Víkingaklúbburinn er Íslandsmeistari skákfélaga fyrir tímabilið 2019-2020 en Íslandsmótið var til lykta leitt um síðustu helgi í 1. og 2. deild. Úrslit fyrri hlutans voru látin gilda í 3. og 4. deild. Víkingaklúbburinn hlaut 53 vinninga af 72 mögulegum , SSON varð í 2. sæti með 48 vinninga, Huginn í 3. sæti með 46½ vinning, Fjölnir og TR (a-sveit) í 4.- 5. sæti með 41 vinning og Skákfélag Akureyrar varð í 6. sæti með 39 vinninga. Öll þessi lið færast upp í úrvalsdeild sem hefst á hausti komanda en þar verða tefldar tíu umferðir í þrem hrinum keppninnar.
Í 2. deild sigraði Skákdeild KR, hlaut 30 vinninga af 42 . Taflfélag Vestmannaeyja varð í 2. sæti með 28½ vinning, Skákfélag Akureyrar (b-sveit) varð í 3. sæti með 27½ vinning og Skákfélagið Huginn (b-sveit) varð í 4. sæti með 25½ vinning. Þessi lið færast upp í hina nýju 1. deild Íslandsmótsins.
Margir náðu góðum úrslitum í seinni hluta keppninnar um helgina. Hinn 18 ára gamli Vignir Vatnar Stefánsson náði lokaáfanga sínum að alþjóðlegum meistaratitli. Héðinn Steingrímsson og Alexander Oliver Mai unnu allar skákir sínar og nýbakaður Íslandsmeistari, Hjörvar Steinn Grétarsson, hlaut 3½ vinning af 4 á 1. borði Hugins og kemst nú yfir 2600 elo-stig. Þá náði Guðlaug Þorsteinsdóttir jafntefli í skák sinni við Jóhann Hjartarson sem var nokkuð frá sínu besta eftir að hafa unnið allar fimm skákir sínar í fyrri helmingi keppninnar haustið 2019. Íslandsmótið er stíft keyrt áfram, fjórar skákir á tveim sólarhringum er fullmikið finnst mörgum.
Þrátt fyrir margar skemmtilegar skákir og góð tilþrif vakti ein viðureign sennilega meiri athygli en aðrar og fór hún þó fram á einu af neðri borðum efstu deildar. Báðir keppendur geta státað af eftirtektarverðum árangri við skákborðið, t.d. var Bergsteinn Einarsson í frægu liði sem vann ólympíugull á Ólympíumóti 16 ára yngri á Kanaríeyjum árið 1995. Fimm drottningar sáu dagsins ljós og er það afar fátítt.
Íslandsmót skákfélaga 2019-2020; 8. umferð:
- Sjá stöðumynd -
Bergsteinn Einarsson (TR ) – Atli Freyr Kristjánsson (Huginn)
Hvítur vakti upp drottningu á d8 í síðasta leik sínum og svartur svaraði í sömu mynt a1 í leiknum þar á undan. Hvítur þarf nú að verjast aðsteðjandi máthótun 46. ... Dg1+ 47. Dxg1 Dxg1+ 48. Kh4 Df2+ 49. Kh5 g6 mát. Í ofanálag þarf hann að berjast við frípeð svarts og tiltölulega trausta kóngsstöðu svarts. Góð ráð eru dýr...
46. Dd2 Dg1+
Þetta lítur auðvitað vel út en einnig kom til greina að leika 46. ... a3.
47. Dxg1 Dxg1+ 48. Kh4 Db1?
Eftir 48. ... a3 getur hvítur ekki stöðvað för a-peðsins vegna sífelldra máthótana, t.d. 49. Dd7 Df2+ 50. Kh5 Dxf3+ 51. Kh4 Dxf4+ 52. Kh5 Dg5 mát.
49. Dd7 a3
Hann er enn með unnið en einfaldara var 49. ... De1+ 50. Kh5 Dg3 o.s.frv.
50. Df7 a2??
Gáir ekki að sér. Vinninginn var að hafa með 50. ... Dg1 51. Kh5 Dg3! o.s.frv.
51. Kh5! Dg1 52. h4! a1(D)
53. Dxg7+! Daxg7
Patt!
Bestum árangri þeirra sem tefldu sex skákir eða meira, og er þar miðað við árangur reiknaðan upp á stig, náðu Hjörvar Steinn Grétarsson, 2652, Rússinn Anton Demchenko sem tefldi fyrir SSON 2616 og Hannes Hlífar Stefánsson 2603. Björn Þorfinnsson sem tefldi fyrir Víkingaklúbbinn náði hæsta vinningshlutfallinu, hlaut 8 vinninga af 9 mögulegum.
Helgi Ólafsson helol@simnet.is