Myndlistarsýningin Feigðarós — Dreamfields verður opnuð í Kling & Bang galleríi í Marshall-húsinu í dag, laugardag, kl. 15 til 18. Er það samsýning Önnu Hrundar Másdóttur, Ragnheiðar Káradóttur og Steinunnar Önnudóttur og ekki hefðbundin, að því er fram kemur í tilkynningu, heldur sameiginlegt verk þeirra þriggja, „innsetning þar sem höfundareinkenni þeirra fléttast saman og ummyndast er þær skyggnast inn í vinnuaðferðir og hugarheima hver annarrar, og leyfa tilraunagleði og slembilukku að leiða sig áfram,“ eins og þar stendur.
Innsetningin samanstendur af skúlptúrum sem minna á landslag, umlykja áhorfandann og draga upp umhverfi sem er á mörkum þess manngerða og þess náttúrulega, segir í tilkynningu og að lykilþættir í viðfangi og efnisgerð verkanna séu samband manngerðra efna og náttúru, samþætting og sundrun.