Guðjón Marteinn Kjartansson fæddist 21. apríl 1954. Hann lést 6. maí 2021.
Útför Guðjóns fór fram 15. maí 2021.
Við vorum að flytja inn í nýtt hús í þorpinu – verða hluti af Holtsgötugenginu. Það sem þótti meira eftirsóknarvert: húsið var við hliðina á Döggu og Gauja. Slíkum nágrönum fylgir ekki bara góð rútína, hljóð og nágrannavarsla – heldur hrein lífsgæði í formi gleði, kærleika og hlýju. Væntumþykju. Ekkert lýsir henni betur en innflutningsgjöfin frá þeim: snúrur í snúrustaurana – uppsettar með hundruð marglitra þvottaklemma. Gaui setti upp. Fjölskyldan kemur heim og heimurinn hlýnar – lítið kærleiksverk. Svo mildilega lesið í aðstæður. Falleg, nýtileg og fullkomin gjöf. Það eru litlu hversdagssögurnar sem segja hver við erum: í mínum huga lýsir þessi saga Gauja og Döggu. Kannski þarf ekki að segja meira. Gaui vermdi veröldina.
Sjá, dagarnir líða, í leiðslu vér hlustum
á laufið, sem hrynur um aldanna skóg
og leggst yfir stofnana sterku,
sem stormur og dauði til jarðar sló.
En þó að þeim visni hvert bjarkarblað
þá blómgast oss önnur í þeirra stað.
Því áfram skal haldið og aldrei þagnar
hin eilífa hrynjandi lífsins,
sem ymur um aldanna skóg.
Ég gæti sagt söguna af hetjunni sem gekk út í hamfarir sem eru óskiljanlegar – út í veðurofsa og fannfergisflóð sem þurrkar út líf. Helvítisástand sem eyðir fjölskyldum og skilur eftir sig holur í hjartanu. Byrjaði að grafa eftir lífi – í aðstæðum sem þurrka út allt líf fór Gaui út og leitaði að lífi, til að verma.
Ég gæti sagt sögu af einu af mörgum samtölum okkar á skrifstofunni. Gaui kom aldrei til að biðja um eitthvað – þoka einhverjum persónulegum málum áfram. Hann kom til að ræða þorpið – fjórðunginn, landið og heiminn. Þarna ræddum við snjóflóðið. Ég hafði ekki séð heljarmenni gráta áður. Kannski þýðir ekkert að reyna að botna í svona atburði – heldur taka nýrri veröld af auðmýkt og áhuga. Finna sér stað, hlutverk og verkefni í heimi sem er allur annar. Þessu samtali gleymi ég aldrei. Ég grét sjálfur þegar ég sagði síðar upp vinnunni minni – þarna á sömu skrifstofu. Hvíldi ögn rólegri í sjálfum mér þar sem ég hafði séð fyrirmynd gera það. Gaui vermdi mína veröld.
Sjá, laufið hrynur, en lífið er eilíft.
Lát lindirnar hníga í dimman sjó.
Því eitt sinn vor kynslíð skal eignast
í aldanna skóg sitt bergmál þó.
Ó, megi það hljóma sem heilagt ljóð,
er himninum blessar vort land og þjóð
og nýrri og fegurri veröld vísar
á veg hinna eilífu stjarna,
er skín yfir aldanna skóg.
Ég gæti sagt söguna af því þegar við Milla, þá nýflutt í þorpið, ung með barn á leiðinni – spennt en óörugg á nýjum stað, tókum fyrst á móti hjartahlýju og birtu þeirra hjóna. Drengurinn okkar fæddist, við komum heim og það var bankað létt á dyrnar. Þar stóðu þau með fána til að draga að húni fyrir framtíðinni og litlu fjölskyldunni okkar. Íslenskur fáni til að draga að húni þegar verma þarf veröldina. Allt í einu áttum við hlýtt heimili. Fáni sem fylgdi okkur suður. Fáni sem fylgir okkur veg fjölskyldunnar.
Það eru hversdagssögurnar sem segja til um hver við erum. Gaui vermdi veröldina með sínum sögum. Alla daga. Hefur þá ekki einn maður lifað til fulls?
Dagga, Ester, Sölvi og litla Hrefna, heimurinn er enn aftur allur annar. Okkar er ykkar.
Guð geymi Gauja á vegi hinna eilífu stjarna – vegi allra vega um aldanna skóg.
Sjá, laufið hrynur, en lífið er eilíft.
(Tómas Guðmundsson)
Pétur, Milla og börnin.