Áætlað er að fjöldi brottfara frá Keflavíkurflugvelli verði tvöfalt meiri en í fyrra. Þetta kemur fram í svari Isavia við skriflegri fyrirspurn Morgunblaðsins. „Þetta eru þó ekki endanlegar tölur þar sem flugfélög eru mörg hver enn ekki búin að fastsetja sínar ákvarðanir og eru að hinkra eftir t.d. nánari upplýsingum um atriði eins og reglur á landamærum og litakóðunarkerfi,“ segir í svarinu.
Þar kemur fram að Isavia sé bjartsýnt á sumarið og telji mikla eftirspurn eftir flugferðum til Íslands. Þetta endurspeglast meðal annars í ákvörðun bandaríska flugfélagsins Delta um að hefja flug til Íslands í dag frá Boston og er það fyrsta nýja alþjóðlega flugleið þess félags frá því Covid-19-heimsfaraldurinn hófst.