dag, laugardag, kl. 15 til 18.

Myndlistarsýningin Feigðarós — Dreamfields verður opnuð í Kling & Bang galleríi í Marshall-húsinu í dag, laugardag, kl. 15 til 18. Er það samsýning Önnu Hrundar Másdóttur, Ragnheiðar Káradóttur og Steinunnar Önnudóttur og ekki hefðbundin, að því er fram kemur í tilkynningu, heldur sameiginlegt verk þeirra þriggja, „innsetning þar sem höfundareinkenni þeirra fléttast saman og ummyndast er þær skyggnast inn í vinnuaðferðir og hugarheima hver annarrar, og leyfa tilraunagleði og slembilukku að leiða sig áfram,“ eins og þar stendur.

Innsetningin samanstendur af skúlptúrum sem minna á landslag, umlykja áhorfandann og draga upp umhverfi sem er á mörkum þess manngerða og þess náttúrulega, segir í tilkynningu og að lykilþættir í viðfangi og efnisgerð verkanna séu samband manngerðra efna og náttúru, samþætting og sundrun.

Textaverk eftir þekkta höfunda

Samhliða sýningunni kemur út bókverk sem er hluti þess umlykjandi heims sem innsetningin skapar. Í bókverkinu eru ljósmyndir sem unnar voru í aðdraganda sýningarinnar þar sem efnistilraunir eru settar í óvænt samhengi. Hluta þessara ljósmyndaverka má einnig sjá á sýningunni og í bókverkinu eru líka ný textaverk sem tengjast efni sýningarinnar. Þau eru eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Gunnar Theodór Eggertsson og Tyrfing Tyrfingsson.