Lakers Ef Anthony Davis og LeBron James ná sér vel á strik eftir meiðslin gætu meistararnir í Los Angeles Lakers farið langt í úrslitakeppninni.
Lakers Ef Anthony Davis og LeBron James ná sér vel á strik eftir meiðslin gætu meistararnir í Los Angeles Lakers farið langt í úrslitakeppninni. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NBA Gunnar Valgeirsson Los Angeles Úrslitakeppnin í NBA-deildinni hefst í dag eftir deildakeppni sem var óvenjuleg að mörgu leyti.

NBA

Gunnar Valgeirsson

Los Angeles

Úrslitakeppnin í NBA-deildinni hefst í dag eftir deildakeppni sem var óvenjuleg að mörgu leyti. Leikjaröðinni var pakkað saman af deildinni og hvíld sumra liðanna milli tveggja tímabila var styttri en að venju, sérstaklega fyrir liðin sem voru að berjast lengst í „kúlunni“ svokölluðu síðasta vetur.

Afraksturinn af þessu öllu urðu fleiri langvarandi meiðsl margra lykilleikmanna en að venju, þannig að mörg lið eru að koma inn í þessa úrslitakeppni með stórar spurningar um getu og liðsheild á vellinum. Lið með lykilleikmenn í langvarandi meiðslum ákváðu að fórna sigrum til að halda liðsmannahópnum saman og vona að leikmenn eins og LeBron James, James Harden og Kevin Durant nái að komast í toppform á réttum tíma. Af þessum sökum eru kannski fleiri spurningar en svör nú varðandi möguleika liðanna í úrslitakeppninni en venjulega.

Til að gera hlutina flóknari fyrir alla ákvað deildin í samvinnu við leikmenn, að gefa liðunum í níunda og tíunda sæti tækifæri á að komast í úrslitakeppnina. Ákvörðun sem er í anda stóru atvinnuíþróttadeildanna hér vestra um að fjölga leikjum sem mest til að búa til nýtt sjónvarpsefni fyrir fjölmiðlaheiminn.

Því stóra vandamálið í okkar heimi í dag er of fáir NBA-leikir fyrir úrslitakeppnina.

Fyrir utan Los Angeles Lakers var ekkert lið í þessu umspili sem átti endilega erindi í úrslitakeppnina. Í staðinn fengum við NBA-eðjótar vikuhvíld fyrir alvöru-úrslitakeppnina.

Mekka körfuboltans að vakna

Philadelphia, Brooklyn og Milwaukee virðast skera sig úr í Austurdeildinni en fyrir undirritaðan er saga keppnistímabilsins persónuleg varðandi árangur New York Knicks. Í borg oft nefnd Mekka körfuboltans hérna vestra.

Í aldarfjórðung hefur ákaft stuðningsfólk Knicks og Nets mátt þola hvert hörmungarleiktímabilið af öðru. Nú eru aðrir tímar í New York, þar sem bæði Knicks og Nets verða loks með í toppbaráttunni svo seint á keppnistímabilinu.

Þessi lið mætast í fyrstu umferð í Austurdeildinni:

Philadelphia 76ers – Washington

Brooklyn Nets – Boston Celtics

Milwaukee Bucks – Miami Heat

New York Knicks – Atlanta

Utah, Phoenix og Denver voru yfirburðarliðin í Vesturdeildinni, en meiðsl settu stórt strik í reikninginn hjá Kaliforníuliðunum LA Lakers, LA Clippers og Golden State. Meistarar Lakers binda miklar vonir við að James og Davis hafi nú náð sér nógu vel á strik eftir meiðsl undanfarnar vikur til að geta varið titilinn, en það er alls ekki gefið. Mér finnst leikur liðsins um þessar mundir ekki sýna meistaratakta.

Þessi lið mætast í fyrstu umferð í Vesturdeildinni:

Utah – Golden State/Memphis

Phoenix Suns – LA Lakers

Denver Nuggets – Portland

LA Clippers – Dallas Mavericks

*Mun ítarlegri útgáfa af greininni er á mbl.is/sport/korfubolti.

gval@mbl.is