Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir fæddist 22. maí 1971 í Leuven í Belgíu þar sem fjölskylda hennar bjó á árunum 1965 til 1971. „Ég fæddist á fimmtugasta afmælisdegi Arndísar, móðurömmu minnar, sem hefði því orðið 100 ára í dag.“
Kolbrún ólst upp í Hlíðunum í Reykjavík, sótti leikskólann Hlíðaborg, síðan Ísaksskóla og Hlíðaskóla. „Öskjuhlíðin var ævintýraland okkar krakkanna og þá voru enn þá hesthús við Valsheimilið. Ég hef alltaf verið mikið fyrir dýr, átti hamstra, fugla og hest enda sótti ég reiðskólann í Saltvík nokkur sumur. Þá á ég margar góðar minningar frá litlum sumarbústað við Þingvallavatn þar sem við fjölskyldan áttum saman góðar stundir. Foreldrum mínum á ég mikið að þakka. Ég varð ung móðir og þau studdu mig gegnum þykkt og þunnt.“
Hún varð stúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 1991, lauk BA-prófi í heimspeki árið 1997 og meistaraprófi í menntunarfræðum vorið 2001. Kolbrún starfaði hjá Reykjavíkurborg við uppbyggingu og þróun frístundaheimila á árunum 2002 til 2008. „Ég áttaði mig á því að það vantaði rannsóknir á mikilvægi þess óformlega náms sem átti sér stað í frístundastarfinu og smellti mér í doktorsnám.“
Kolbrún lauk doktorsprófi í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands árið 2012 og fjallaði doktorsritgerð hennar um starfsemi og menntagildi frístundaheimila fyrir sex til níu ára börn. „Það er sífellt að koma betur í ljós hve mikilvægt er að efla félagslega stöðu barna og virkni þeirra í jafningjahópnum. Markvisst starf á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum og gott samstarf við skóla getur skipt sköpum til að styðja við velferð barna og ungmenna.“
Hún segist leggja mikið upp úr því að njóta lífsins með fjölskyldu, vinum og traustu samstarfsfólki. „Ég er dálítill vinnufíkill en ég er svo lánsöm að vinna að verkefnum sem ég brenn fyrir og með öflugu samstarfsfólki innan og utan Háskóla Íslands.“ Róbert, eiginmaður hennar, starfar einnig við Háskóla Íslands. „Við erum samhent í leik og starfi, og vorum nýlega að koma okkur fyrir í draumaíbúðinni á Kársnesi. Við vegum hvort annað ágætlega upp, ég er mátulega afslöppuð og Róbert ákaflega ábyrgur. Gæfa mín er að eiga góða fjölskyldu og frítímanum ver ég mest með henni. Við hlæjum mikið saman, húmor er lykilatriði í fjölskyldulífi. Ég er mikil félagsvera, er í ýmsum félagsskap og stunda einnig sund og líkamsrækt árið um kring. Læt mér aldrei leiðast.“
Kolbrún segist hafa ákveðið að halda upp á daginn með litlu fjölskylduboði en börnin hafi einnig skipulagt óvissuferð. „Þau vita að það er stutt í barnið í mér, ég hef mjög gaman af ævintýrum, leikjum og gleðistundum í góðra vina hópi.“
Kolbrún hefur birt fræðigreinar bæði á innlendum og erlendum vettvangi og tekið virkan þátt í stefnumótun innan menntakerfisins. „Uppeldi, menntun og þroski einstaklinga hafa átt hug minn alla tíð,“ segir hún, „og það er lykilatriði fyrir farsæld einstaklinga og framþróun samfélaga að tryggja grunnstoðir í lífi barna og ungmenna. Hver manneskja á skilið að fá stuðning og hvatningu til að láta drauma sína rætast og taka þátt í samfélaginu. Ég hef unnið víða í skóla- og frístundastarfi og kynnst mörgum fyrirmyndum, kennurum, frístundaráðgjöfum og öðru fagfólki, sem snerta við lífi einstaklinga.“ Kolbrún bendir á að menntun sé ævilangt ferli. „Við erum alltaf að læra og þroskast, hver manneskja er gerð til þess. Í raun er lífið eitt allsherjar ævintýri og kraftaverk gerast á hverjum degi. Mér finnst afskaplega gaman að fá að vera til.“
Fjölskylda
Eiginmaður Kolbrúnar er Róbert H. Haraldsson, f. 5.10. 1959, sviðsstjóri kennslumála við Háskóla Íslands og prófessor í heimspeki. Þau eru nýflutt í Kársneshverfið í Kópavogi. Foreldrar Róberts voru Jónína Sísi Bender húsmóðir, f. 15.7. 1935 í Reykjavík, d. 29.4. 2010, og Haraldur Jakobsson verslunarmaður, f. 9.6. 1934 í Reykjavík, d. 16.8. 1975. Fósturforeldrar Róberts voru Hanna Halldórsdóttir og Kristján Friðbergsson á Kumbaravogi. Fyrrverandi sambýlismaður Kolbrúnar er Mímir Ingvarsson, f. 11.5. 1962, garðyrkjumaður.Börn: 1) Sunna Ösp Mímisdóttir, f. 16.9. 1986, stuðningsfulltrúi og sálfræðinemi, búsett í Reykjavík. Maki: Richard Henzler frístundaráðgjafi; 2) Sóley Auður Mímisdóttir, f. 10.9. 1991, nemi og fv. flugfreyja, búsett í Reykjavík. Maki: Enesid Tresi verkamaður; 3) Ragnhildur Róbertsdóttir, f. 1.7. 1994, myndlistarkona og frístundaráðgjafi, búsett í Reykjavík; 4) Kolbrún Brynja Róbertsdóttir, f. 8.6. 1997, ítölskunemi, búsett í Kópavogi; 5) Páll Kári Róbertsson, f. 15.4. 2001, lögfræðinemi, búsettur í Kópavogi.
Systkini: Birgir Pálsson, f. 16.9. 1966, tölvunarfræðingur í Reykjavík, og Andri Páll Pálsson, f. 7.9. 1976, tölvunarfræðingur í Reykjavík.
Foreldrar: Auður Birgisdóttir, f. 13.2. 1945 á Ísafirði, fv. deildarstjóri á Ferðaskrifstofu Íslands, og Páll Skúlason, f. 4.6. 1945 á Akureyri, d. 22.4. 2015, heimspekingur og rektor Háskóla Íslands.