Fram og Fjölnir eru bæði með níu stig eftir þrjár umferðir í 1. deild karla í fótbolta eftir góða sigra í gærkvöld en Ólafsvíkingar sitja eftir stigalausir á botninum.
Fram vann Þór 4:1 í Safamýri. Indriði Þorláksson skoraði tvö mörk, Kyle McLagan og Fred Saraiva eitt hvor en Bjarni Guðjón Brynjólfsson gerði mark Þórs í blálokin.
Ragnar Leósson og Hilmir Rafn Mikaelsson tryggðu Fjölni góðan útisigur í Grindavík, 2:0.
Eyjamenn fengu sín fyrstu stig þegar þeir burstuðu Aftureldingu 5:0 í Mosfellsbæ. Guðjón Pétur Lýðsson skoraði fyrst og síðan gerðu José Sito og Gonzalo Zamorano tvö mörk hvor.
Kórdrengir unnu sinn fyrsta 1. deildar leik, 3:1 í Ólafsvík. Davíð Þór Ásbjörnsson gerði tvö mörk og Loic Ondo eitt en Harley Willard svaraði fyrir Víkinga undir lokin.
Þróttur fékk sín fyrstu stig með 3:1 sigri gegn Selfossi. Jón Guðbergsson, Lárus Björnsson og Hafþór Pétursson skoruðu fyrir Þrótt en Hrvoje Tokic fyrir Selfoss.