Óvissa um gagnkvæma viðurkenningu og fullnustu dóma ríkisdómstóla í einkamálum á milli Bretlands og Íslands er ein afleiðing Brexit sem hefur komið mörgum í opna skjöldu og getur valdið vandkvæðum í alþjóðlegum viðskiptum íslenskra aðila.
Lúganósamningurinn
Fyrir Brexit voru bæði Bretland (sem ESB-ríki) og Ísland (sem EES-ríki) aðilar að Lúganósamningnum um dómsvald og viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum. Við Brexit féll aðild Bretlands að Lúganósamningnum niður, sem gerir það að verkum að eins og sakir standa ríkir óvissa um hvort íslenskir dómstólar munu veita enskum dómum fullnustu og þá jafnframt hvort enskir dómstólar munu veita íslenskum dómum fullnustu.
Bagaleg óvissa
Slík óvissa er bagaleg í ljósi mikilla viðskipta á milli Bretlands og Íslands og ótölulegs fjölda viðskipta- og fjármálasamninga á milli íslenskra og erlendra aðila, þar sem samið hefur verið um lögsögu enskra dómstóla, en afar algengt er að aðilar velji ensk lög og lögsögu enskra dómstóla í alþjóðlegum viðskiptum, enda þótt viðskiptin varði ekki England að neinu öðru leyti.Að óbreyttu er ekki hægt að segja til um með vissu hvernig íslenskir dómstólar munu taka á málum þar sem reynir á fullnustu enskra dóma, en fullyrða má að ekkert í íslenskum rétti eða alþjóðlegum samningum skyldar íslenska dómstóla til slíkrar beinnar viðurkenningar og fullnustu enskra dóma með sama hætti og gildir samkvæmt Lúganósamningnum í tengslum við dóma frá öðrum EES-ríkjum, sem og frá Sviss.
Lausnir í einstökum tilvikum
Nokkrar leiðir eru færar til að eyða núverandi óvissu. Fyrst er að nefna að Bretland hefur sótt um enduraðild að Lúganósamningnum og nú sem sérstakt ríki. Evrópusambandið hefur til þessa verið tregt til að samþykkja slíka aðild Bretlands, hugsanlega til að geta notað sem skiptimynt í tengslum við samkomulag um aðra samninga ESB og Bretlands, og er alls óvíst hvort aðildin verður að veruleika.Í einstökum tilvikum er nú byggt á eldri tvíhliða samningum um þessi efni á milli Bretlands og einstakra ríkja og sem voru gerðir áður en Bretland gerðist aðili að ESB. Í þessu sambandi er nærtækast að nefna Noreg, en norsk og bresk stjórnvöld hafa lífgað við tvíhliða samning á milli ríkjanna frá árinu 1961 í þessu skyni. Enginn slíkur tvíhliða samningur er milli Íslands og Bretlands.
Einnig er vert að geta Haag-samnings frá árinu 2005 um samninga um lögsöguval (e. Convention on choice of court agreements), sem kveður á um gagnkvæma viðurkenningu og fullnustu dóma þegar aðilar viðskiptasamnings hafa samið um einhliða lögsögu tiltekins ríkisdómstóls (e. exclusive jurisdiction) og þegar hvorugur aðila er neytandi eða í stöðu starfsmanns í ráðningarsambandi. ESB fullgilti aðild sína að Haag-samningnum árið 2015 og við Brexit endurnýjaði Bretland sérstaka aðild sína og gildir samningurinn nú á milli Bretlands og einstakra ESB ríkja. Haag-samningurinn leysir þannig úr ofangreindri óvissu að nokkru leyti. Ísland hefur hins vegar ekki gerst aðili að Haag-samningnum og gildir hann þess vegna ekki í neinum tilvikum á milli Bretlands og Íslands.
Varanleg lausn fyrir Ísland?
Þar sem enn er óljóst um nýja aðild Bretlands að Lúganósamningnum er fátt annað til ráða en að Ísland og Bretland geri með sér tvíhliða samning um gagnkvæma viðurkenningu og fullnustu dóma ríkisdómstóla í einkamálum til að eyða núverandi óvissu. Slík gagnkvæm viðurkenning og fullnusta var til staðar á milli ríkjanna eftir að Ísland gerðist aðili að EES árið 1994 og allt þar til þann 31. desember 2020. Þannig væri ekki um nýbreytni að ræða, heldur væri slíkt miklu fremur varanleg framlenging á fyrirkomulagi, sem hefur verið við lýði á milli Bretlands og Íslands í hátt í þrjá áratugi og sem er í raun óháð sameiginlegu regluverki á einstökum sviðum EES-réttar, ekki síst með það í huga að samninga-, kaupa- og kröfuréttur er ekki hluti EES. Þá skortir ekki gagnlegar fyrirmyndir að slíkum samningi, hvort sem fylgt væri orðalagi Lúganósamningsins eða til dæmis tvíhliða samningi Bretlands og Noregs, með öllum þeim breytingum sem Bretland og Ísland kynnu að telja æskilegar.Með því að gera tvíhliða samning milli Íslands og Bretlands um lögsöguval er með einföldum hætti unnt að eyða óvissu og sýna í verki vilja til að styrkja sambandið milli landanna í kjölfar Brexit.
Höfundar, sem eru eigendur að lögmannsstofunni BBA//Fjeldco, eru íslenskir lögmenn og með lögmannsréttindi á Englandi (solicitors).