Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson: "Bænin er svo friðgefandi, vonarstyrkjandi og kærleiksnærandi. Bænin stillir kvíða og losar um streitu. Hún veitir huganum ró og færir frið í hjarta."

Segjum börnunum okkar og barnabörnum og börnum þessa heims frá bæninni. Höfum fyrir þeim að fela okkur Guði á vald. Honum sem skapaði okkur og elskar okkur mest og hét því að sleppa aldrei af okkur takinu og yfirgefa okkur aldrei, sama hvað. Því bæn í Jesú nafni er raunverulega friðgefandi, vonarstyrkjandi og kærleiksnærandi.

Í bæninni gerumst við auðmjúk og einlæg. Við gerumst heiðarleg við okkur sjálf og við Guð, alla vega á meðan á henni stendur. Bænin stillir kvíða og losar um streitu. Hún skerpir einbeitinguna og fær okkur til samkenndar, til að setja okkur í spor annarra. Bænin veitir huganum ró og færir frið í hjarta.

Með bæninni tökum við að átta okkur betur á okkur sjálfum, raunverulegum þörfum okkar og vilja, samferðafólki okkar, umhverfinu og Guði. Við tökum að skynja betur hver við erum og hvert við þráum að stefna og það sem skiptir okkur mestu máli í lífinu.

Bænin er góð forvörn. Hún minnir okkur á í daglegu lífi hvers við báðum um morguninn eða í hádeginu, við kvöldverðarborðið eða fyrir svefninn á kvöldin. Bænin minnir okkur einnig á það að við megum og getum beðið til Guðs hvar og hvenær sem er og lagt allt sem á okkur hvílir á Guðs herðar samkvæmt hans boði og vilja í trausti þess að hann muni leiða okkur frá öllu illu, vera okkur vernd og skjól þegar tekur í og gefur á.

Munum samt að bænin virkar ekki eins og sjálfsali á efnisleg gæði heldur að fela sig höfundi og fullkomnara lífsins í vanmætti. Honum sem sér í okkur eilífðarverðmæti sem hann vill ekki að fari til spillis. Með bæninni tökum við nefnilega að sjá og upplifa fegurð lífsins, jafnvel þrátt fyrir allt. Því bænin fær okkur til að opna augun. Hún virkjar þakklætið. Hún eflir sjálfstraust og virðingu fyrir náunganum.

Takk Guð

Og svo er það náttúrulega söngurinn og tónlistin sem mýkir hjartað, styrkir andann, gleður geðið og nærir sálina. Söngurinn og bænin eru nefnilega gömul en góð sívirk meðul okkur af Guði gefin ásamt brosinu bjarta, frelsandi fyrirgefningu, hlátrinum og tárunum.

Takk Guð fyrir að elska okkur eins og við erum. Takk fyrir lausnina sem bæninni fylgir og takk fyrir þína takmarkalausu fyrirgefningu. Takk fyrir söng fugla og manna, alla tjáningu tónlistarinnar og ritlistarinnar, já og myndlistarinnar.

Takk fyrir táknmál táranna sem glóa svo fallega í minningunni. Tárin eru svo dýrðleg gjöf sem minna á samstöðu þína og miskunn á erfiðum tímum sem og á gleðistundum. Og takk fyrir öll hin ólíku bros mannanna og hláturinn sem losar um streitu og spennu og eflir samstöðu og vináttu, gerir allt svo miklu betra svo okkur tekur að líða betur og líka í gegnum tregatárin sem hlátrinum getur svo auðveldlega fylgt.

Brosum saman inn í sumarið því við eigum lífið framundan.

Með samstöðu-, kærleiks- og friðarkveðju.

– Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf.: Sigurbjörn Þorkelsson